Bændur benda á að þessi þjónusta sé almennt ekki til í skipulögðu formi þótt það þekkist að einstaklingar bjóði upp á hana, sérstaklega í þéttbýlli sveitum
Bændur benda á að þessi þjónusta sé almennt ekki til í skipulögðu formi þótt það þekkist að einstaklingar bjóði upp á hana, sérstaklega í þéttbýlli sveitum
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Höfundur: Þröstur Helgason

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysingar að fullri atvinnu og erfitt er að nálgast upplýsingar um þá sem það gera. Afleysingafólk segir vinnuna skemmtilega en hún krefjist mikillar fjarveru frá heimili og geti verið sveiflukennd.

Bændur benda á að þessi þjónusta sé almennt ekki til í skipulögðu formi þótt það þekkist að einstaklingar bjóði upp á hana, sérstaklega í þéttbýlli sveitum.

„Í einhverjum tilvikum þekkist það að nágrannar hjálpist að ef einhver er að fara í frí og á það þá helst við um vetrartímann þegar hægt er að koma hlutum þannig fyrir að eingöngu sé um gjafir og eftirlit að ræða,“ segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður búgreinadeildar sauðfjárbænda. „Ef slys eða veikindi ber að garði er oft alls óljóst hvernig hlutirnir eru leystir og yfirleitt redda menn sér en oft er það á kostnað þess að fólk er ekki búið að ná fullri heilsu þegar það fer af stað aftur.“

Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda, segir afleysingamál mjög oft nefnd þegar talað er um hvað þurfi að bæta í starfsaðstæðum nautgripabænda: „Hver og einn bóndi leysir sín afleysingamál. Það vantar fleiri sem bjóða upp á þessa þjónustu.“

Sama hljóð var að heyra í formanni búgreinadeildar svínabænda, Ingva Stefánssyni: „Bændur hafa alfarið séð um þetta sjálfir.“ En munurinn er þó sá að hann segir störf svínabænda mjög sérhæfð og því erfitt að fá fólk með reynslu.

„Það er því klárlega skortur á þessari þjónustu hjá svínabændum. Ég geri þó ráð fyrir að það geti orðið flókið að finna lausn á þessu máli fyrir bændur almennt. Landið er stórt og fámennt.“ Af viðbrögum bænda við fyrirspurn Bændablaðsins má ráða að þörfin sé einna mest meðal sauðfjárbænda og nautgripabænda og svo hjá minni búum, frekar en stærri sem hafa starfsfólk á sínum snærum, svo sem í svínarækt og garðyrkju. Alifuglabændur og eggjabændur segja þessa umræðu ekki hafa komið upp hjá sér enda flest bú með starfsfólk.

Erlendar fyrirmyndir

Á deildarfundi sauðfjárbænda í lok febrúar var rætt um að komið yrði á kerfi sambærilegu og þekkist í nágrannalöndum, t.d. Noregi og Finnlandi.

Í Noregi var sjúkra- og afleysingaþjónusta tekin upp árið 1991 þegar Norska landbúnaðarþjónustan (NLT) var stofnuð af bændum. Bændum er tryggð afleysingaþjónusta þegar veikindi eða slys ber að höndum en þeim stendur einnig til boða að kaupa afleysingu vegna fría.

Í Finnlandi er starfrækt afleysingaþjónusta á vegum hins opinbera fyrir bændur með búfé. Yfirumsjón með verkefninu hefur félags- og heilbrigðisráðuneyti Finnlands en dagleg umsýsla er í höndum Félags- og tryggingastofnunar bænda (Mela). Staðbundnar skrifstofur sem starfa fyrir eitt eða fleiri sveitarfélög sjá um verklega framkvæmd og ráða hæfilegan fjölda fólks til að sinna störfunum. Bændur þurfa að hafa gilda tryggingu til að hafa aðgang að þjónustunni. Bændur eiga rétt á 26 daga orlofi á hverju ári, þeim að kostnaðarlausu. Afleysingaþjónusta umfram það, til dæmis vegna veikinda, er niðurgreidd að hluta.

„Svona kerfi þekkjast líka í öðrum löndum, t.d. Bretlandi,“ segir Eyjólfur Ingvi. „Því alls staðar er þessi þjónusta talin mikilvæg fyrir dýravelferð og almenna velferð þeirra sem starfa í landbúnaði. Ég hugsa að í langflestum tilvikum þar sem upp hafa komið alvarleg dýravelferðarmál í gegnum tíðina hefði mátt afstýra slíku með inngripi því í mörgum slíkum tilvikum stafa þau af andlegri vanlíðan eða að bændur eru útkeyrðir og sjá ekki gegnum verkefnin. Það kemur niður á velferð bæði dýranna og bóndans.“

Á Bretlandseyjum eru starfrækt samtökin FCN sem eru sjálfboðaliðasamtök og góðgerðarsjóður sem veitir stuðning við bændur og fjölskyldur þeirra í erfiðleikum. Þau reka t.d. hjálparsíma á landsvísu og ef sá sem tekur á móti símtalinu metur stöðuna alvarlega er ræst út teymi til að dýrin líði ekki fyrir vandamál bóndans.

„Ég hlustaði á fyrirlestur hjá aðila frá þessum samtökum á ráðstefnu í Bretlandi fyrir nokkrum árum,“ segir Eyjólfur Ingvi, „og hugsaði með mér að fyrirkomulag sem þetta vantaði hér á landi.“

Forsenda nýliðunar

Í umræðum á deildarfundum búgreina í lok febrúar var bent á að afleysingaþjónusta við bændur væri ekki aðeins hagsmunamál starfandi bænda heldur og ein af forsendum nýliðunar í landbúnaði. Atvinnugreinin þarf að vera samkeppnishæf þegar kemur að því að ná í gott fólk.

