Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem ein gerð „úrgangs“. Það er á ábyrgð bænda sjálfra og annarra eigenda aukaafurðanna að koma þeim til viðeigandi förgunar, innan þeirra lögformlegu leiða sem eru í boði.
Um 87 prósent dýrahræja fóru til urðunar á árunum 2020 til 2022, samkvæmt tölum Umhverfis- og orkustofnunar, þrátt fyrir að í reynd sé urðun dýrahræja bönnuð. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2023 var hlutfallið af urðuðum dýrahræjum komið niður í um 53 prósent.

Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson, sérfræðingur á sviði orkuskipta- og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfis- og orkustofnun, segir að sögulega hafi gengið illa á Íslandi að koma dýraleifum og dýrahræjum í rétta meðhöndlun og því hafi sum sveitarfélög farið þá leið að safna þessum úrgangi á vegum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn sé ekki heimilt að niðurgreiða úrgangsmeðhöndlun nema upp að vissu marki, heldur eigi hún að innheimta gjald sem sé í samræmi við kostnaðinn við meðhöndlun úrgangsins. Það sé þess vegna eðlilegt að gjald sé innheimt fyrir rétta meðhöndlun dýraleifa og dýrahræja. Það eigi þó ekki að vera úr hófi og sá sem greiðir gjaldið hefur rétt á að fá að sjá sundurliðun á þeirri þjónustu sem býr að baki.
Íslenska fyrirkomulagið ekki talið standast EES-löggjöf
Sumarið 2022 féll dómur EFTA-dómstólsins þar sem fram kemur að fyrirkomulag á förgun á þessum aukaafurðum dýra á Íslandi sé ekki í samræmi við ákvæði EES-löggjafar.
ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, áminnti svo stjórnvöld í lok júní á síðasta ári fyrir að hafa ekki aðhafst í málinu frá því að dómurinn féll.
Aðeins brennslustöðin Kalka í Helguvík á Reykjanesi getur tekið við áhættuúrgangi í flokki 1, sem hræ af jórturdýrum eru. Urðun á viðurkenndum urðunarstöðum er aðeins leyfð fyrir aukaafurðir dýra í áhættuflokki 2, eftir viðeigandi sótthreinsun. Engin slík sótthreinsistöð er hins vegar til staðar í landinu.
Óánægja bænda með gjaldtöku
Dæmi eru um að bændur í Skagafirði og Flóahreppi hafi lýst óánægju sinni með gjaldtöku vegna söfnunar og förgunar á dýrahræjum og -leifum í sveitarfélögunum. Sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag þessara mála og útfæra nánari ákvæði í samþykktum um meðhöndlun úrgangs og í gjaldskrá þeirra. Málefni söfnunar, meðferðar og förgunar aukaafurða dýra eru hins vegar á ábyrgð fimm stjórnsýsluaðila og enginn virkur samráðsvettvangur fyrir samhæfingu aðgerða. Matvælastofnun fer formlega með málefni aukaafurða dýra. Þar innanborðs er viðurkennt að skortur sé á úrræðum í málaflokknum, til að mynda of fáir förgunarstaðir, og leita þurfi viðunandi lausna.
Fjallað var um tvö tiltekin mál í síðasta Bændablaði, þar sem fyrirkomulag er með misjöfnum hætti hvað varðar möguleika bænda á að sækja sér þessa þjónustu með öðrum leiðum en þeirri sem sveitarfélagið leggur til.
Hagstæðara gjald utan sveitarfélagsins
Gísli Björn Gíslason, kúabóndi á Vöglum í Skagafirði, lýsti stöðu sinni þar og mikilli hækkun á gjaldskrá sveitarfélagsins sem hafði orðið á þessu ári vegna þjónustunnar. Þar hefur skipulögð söfnun verið í mörg ár og er þessi úrgangur sóttur heim á bæi á sérstakri bifreið, eftir þörfum. Samkvæmt samþykktum Sveitarfélagsins Skagafjarðar er ekki gert ráð fyrir að undantekningar séu frá þessu fyrirkomulagi og hafa bændur því ekki valkosti.
