Bændur telja búgrein sína beitta misrétti innan stjórnsýslunnar
Forsvarsmenn stærstu svínabúa landsins eiga í ágreiningi við hið opinbera vegna frárennslis frá framleiðslunni. Umhverfis- og orkustofnun segir óheimilt að losa úrgang úr búfjárframleiðslu í sjó í samræmi við reglur um varnir gegn vatnsmengun. Svínabændurnir, sem hafa viðhaft hreinsunarferla í tvo áratugi, segja áætlaða losun þeirra margfalt minni en losun frá þéttbýli og landeldi. Þeir telja sig því beitta misrétti og telja málið snúast um eitthvað allt annað en umhverfisvernd.
Svínahald lýtur fjölmörgum lögum og reglugerðum. Búgreinin er tilkynningaskyld en allir bændur sem ala dýr til manneldis reka matvælafyrirtæki og þurfa því starfsleyfi. Í starfsleyfum er kveðið á um ýmsa þætti starfseminnar, meðal annars mengunarvarnir. Þar á meðal er kveðið á um meðhöndlun mykju og frárennsli.
Langflest svínabú sem hafa nægilegt landrými dreifa allri mykju og skolvatni úr húsum til áburðar á land í nágrenni sínu. Hins vegar hafa tvö eldri svínabú, sem ekki hafa aðgengilegt land til dreifingar, farið öðruvísi að undanfarna tvo áratugi. Þetta eru svínabú Stjörnugríss í Brautarholti á Kjalarnesi og svínabú Síldar og fisks að Minni- Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Í samræmi við starfsleyfi sín hafa þau rekið hreinsivirki sem skilur sundur blaut- og þurrhluta mykjunnar. Þar er þurrefninu safnað og dreift eins og öðrum húsdýraáburði. Blauthlutinn fer í gegnum millitank á leið til sjávar. Ef tankurinn er stór á sér stað þar viðbótarfelling á þurrefni og jafnvel svokölluð afnítrun áður en hann rennur út í sjó.
Þau hreinsunarferli sem eiga sér stað á svínabúunum tveimur eru að sögn svínabændanna sem að þeim standa bæði sambærileg og jafnvel betri en gerist og gengur í landeldi og þéttbýli sem bæði hafa heimild til að losa úrgang í sjó, að uppfylltum tilteknum hreinsunarkröfum.
Svínabúin hafa látið óháðan aðila mæla köfnunarefni í frárennsli frá sinni starfsemi. „Sé miðað við svínabúið á Minni-Vatnsleysu þá losar það 5 til 10 tonn af köfnunarefni (N) á ári til sjávar miðað við nýlegar mælingar. Stærri bú geta losað heldur meira,“ segir Sveinn V. Jónsson, framkvæmdastjóri Síldar og fisks.
Hann segir jafnframt að áætluð losun frá fiskeldi á landi sem framleiðir 2.500 tonn á ári sé 100 til 150 tonn af köfnunarefni á ári. „Nú eru víða í uppbyggingu mun stærri landeldisfyrirtæki.“
Þá sé áætluð losun frá 5.000 manna íbúabyggð án matvælaiðnaðar rúmlega 20 tonn af köfnunarefni
á ári. „Þá er miðað við að hver einstaklingur gefi frá sér um 12 grömm af köfnunarefni á dag.“
Áformuðu gyltuhús í tveimur sveitarfélögum
Svínarækt félagsins Síld og fiskur samanstendur af gyltubúi, sem staðsett er á Minni-Vatnsleysu, þar sem um 540 gyltur eru aldar auk grísaeldis sem fer fram á fjórum stöðum á landinu. Um 70 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu sem vinnur úr aðföngum svínabúsins ýmsar kjötvörur undir merkjum Ali. Að sögn Sveins hefur félagið síðastliðin sjö ár átt í erfiðleikum með staðsetningu á nýjum húsakosti fyrir gyltur.