„Yngra fólk sér hversu mikil binding er fólgin í því að velja sér starf í landbúnaði,“ segir Eyjólfur Ingvi.

„Tækifærin á vinnumarkaði eru fjölmörg þar sem vinnudagurinn er hefðbundinn og fjölskylduvænni. Í landbúnaði og allri matvælaframleiðslu þar sem er unnið með dýr þarf að sinna þeim alla daga ársins óháð því hvort lögbundinn frídagur er á almanakinu – það gleymist oft í almennri umræðu um landbúnað.“ 

„Samt hafa bændur enn samband“

Mér finnst eftirspurnin aukast með árunum,“ segir Gunnar Freyr Benediktsson, sem hefur sinnt afleysingum fyrir bændur í tíu ár en segist þó ekki hafa auglýst þjónustu sína í tæp þrjú ár. „Samt hafa bændur enn samband.“

Gunnar Freyr segir mikinn skort á fólki sem stundar þessa vinnu. „Ég myndi glaður halda þessu áfram ef aðstæður væru betri.“ Gunnar Freyr byrjaði í afleysingum á meðan hann stundaði nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri árið 2015.

„Það var góð leið til að þéna aukapening meðan maður var við nám og líka til að kynnast mismunandi sveitabæjum og sveitum. Eftir námið fór ég út til Danmerkur og vann þar í tvö ár en þegar ég kom heim þá mundi ég hversu mikil þörf var á þessari þjónustu fyrir bændur og hóf þá afleysingar í fullu starfi. Það var árið 2020."

Alltaf á flakki
Gunnar Freyr Benediktsson.

„Það var strax nóg að gera hjá mér og ég var fullbókaður marga mánuði fram í tímann," heldur Gunnar Freyr áfram. „Ég kom í flesta landshluta til að sinna afleysingum, bæði í stuttan tíma, til dæmis yfir helgi, og lengri, viku, stundum vikur eða jafnvel mánuð. En ég komst fljótt að því að þegar maður ferðast svona mikið vegna vinnu og er sjaldan að taka sér frí þá er maður að vissu leyti flökkudýr. Ég hætti í afleysingum aðallega vegna þess að maður var alltaf á flakki. Ég tók mér lítið af fríi, sem var auðvitað sjálfum mér að kenna. Svo var ég að borga af leiguhúsnæði en einungis heima tvo til fjóra daga í mánuði.“ Gunnar segist trúlega hafa getað skipulagt pantanir og þess háttar betur hjá sér því það komu lægðir inn á milli í vinnunni. „Eftirspurnin var alveg nógu mikil en það vantaði kannski eitthvert skipulag á þetta. Og það verður að viðurkennast að maður hafði oft áhyggjur af því hversu löng þessi vinnustopp voru og hvort maður yrði þá tekjulaus á meðan.“

Gunnar Freyr sinnir afleysingum ekki lengur í fullri vinnu. „Ég er samt enn þá að taka eina og eina helgi ef ég kemst í það og mun trúlega aldrei hætta þessu alveg. Mér finnst ekkert notalegra en að eyða helgi í kringum dýr í sveit.“

Mælir hiklaust með starfinu
María Svavarsdóttir

María Svavarsdóttir hefur haft afleysingar að fullri atvinnu um nokkurt skeið enda segir hún eftirspurnina mikla. „Hún er það mikil að þetta hefur verið mín aðalatvinnugrein í fimm til sex ár. Það vantar fólk í þessi störf. Og ég mæli hiklaust með þeim.“

María byrjaði feril sinn í afleysingum á því að senda foreldra sína í frí en þegar hún var sautján ára leysti hún frænda sinn á Kirkjulæk af í eina viku. „En vendipunkturinn var í byrjun árs 2004 þegar heiðurshjónin á Voðmúlastöðum höfðu samband við mig um afleysingu í tvær vikur og upp frá því byrjaði þetta sem aukavinna hjá mér.

Núna get ég haft þetta að fullri vinnu allt árið ef ég vil en ég reyni að mestu að vera í fríi á sumrin en það tekst yfirleitt ekki vegna mikillar eftirspurnar. Desember er þó oft rólegur en ég hef þó leyst af nokkrum sinnum yfir jól og áramót.“ María segir að fyrirkomulagið henti henni og hennar kúnnum. Hún geti ekki bent á neina galla á vinnunni aðra en þann að henni fylgir mikið flakk: „Maður býr allan ársins hring í tösku.“

Skylt efni: afleysingaþjónusta

Gömul saga og ný
Fréttaskýring 24. mars 2025

Gömul saga og ný

Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbún...

Mikil þörf á afleysingafólki
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysing...

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Fréttaskýring 12. mars 2025

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja

Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvæ...

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Fréttaskýring 25. febrúar 2025

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega

Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem e...

Er nauðsynlegt að vera með kornmyllu?
Fréttaskýring 10. febrúar 2025

Er nauðsynlegt að vera með kornmyllu?

Einu hveitimyllu landsins verður lokað á allra næstu vikum. Með því verða Íslend...

Bændur telja búgrein sína beitta misrétti innan stjórnsýslunnar
Fréttaskýring 5. febrúar 2025

Bændur telja búgrein sína beitta misrétti innan stjórnsýslunnar

Forsvarsmenn stærstu svínabúa landsins eiga í ágreiningi við hið opinbera vegna ...

Að bera kvíðboga fyrir óvissri framtíð
Fréttaskýring 17. janúar 2025

Að bera kvíðboga fyrir óvissri framtíð

Loftslagsbreytingar og þeir erfiðleikar sem þær valda fylla marga streitu og kví...

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...