Í Flóahreppi gildir öðru máli, þar geta bændur samkvæmt samþykktum valið sér hagstæðari leið til endurvinnslu eða förgunar á sínum úrgangi, sé hún í boði. Hún þarf þó að uppfylla þær ströngu kröfur sem gerðar eru til meðhöndlunar á þessum úrgangi. Svanhvít Hermannsdóttir, sauðfjárbóndi á Lambastöðum, fékk tilboð utan sveitarfélagsins sem var mun hagstæðara en gjaldskráin gerði ráð fyrir. Haft var eftir henni í umfjölluninni í síðasta Bændablaði að sveitarfélagið hefði lækkað gjaldið umtalsvert, alveg niður í lágmarksflokk, sem lagt var á Lambastaði eftir að bændurnir létu sveitarstjóra vita af þessu misræmi í gjaldtöku.
Greiðir hvort sem hann missir grip eða ekki
Gísli sagði í umfjölluninni að árgjaldið sem á hans bú væri lagt hefði hækkað verulega á milli ára. „Með þessu nýja kerfi er búið að ákveða að ég greiði fast gjald á hverja kú og lægra fyrir geldneyti og kálfa. Þannig er fengin upphæð sem ég á að greiða sama hvort ég missi grip eða
ekki,“ sagði Gísli.

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir að gjaldskrárbreytingarnar um síðustu áramót hafi tekið mið af nokkrum þáttum. „Álagning milli búfjártegunda var leiðrétt úr frá fyrirliggjandi upplýsingum og sem dæmi lækkaði gjaldið á hross um 20 prósent á meðan álögur á sauðfé og mjólkurkýr hækkuðu um 10–20 prósent frá gjaldskránni sem byrjað var með í upphafi árs 2023.
Einnig þarf að horfa til þess að urðunarkostnaður hjá Norðurá bs. hækkaði um 15 prósent um síðustu áramót og að vísitölubundnir samningar við söfnunaraðila hækkuðu um liðin áramót. Einnig var reynt að hagræða eins og kostur var með því að hafa eina ferð í viku frá ágúst til apríl en að sækja áfram vikulega frá maí til júlí. Breytingar á gjaldskránni hjá bændum voru því í heild ekki miklar þó hlutfallslega hafi álögur á kúabændur hækkað mest en þaðan kemur líka stærstur hluti magnsins sem safnað er,“ segir Sigfús.
Aðalmálið að gjaldið standi undir kostnaði

Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, segir að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 hafi sveitarstjórn ákveðið að setja upp gjaldskrá vegna reksturs á gámi fyrir aukaafurðir dýra og dýraleifar. „Það kom fram í fundargerðum, fréttum á heimasíðu, íbúafundi og pistlum sveitarstjóra í fréttabréfi þannig að það hefði ekki átt að koma mörgum á óvart.
Gjald fyrir söfnun á dýrahræjum þekkist í öðrum sveitarfélögum og hefur verið lagt á búfjáreigendur víðar en í Flóahreppi en sveitarfélög eru ekki endilega öll með sömu gjaldflokka eða aðferðir við innheimtu gjaldsins. Aðalmálið er að gjaldið standi undir raunkostnaði við rekstur gámsins hjá sveitarfélaginu og eru það búfjáreigendur sem greiða gjaldið en ekki þeir sem engan bústofn eiga.“
Hægt að sækja um niðurfellingu eða lækkun gjalds
Hulda tekur fram að hægt hafi verið að óska eftir því að fá gjaldið fellt niður samkvæmt gjaldskrá 2024 með því að sýna fram á að viðkomandi bændur sjái sjálfir um löglega förgun á sínum dýrahræjum. „Urðun er óheimil en nokkrir búfjáreigendur nýta sér þann möguleika að fara sjálfir með dýrahræin til þjónustuaðila og greiða þar samkvæmt gjaldskrá fyrir kílóið. Þeir hafa þá þessa tvo kosti hjá okkur; að nýta söfnunargáminn eða fara sjálfur með á gámasvæði.
Í einhverjum tilfellum voru búfjáreigendur farnir að nýta klippikort sem sveitarfélagið afhendir fasteignaeigendum sem greiða sorpeyðingargjald. Inneignarkortið var ekki hugað til að mæta kostnaði við dýrahræ og hefur gjaldskrá fyrir árið 2025 verið uppfærð samkvæmt því ásamt öðrum minni háttar breytingum er varðar gjald fyrir meðhöndlun á dýraleifum,“ segir hún.