Fyrirtækið ætlaði að færa gyltuhúsið sitt annað en hefur í tveimur atlögum þurft að hætta við áform. Fyrst í Ölfusi í nágrenni Þorlákshafnar þar sem fundinn var staður við lóðirnar Víkursand 7 og 9 en vegna mikilla áforma um fiskeldi á svæðinu þótti staðsetning svínabús ekki heppileg. Þá festi félagið kaup á jörðinni Hólum í Árborg en áform um að byggja þar gyltubú féllu í grýttan jarðveg, meðal annars meðal nágranna og félagasamtaka, svo fallið var frá þeim áformum og jörðin seld aftur.
Brá félagið þá á það ráð að huga að frekari uppbyggingu á jörðinni Þórustöðum I í Ölfusi þar sem Síld og fiskur hefur rekið svínabú frá 1954. Áformaði fyrirtækið að byggja þar hús fyrir um 600 gyltur og eru þau að sögn Sveins í samræmi við skipulag Ölfuss og hafa fengið samþykkt bæjarráðs.
„Frá lok árs 2023 hefur þó lítið þokast í þessum efnum þar sem félagið hefur ekki verið að ýta á eftir því,“ segir Sveinn. Ástæða þess að félagið hefur ekki hafið byggingu á nýrri aðstöðu er mikil óvissa með aðstöðu sem félagið er með á Minni- Vatnsleysu.
Ástæðan fyrir að mögulega sé sú staða uppi á Vatnsleysuströnd hefur með meðhöndlun svokallaðs blauthluta að gera.

Vandræðagangur vegna blauthluta
„Drög að nýju starfsleyfi fyrir svínabú Síldar og fisks að Minni- Vatnsleysu voru gefin út í byrjun nóvember 2023 og í desember 2023 var gefið út nýtt starfsleyfi fyrir svínabúið að Minni-Vatnsleysu. Þar var gerð sú umtalsverða breyting að félaginu var bannað að nýta þann búnað sem verið hefur starfræktur frá árinu 2001,“ segir Sveinn.
Hann útskýrir að við búið sé rekið hreinsivirki; skiljustöð þar sem allur lífrænn úrgangur ásamt þvottavatni, skolvatni, gegnumrennslisvatni frá vatnsholu og rigningarvatni á svæðinu er safnað saman í brunn. „Því er svo dælt í skilju sem skilur allar fastar agnir sem eru stærri en 0,5 mm frá vökvanum. Fasta efnið er sett í gáma á svæðinu sem fluttir eru til áburðargjafar á tún og akra á Suður- og Vesturlandi. Blauthlutinn er leiddur í stóran tank þar sem það sem ekki skilst frá í skiljunni botnfellur. Úr þessum tanki er svo hleypt tvisvar til þrisvar í viku þegar sjávarstaða er há en vökvinn rennur um sjávarlögn sem er um 160 metra löng og endar á um 10 metra dýpi miðað við stórstreymisfjöru,“ segir Sveinn.
Hann segir undarlegt að nú skuli stjórnsýslan túlka reglur þannig að bannað sé að meðhöndla úrganginn á þennan hátt. Hann bendir á að hreinsistöðin hafi verið byggð árið 2001 í samræmi við lög og reglugerðir og aldrei á þeim 24 árum hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu eftirlitsaðila eða annarra. „Kerfið sem við höfum unnið eftir er frábært.“
Hann segir að það sem stjórnsýslan fari í raun fram á núna sé að öll mykja sé geymd og flutt á undirlendi til áburðar. Hins vegar er lítið um slíkt ræktarland á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Myndi það þýða tugmilljóna króna uppbyggingu á geymslum sem tækju við um 10–12 tonnum af frárennslinu á dag sem væri hægt að geyma í sex mánuði, eða um 2.000 rúmmetra af geymslurými. Sveini reiknast til að flutningurinn einn, þ.e. rekstur flutningabíls sem flytur svo mikið magn frá búinu, yrði kostnaðarauki upp á um 200.000 krónur daglega. Við það myndi molna hratt undan rekstrargrundvelli búsins. Þá setji hann spurningarmerki við umhverfisáhrif slíkra þungaflutninga auk þess sem lyktarmengun myndi aukast við þetta ferli.
Síld og fiskur kærði starfsleyfið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er niðurstaðna að vænta á næstu vikum.