Söfnun að frumkvæði bænda
Sigfús segir að upphaflega hafi skipulögð söfnun dýrahræja í Skagafirði verið að frumkvæði bænda sjálfra, vegna umræðu um smitsjúkdóma, mismunandi umgengni aðila vegna förgunar og þeirrar hættu sem af því gæti stafað. Hann rekur forsögu núverandi gjaldskrárkerfis þannig. „Í upphafi var kostnaðurinn hluti af því fastagjaldi sem búrekstraraðilar greiddu til sorpmála sveitarfélagsins. Með breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem gerð var 1. janúar 2023 breyttist þetta umhverfi mikið, en þá var aukin til muna flokkunarskylda heimilanna með fjórtunnukerfi, sveitarfélögum bannað að greiða með málaflokknum og reyndar líka bannað að hafa hagnað af rekstri hans ásamt mörgum öðrum breytingum.
Á sama tíma og þessi lagabreyting var að taka gildi var tekin sú ákvörðun hér í Skagafirði að afleggja opna ruslagáma og frjálst aðgengi að þeim. Farið var að sækja allt heimilissorp til hvers og eins, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli, og var sú ákvörðun tekin að undangenginni könnun meðal íbúa í dreifbýli. Búrekstraraðilar hættu þá einnig að greiða fast gjald vegna sorpsins en sömdu í stað þess beint við verktaka um þjónustu eða að greiða eftir magni á móttökustöð. Það var hins vegar ákveðið að halda söfnun dýrahræja áfram sameiginlegri, en gerð krafa um að málaflokkurinn stæði undir sér fjárhagslega. Því var farin sama leið og farin er í nokkrum öðrum sveitarfélögum, það er að leggja gjald á allt búfé samkvæmt búfjárskýrslum. Gjaldtakan á að dekka kostnað við málaflokkinn í heild. Allir hafa síðan sama rétt til að fá hræbílinn heim til sín til að taka það sem fellur frá. Árin 2023 og 2024 voru því fyrstu árin þar sem gjaldtakan var með þessum hætti og var þá jafnframt reynt að skrásetja umfang dýrahræjanna eftir búfjártegundum svo hægt væri að hafa skiptingu gjaldsins sem sanngjarnasta á milli búfjártegunda.“
Sátt um þjónustuna í Skagafirði
Sigfús segir enn fremur að við vinnslu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2025 hafi landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar farið mjög rækilega yfir þau gögn sem til voru og í kjölfarið hafi nokkrar breytingar verið gerðar á bæði fyrirkomulaginu og gjaldskránni. „Í þeirri vinnu var jafnframt haldinn opinn fundur í samstarfi við Búnaðarsamband Skagfirðinga með bændum um ráðstöfun og framkvæmd þessa verkefnis. Kom þar fram skýr vilji meirihluta bænda að halda sameiginlegri söfnun áfram. Í kjölfar fundarins gátu svo forsvarsmenn búfjáreigenda kosið á milli mismunandi leiða í útfærslu á fyrirkomulagi söfnunar og gjaldtöku. Í framhaldinu samþykkti landbúnaðar- og innviðanefnd að velja þá leið sem flest atkvæði fékk, en það er í grunninn óbreytt kerfi þar sem innheimt er fyrir akstur og söfnun dýrahræja eftir bústofnsskýrslum og fjölda hvers og eins búfjáreiganda, en að vigtað verði sérstaklega það sem kallast sláturúrgangur og greitt fyrir þann úrgang aukalega af þeim sem til hans stofna.“
Hann telur að mjög mikil sátt sé um þessa þjónustu í Skagafirði og það sé vilji bænda að hún sé í boði með þeim hætti að dýraleifarnar séu sóttar heim. Ekki sé ætlast til að einstaka bændur komi með dýrahræ til urðunar hjá Norðurá bs. og urðun á dýrahræjum eða dýraleifum i eigin landi sé einfaldlega bönnuð samkvæmt lögum. Samkvæmt útreikningum sveitarfélagsins sé litlu ódýrara að vera með opna hrægáma víðs vegar um fjörðinn sem bændur kæmu sjálfir dauðu skepnunum í.
Slíkir söfnunarstaðir væru líka mjög umdeildir hvað varðar ásýnd og möguleg umhverfiáhrif, en þeir þyrftu að vera allnokkrir í jafnstóru sveitarfélagi og Skagafjörður er. Sigfús bendir á að þegar bornar eru saman verðskrár annarra sveitarfélaga við þá í Skagafirði sést að gjaldið þar sé hagstætt bændum, sérstaklega í því ljósi að þjónustan þar er meiri en víðast annars staðar.
Málaflokkur sem á alfarið að vera hjá ríkinu
Hulda telur nauðsynlegt að ráðuneytin sem fari með mál dýraleifa og aukaafurðir dýra finni lausnir á þessum málum sem fyrst á landsvísu. „Sveitarfélögin eru mörg hver að sinna söfnun á dýraleifum og aukaafurðum dýra þrátt fyrir að allt bendi til þess að þessi flokkur eigi alfarið að vera hjá ríkinu og þar vísa ég meðal annars í minnisblað sem Samband íslenskra sveitarfélaga lét vinna fyrir sig árið 2023 um þessi mál. Það er því umhugsunarefni hvort sveitarfélög eigi yfir höfuð að vera að standa í því að sinna söfnun á dýraleifum og aukaafurðum dýra – hvað þá ef búfjáreigendur greiða ekki fyrir þessa söfnun. En þar sem farvegurinn er ekki til staðar af hendi ríkisins þá er ljóst að bændur lenda í miklum vandræðum ef sveitarfélögin hætta að sinna þessu.
Það er að minnsta kosti alveg ljóst í mínum huga að sveitarfélög eiga ekki að samþykkja að greiða með þessum flokki, enda er þetta ekki eiginlegur úrgangur og ekki um lögbundið hlutverk sveitarfélags að ræða,“ segir Hulda.
Möguleg brennslustöð
Árið 2023 féllu til 88 tonn af dýrahræjum í söfnunargám í Flóahreppi og kostnaður hjá sveitarfélaginu var að sögn Huldu rúmlega sex milljónir, eða um 8.500 krónur á hvern einasta íbúa Flóahrepps.
Jóhannes Bjarki sagði í áðurnefndri umfjöllun hér í blaðinu að Flóahreppur stefndi á að byggja upp brennslustöð, sem gæti tekið á móti dýraleifum og dýrahræjum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir.
„Þessu er velt upp sem möguleika í svæðisáætlun fyrir Suður-, Suðvestur- og Vesturland um meðhöndlun úrgangs en þar er orðalagið reyndar þannig að stefnt verði að uppbyggingu á brennslugámi fyrir hluta sláturúrgangs sem þarf brennslu auk brennslu dýrahræja að Strönd í Rangárvallasýslu,“ segir Hulda.
Stórt hagsmunamál bænda
„En annars gott að velta upp þessum umræðum og mikilvægt að þessi mál séu skoðuð enda ekki allir sammála um hvort þetta eigi að vera á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Ef það kemur í ljós að sveitarfélögin beri ekki ábyrgð á dýraleifum þá auðvitað er gjaldtöku sjálfhætt fyrir söfnunina og förgun og þá einnig eðlilegt að sveitarfélögin hætti alfarið að sjá um þau mál eða hafa aðkomu að þeim. Ef sveitarfélög hins vegar bera ábyrgð á þessu þá þurfa að vera leiðir til að rukka fyrir þjónustuna eins og gildir með annan úrgang. Þannig að þeir sem þurfa á þessu að halda greiði fyrir það en ekki hinir. Sveitarstjórn Flóahrepps mun að sjálfsögðu endurskoða sínar ákvarðanir, gjaldskrár og samþykktir á formlegan hátt ef skýr niðurstaða fæst um þessi mál, til dæmis frá umboðsmanni Alþingis,“ heldur Hulda áfram.
„Þangað til gildir sú gjaldskrá sem var samþykkt við gerð fjárhagsáætlunar 2025 en þar er búfjáreigendum í Flóahreppi áfram boðið að fara aðra leið ef þeir geta sýnt fram á löglega förgun á dýraleifum en þó helst lágmarksgjaldið alltaf inni hjá öllum sem eru með skráðan bústofn.