Engin frávik eða rannsóknir sem sýna skaðleg áhrif
Svipað hreinsivirki er við svínabú Stjörnugríss á Kjalarnesi. Í september 2022 tilkynnti Umhverfisstofnun félaginu að þörf væri á að endurskoða og uppfæra starfsleyfi þess vegna svínabús fyrirtækisins í Brautarholti. Þar er rekið svínabú fyrir allt að 4.000 eldissvín.
Samkvæmt ákvörðuninni var meginástæða þess að endurskoða þurfti starfsleyfisskilyrði vegna „breytingar á reglum um bestu aðgengilegu tækni“ (BAT) varðandi losun blauthluta frá starfseminni. Losunin samræmdist ekki BAT- ákvæðum sem ganga eingöngu út frá því að húsdýraáburður sé borinn á land en ekki hleypt í vatn.
„Ákveðið var að taka upp starfsleyfið okkar þótt það væri töluvert eftir af starfsleyfistímanum. Það var gert án þess að taka tillit til þess rökstuðnings og athugasemda sem við höfðum. Þessi framkvæmd á losun blauthluta hefur verið viðhöfð þarna síðastliðin tuttugu ár, án frávika og án þess að nokkur sýni eða rannsóknir bendi til þess að þetta hafi nokkur skaðleg áhrif,“ segir Geir Gunnar Geirsson, forstjóri Stjörnugríss.
Hann bendir á að hreinsunarferlið fangi langmest af næringarefnum úr mykjunni, svo sem allan fosfór, áður en blauthlutinn fari í sjó. Eftir sem áður komi það ekki í veg fyrir að hluti köfnunarefnis fari í sjóinn. „Hann er þó ekki slæmur í sjálfu sér fyrir sjóinn, heldur hluti af vistkerfinu. Margir sérfræðingar og heilbrigðiseftirlitin hafa haldið því fram að köfnunarefni í ákveðnu magni geti út af fyrir sig haft jákvæð áhrif á sjávargróður og annað.“
Blauthlutinn sem fari frá starfsemi svínabúsins út í sjó sé því síst af öllu hættulegri en úrgangur úr öðrum fráveitum og bendir Geir Gunnar á að engin kemísk efni séu í losuninni þeirra, öfugt við það efni sem kemur úr frárennsli þéttbýlisstaða. „Sveitarfélög eru ekki einu sinni með álíka hreinsun og við og losa margfalt á við okkur og þar að auki óæskileg efni sem ekki er að finna hjá okkur.“
Vilja sitja við sama borð og aðrir
Geir Gunnar segir að fyrirtækið hafi gert athugasemdir við að sitja ekki við sama borð og aðrir hjá Umhverfis- og orkustofnun. „Dæmi eru um útgefin ný starfsleyfi núna, þar sem losun á næringarefnum og öðru er margföld á við það sem við höfum verið að starfrækja.“
Honum finnst því skjóta skökku við að þeim sé bannað það sem öðrum sé leyft. „Svínarækt hefur átt undir högg að sækja. Það virðist ekki vera til staðar vilji til að kynna sér hlutina í þaula heldur virðist vanþekking, sem er gróðrarstía öfgahyggju, meira áberandi í umræðunni. Við erum ekki að fara fram á neitt umfram aðra og höfum aldrei gert. Við framfylgjum öllum lögum og reglugerðum sem okkur eru settar og eru langt umfram aðrar búgreinar á Íslandi. Þarna finnst mér hins vegar einum of langt gengið í mismunun. Þetta mál snýst um eitthvað annað en mengun. Það er ekkert sem sýnir fram á skaðsemi eða einhverja vankanta í okkar starfsemi, síður en svo.“
Stjörnugrís fékk endurskoðað starfsleyfi í lok árs 2024 en í því eru settar nýjar kröfur um meðhöndlun blauthlutans. Í greinargerð með starfsleyfinu kemur fram að stjórnvaldið, sem nú heitir Umhverfis- og orkustofnun, sé tilbúið að skoða nánar lausnir varðandi hreinsun á blauthluta í samráði við Stjörnugrís en þar lýsir fyrirtækið sig reiðubúið að fjárfesta í frekari hreinsibúnaði, sjálfhreinsandi skilvindu og fleiri síum, til að ná enn meira af næringarefnum úr blauthlutanum. Ekkert liggi þó fyrir hverjar kröfurnar séu eða hvað þurfi nákvæmlega til að sögn Geirs.