Ég vil hvetja formann, framkvæmdastjóra og stjórn Bændasamtaka Íslands til að fara af þunga í þessi mál varðandi söfnun, meðhöndlun og förgun dýraleifa og aukaafurða úr dýrum.
Bændasamtökin eru heildarsamtök bænda og málsvari þeirra og eiga að vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði. Þetta mál er stórt hagsmunamál fyrir bændur og finna þarf varanlegan farveg í þessum málum í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti og þar eiga Bændasamtökin að koma inn sem málsvari bændastéttarinnar gagnvart ríkisvaldinu og öðrum aðilum þjóðfélagsins sem stéttin hefur samskipti við og beita sér fyrir nýmælum í löggjöf og breytingum á lögum sem snerta bændastéttina og landbúnaðinn eins og kemur fram á heimasíðu Bændasamtaka Íslands.“
Fjölþætt stjórnkerfi fyrir förgun dýraleifa
Jóhannes segir að það sé gagnlegt að það komi fram að urðun dýrahræja er ekki lögleg leið til meðhöndlunar þeirra, hvorki fyrir sveitarfélög né bændur. „Ef menn fá lágt verð í meðhöndlun á dýrahræjum og dýraleifum ætti fyrsta spurningin sem kemur upp í hugann að vera hvort verið sé að fara að lögum við losun á þessum úrgangi eða hvort hann sé nokkuð að enda í ólöglegri urðun.
„Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála – en það er ein gerð „úrgangs“. Hugtakið „aukaafurðir dýra“ er bara nafnið á þessum úrgangsflokki, eins og „garðyrkjuúrgangur“ eða „plast“. Í lögunum stendur að aukaafurðir dýra teljist sem úrgangur þegar þær eru á leið í urðun, brennslu eða myltingarstöð,“ segir Jóhannes.
Stjórnkerfi fyrir þennan málaflokk er fjölþætt á Íslandi og ógegnsætt að mörgu leyti. Matvælastofnun, Umhverfis- og orkustofnun, sveitarfélög, auk ráðuneyta matvæla og umhverfis-, orku- og loftslags, hafa aðkomu að þessum málum og skipta með sér stjórnsýsluhlutverkum.
Umsjón með almenna úrgangsregluverkinu á Íslandi er hjá Umhverfis- og orkustofnun. Matvælastofnun fer hins vegar með málefni aukaafurða dýra og um þær gildir viðamikið regluverk sem innleitt var úr Evrópulöggjöfinni um aukaafurðir dýra. Sveitarstjórn ákveður fyrirkomulag söfnunar á úrgangi í sveitarfélaginu og hefur heimild í lögum um meðhöndlun úrgangs til að kveða á um hvernig skuli staðið að söfnun á dýraleifum og dýrahræjum, eða aukaafurðum dýra.
Matvælastofnun skiptir sér ekki af gjaldtökunni, sá hluti málaflokksins á heima í Umhverfis- og orkustofnun og í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Viðeigandi förgunarleiðir
Sveitarfélögum er ekki skylt að sinna því hlutverki að taka við þessum dýraleifum og koma þeim til viðeigandi förgunarstaða. Þeim ber ekki heldur að leggja til innviði fyrir þennan úrgang umfram það að sjá til þess að farvegur sé til staðar fyrir viðeigandi förgun. Hræ af jórturdýrum skal til dæmis brenna á viðeigandi brennslustöð. Sveitarstjórn fjallar um fyrirkomulag og framtíðartilhögun úrgangsmála á sínu svæði í svæðisáætlun sinni og útfærir nánari ákvæði í samþykkt um meðhöndlun úrgangs og í gjaldskrá sveitarfélagsins. Það eru svo heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sem hafa eftirlit með því að þessi og annar úrgangur sé færður til viðeigandi meðhöndlunar og hefur einnig eftirlit með þeim aðilum sem hafa starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd.
Umhverfis- og orkustofnun hefur eftirlit með þeim aðilum sem hafa starfsleyfi frá þeirri stofnun, til dæmis þauleldisbú eins og stór svína- og alifuglabú, en stofnunin hefur einnig eftirlit með framkvæmd laga um meðhöndlun úrgangs að öðru leyti. Til dæmis hvað varðar hlutverk og ábyrgð sveitarstjórna og að þær setji sér svæðisáætlanir sem séu í samræmi við lög og reglur. Þá hefur stofnunin umsjón með veitingu urðunarleyfa og veitir urðunarstöðum og úrgangsbrennslum starfsleyfi. Almennt er þó bannað að urða aukaafurðir dýra.

Rík skylda búfjáreigenda
Jóhannes Bjarki segir, að þó að sveitarstjórnir beri ábyrgð á því að starfræktar séu söfnunar- og móttökustöðvar fyrir þann úrgang sem fellur til í sveitarfélögum þá sé alveg ljóst að eigendur dýrahræja og -leifa hafi ríka skyldu til að tryggja að sá úrgangur sé meðhöndlaður bæði samkvæmt úrgangslögum og lögum um aukaafurðir dýra. Algengt sé að handhafar þessa úrgangs séu sláturhús, kjötvinnslur, þauleldisbú og bændur. Þessir lögaðilar eigi að sjá til þess að settar kröfur séu uppfylltar á öllum stigum söfnunar, flutnings, annarrar meðhöndlunar, geymslu og förgunar.
Hann segir að Matvælastofnun beri ábyrgð á að rétt sé staðið að meðferð dýraleifa og dýrahræja, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða öðrum aðilum.
Förgunin á ábyrgð eigendanna

Jarle Reiersen, deildarstjóri aukaafurða dýra og aðfanga hjá Matvælastofnun, segir að förgun hræja eigi að fara fram samkvæmt lögum um aukaafurðir dýra á viðurkenndum móttökustöðvum. Lögum samkvæmt sé óheimilt að farga hræjum heima á bæjum, en það sé á ábyrgð eigenda aukaafurðanna að farga þeim löglega. Þegar sveitarfélög bjóða upp á farvegi fyrir þessar aukaafurðir dýra sé því frumkvæði fagnað.
„Viðurkenndir förgunarstaðir eru of fáir hérlendis svo þessi förgun er ákveðið vandamál sem þarf að finna viðunandi lausnir fyrir. Matvælastofnun er í samstarfi við matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið, auk Umhverfis- og orkustofnunar, við að finna fullnægjandi lausnir,“ segir Jarle.
Hræ jórturdýra skulu fara í brennslu
Hann segir að hræ séu í dag brennd eða unnin í kjötmjöl að hluta, en einnig séu hræ urðuð. „Það er skilningur okkar að samkvæmt lögum um aukaafurðir skulu hræ jórturdýra fara í brennslu og hræ einmaga dýra má farga einnig í kjötmjölsvinnslu auk brennslu
„Sum bú eru með hrægáma sem þau senda til brennslu eða í kjötmjölsgerð. Flestir bændur eru hins vegar ekki með neina ferla til að meðhöndla hræ. Sum sveitarfélög hafa reynt að koma á söfnunarkerfi til að koma hræjum í förgun á urðunarstöðum sem séu með förgunarleyfi. Þótt Matvælastofnun sé með eftirlit með förgunarverklagi fyrir aukaafurðir dýra hefur stofnunin lítið getað beitt sér vegna skorts á úrræðum,“ segir Jarle enn fremur.
Skortur á samráðsvettvangi
Halla Margrét Viðarsdóttir, sérfræðingur á sviði umhverfisgæða Umhverfis- og orkustofnunar, segir að vert sé að benda á að þar sem svo margir aðilar koma að úrgangsmálum og til þess að eftirlitið og farvegirnir séu sem skilvirkastir og virki rétt frá öllum hliðum, frá upphafi til enda, þá þurfi allir aðilar að ganga í takt með eitt markmið. „Samvinnan hérna til dæmis á milli sveitarfélaga, heilbrigðiseftirlita og Matvælastofnunar sem og þeirra sem eiga þessar afurðir mun alltaf skila okkur bestu útkomunni og því fagna ég allri umfjöllun um málefnið, enda hagsmunamál fyrir alla að hafa þetta í lagi,“ segir Halla.