Hann telur að meira liggi að baki en mengunar- og umhverfismál því svínaræktin hafi undanfarið þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum á mörgum vígstöðvum. „Það er engu líkara en um aktívisma sé að ræða frekar en faglega nálgun. Mér finnst svolítið sérstakt til þess að hugsa að ef starfsemin væri önnur búgrein eða jafnvel iðnaður, væri það án efa æskilegra þrátt fyrir mun meiri umhverfisáhrif, umfang og jafnvel verri aðbúnað. Það er eitthvað annað en fagleg sjónarmið sem liggja þarna að baki. Þetta snýst ekki um umhverfismál,“ segir Geir Gunnar.
Honum þykir eðlilegt að starfseminni sé mætt af jafnræði innan stjórnsýslunnar. „Okkur finnst oft að okkar búgrein vegið. Kröfur sem okkur eru settar eru oft langt umfram meðalhóf og ekki sambærilegar við það sem gengur og gerist bæði hér og erlendis. Er það ósanngjörn krafa að fara fram á fyrirsjáanleika, jafnræði og starfsumhverfi sem hægt er að treysta á? Það er og hefur ekki verið þannig og því þarf að breyta “ segir Geir Gunnar.

Ólíkar reglur gilda fyrir svínarækt og landeldi
Starfsemi Stjörnugríss í Brautarholti fellur undir I. viðauka laga um hollustuhætti og mengunarvarnir en fiskeldi fellur undir II. viðauka sömu laga. Því gilda ekki sömu reglur um losun úrgangs samkvæmt svari Umhverfis- og orkustofnunar við fyrirspurnum Bændablaðsins um grundvöll starfsleyfisskilyrða svínaræktar og landeldis.
„Samkvæmt 38. gr. laga nr. 7/1998 skulu rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka I–II, tryggja að starfsemi þeirra sé rekin í samræmi við eftirfarandi meginreglur, m.a. að notuð sé besta aðgengilega tækni (BAT) við reksturinn. Stofnunin hefur bent Stjörnugrís á að losun úrgangsins frá svínunum þurfi að vera í samræmi við BAT en það hafa verið gefnar út BAT- niðurstöður fyrir þéttbært eldi sem hafa verið innleiddar með reglugerð nr. 935/2018 um BAT (bestu aðgengilegu tækni) o.fl. á sviði atvinnurekstrar sem haft getur í för með sér mengun. Sömuleiðis hafa verið gefnar út BREF-skýrslur um þauleldi en þar er farið yfir bestu aðgengilegu tækni (BAT) og m.a. fjallað um aðferðir til að dreifa húsdýraáburði. Stofnunin telur það ekki samræmast BAT að losa blauthluta svínamykju út í sjó,“ segir í svari Hlínar Gísladóttur, lögfræðings hjá Umhverfis- og orkustofnun, sem síðan segir: „Þar sem fiskeldi fellur ekki undir tilskipun 2010/75/ ESB um losun í iðnaði þá hefur Evrópusambandið ekki gefið út BAT- niðurstöður fyrir þann atvinnurekstur.“
Í svínarækt sé almenna reglan sú að ekkert frárennsli komi frá gripa- og eldishúsum heldur sé því öllu safnað í haughús eða safnþrær til síðari dreifingar samkvæmt starfsreglum um góða búskaparhætti.
Í fiskeldi sé gerð krafa um að frárennsli sé hreinsað samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp. „Það er ekki rétt að fiskeldisfyrirtæki fái að losa sinn úrgang athugasemdarlaust út í sjó heldur er fyrirtækjunum skylt að uppfylla ákveðnar kröfur um losun næringarefna. Til að uppfylla þær kröfur er oftast nauðsynlegt að vera með einhvers konar hreinsibúnað, t.d. tromlusíu, sem fangar dauðfisk og fiskimykju/fastefni.“
Þá bætir Hlín við að í reglugerð ESB nr. 1069/2009, sem er löggjöf um aukaafurðir dýra og er innleidd hér á landi, sé húsdýraáburður skilgreindur sem allur skítur og/eða þvag alidýra, annarra en eldisfisks, með eða án undirburðar.