Hún játar því að það gæti verið að samráðsettvang vantaði fyrir alla þá aðila stjórnsýslunnar sem koma að málum. „Vandamálið snertir einnig innviðina, sem og samstiga lausnir. Það er þó ekki þannig að við séum alveg innviðalaus og getum ekkert í því gert, en landið er stórt og víðfeðmt og við fámenn. Það eru úrræði til staðar en við þurfum aðlögunartíma til að straumlínulaga ferlið og brúa bilið þar til fleiri lausnir verða í boði.
Það fer eftir áhættuflokk efnisins hvernig meðhöndlun þarf að fara fram áður en heimilt er að urða úrganginn. Dýraleifar ættu í flestum tilfellum að vera meðhöndlaðar á viðeigandi hátt eftir því hvaða áhættuflokki efnið tilheyrir áður en til urðunar kemur, og urðunarstaðir þurfa að hafa til þess heimildir og viðeigandi mengunarvarnir til staðar til að koma í veg fyrir að möguleg mengun gæti dreifst yfir í grunnvatn til dæmis eða í umhverfið. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum á mengun í vatni, það vill enginn fá sitt drykkjarvatn mengað og ber okkur að standa vörð um þá auðlind.“
Líforkuver og samræmt söfnunarkerfi dýrahræja
Síðastliðið sumar var vefurinn Líforka. is formlega opnaður af þáverandi matvælaráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Um upplýsingavef er að ræða um líforkuver sem áformað var að reisa á Dysnesi í Eyjafirði og gæti tekið við þeim dýraleifum sem teljast til áhættuúrgangs. Sá vefur hefur hins vegar verið óvirkur frá síðasta sumri.
Í viðtali hér í blaðinu af því tilefni, sagði Kristín Helga Schiöth, þáverandi framkvæmdastjóri Líforku ehf., að það efni sem í dag endar í svokölluðum hrægámum sveitarfélaga, eða er urðað heima á bæ, muni eiga sér farveg í líforkuverinu á Dysnesi, ásamt áhættuvef frá afurðastöðvum. „Áhersla verður áfram á að uppfylla skyldur Íslands gagnvart EES- samningnum þegar kemur að vinnslu og meðhöndlun áhættumesta efnisins og felur það meðal annars í sér að tekin séu heilasýni úr jórturdýrum og að skimað sé skipulega fyrir smitandi svampheilakvillum. Samkvæmt nýsamþykktri Landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu þarf að vinna skipulag fyrir sýnatöku úr hræjum samhliða skipulagi söfnunar dýrahræja. Líforkuver ehf. hefur unnið tillögu að slíku söfnunarkerfi að finnsku og norsku fordæmi, og heldur vinna við útfærslu og framkvæmd slíks kerfis nú áfram í samvinnu við stjórnvöld,“ sagði Kristín Helga.
Söfnun fer fram á um helmingi landsins
Í viðtalinu kom einnig fram að í dag væri staðan sú að söfnun á dýraleifum á vegum sveitarfélaga færi fram á um helmingi landsins, en þar sem úrvinnslustöðvar væru engar sé efnið keyrt til urðunar. „Þetta fyrirkomulag uppfyllir ekki skilyrði til meðhöndlunar áhættuúrgangs, þó að sveitarfélögin séu víða að gera sitt besta til að þjónusta bændur,“ sagði Kristín Helga.
Í svari matvælaráðuneytisins um afdrif þessara tillagna Líforkuvers segir að matvælaráðuneytið og umhverfisráðuneytið hafi samið við Líforkuver ehf. um að halda utan um verkefni er varðaði hönnun á kerfi til söfnunar dýraleifa á landsvísu.
„Þessu verkefni er lokið og ráðuneytin hafa tekið við afurð vinnunnar frá Líforkuveri. Ráðuneytin vinna nú í sameiningu að næstu skrefum sem miða að því að slíkt söfnunarkerfi verði komið í gagnið fyrir lok þessa árs,“ segir í svarinu. Þar segir enn fremur að ekki sé hægt að afhenda upplýsingar um fyrirkomulag væntanlegs líforkuvers þar sem fullmótaðar tillögur hafi ekki enn verið lagðar fram.