Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þar sem Íslendingar hafa átt sína eigin hveitimyllu hefur verið hægt að halda uppi nokkurra mánaða
birgðum af ómöluðu hveiti í stórum sílóum. Núna stendur til að loka hveitimyllunni og verður því allt hveiti í landinu flutt inn malað í neytendapakkningum, sekkjum eða sérstökum sílógámum. Birgðahald á slíkri vöru er mun dýrara og stefnir því í að hveitibirgðir í landinu verði eingöngu til nokkurra vikna.
Þar sem Íslendingar hafa átt sína eigin hveitimyllu hefur verið hægt að halda uppi nokkurra mánaða birgðum af ómöluðu hveiti í stórum sílóum. Núna stendur til að loka hveitimyllunni og verður því allt hveiti í landinu flutt inn malað í neytendapakkningum, sekkjum eða sérstökum sílógámum. Birgðahald á slíkri vöru er mun dýrara og stefnir því í að hveitibirgðir í landinu verði eingöngu til nokkurra vikna.
Mynd / Teikning / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 10. febrúar 2025

Er nauðsynlegt að vera með kornmyllu?

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Einu hveitimyllu landsins verður lokað á allra næstu vikum. Með því verða Íslendingar háðir innflutningi á fullunnu hveiti erlendis frá sem er dýrara í geymslu. Hingað til hefur verið hægt að geyma nokkurra mánaða lager af ómöluðu hveiti í stórum sílóum sem er svo malað eftir þörfum.

Til stendur að loka Kornax, einu hveitimyllu landsins, á næstu vikum eða mánuðum. Í kjölfarið munu hveitibirgðir í landinu minnka verulega. Myllan er staðsett í Korngörðum í Reykjavík í húsnæði sem er í eigu Faxaflóahafna og fyrirtækið Lífland hefur leigt undir framleiðslu á Kornax-hveiti. Leigusamningurinn hefur ekki fengist framlengdur.

Lífland framleiðir jafnframt fóður fyrir húsdýr úr kornvörum í verksmiðju sem byggð var árið 2010 á Grundartanga í Hvalfirði. Við byggingu þeirrar verksmiðju var gert ráð fyrir kornmyllu við hlið hennar og hefur lokun Kornax í Korngörðum legið fyrir um árabil. Á árinu 2024 voru flutt inn tæp 12.700 tonn af lausu hveiti til manneldis og má áætla að stærstur hluti þess hafi verið á vegum Líflands. Á sama tímabili voru flutt inn 4.800 tonn af fínmöluðu hveiti í umbúðum.

Hveitimylla Kornax hefur starfað í Korngörðum við Sundahöfn í Reykjavík frá árinu 1986. Mynd/ál
Starfsleyfi ekki veitt

Lífland sóttist eftir starfsleyfi fyrir nýja hveitimyllu á Grundartanga. Málið var tekið fyrir hjá heilbrigðisnefnd Vesturlands sem vísaði því frá vegna nálægðar við mengandi starfsemi. Eins og greint var frá í síðasta Bændablaði telja stjórnendur Líflands ekki fjárhagslega hagkvæmt að finna starfseminni annan stað þar sem það kæmi í veg fyrir samnýtingu búnaðar og starfsfólks, ásamt því sem það hefði í för með sér tvöfaldan kostnað við löndun flutningaskipa.

Með breyttu fyrirkomulagi verður allt hveiti flutt til landsins malað í pokum, sekkjum eða sérstökum sílógámum fyrir matvælaframleiðslu. Það mun fela í sér að dýrara verður að halda uppi sama magni af hveiti í landinu en áður, en geymsla á ómöluðu korni í stórum sílóturnum er talsvert hagstæðari í samanburði.

Lífland hefur hingað til flutt inn ómalað korn í skipsförmum og hafa verið til nokkurra mánaða birgðir í landinu á hverjum tíma. Til að halda uppi sama birgðamagni þyrfti að byggja stóra vöruskemmu þar sem malað hveiti í neytendapakkningum tekur mikið pláss. Geymsluþol malaðs korns er býsna gott, en síðasti söludagur hveitis í neytendapakkningum er einu ári eftir mölun. 

Við réttar aðstæður getur ómalað korn geymst um árabil. Einn af kostunum við geymslu ómalaðs korns er að ef kviknar líf hveitibjalla eða örveruvöxtur er auðveldara að skilja það frá við mölunina. Í hveitimyllum fer hráefnið í gegnum hárfín sigti sem sjá til þess að drepa egg örvera og tryggja geymsluþol mjölsins. Ef það misheppnast er ekki hægt að losna við óæskilegt líf úr malaða hveitinu.

Lágmarksbirgðir ekki skilgreindar

Í Skýrslu um mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum, sem kom út í desember 2022, segir að ekki séu nein gildandi stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu. „Á hverjum tíma eru til einhverjar birgðir af matvælum hjá framleiðendum, afurðastöðvum, innflytjendum, verslunum og neytendum,“ segir í skýrslunni. Einu matvælin þar sem er til opinbert yfirlit um birgðir eru hjá innlendum sláturhúsum.

Þar kemur jafnframt fram að í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland árið 2009 hafi eingöngu verið til kornbirgðir í landinu til fárra vikna í bankahruninu. „Í aðstæðum þar sem innflutningur lamast algjörlega, t.d. vegna alvarlegrar fjármálakreppu, stríðsátaka eða farsótta, væri fæðuöryggi hérlendis því í hættu. Ástæðan væri ekki aðeins skortur á innfluttum matvælum og framleiðsluaðföngum heldur einnig á olíu til að dreifa matvælum, þótt fyrirhuguð orkuskipti í samgöngum kunni að draga úr þeirri áhættu,“ segir enn fremur í áðurnefndri skýrslu um mat þjóðaröryggisráðs.

Hveitirækt á Íslandi er lítil sem engin og er það því flutt inn. Það sem breytist með lokun Kornax er að mölunin flyst úr landi en hveitið verður áfram það sama. Birgðir munu jafnframt minnka umtalsvert. Mynd / Melissa Askew
Tryggja þarf hálfs árs birgðir

Þar kemur fram að einn af þeim lærdómum sem megi draga af kórónuveirufaraldrinum sé hversu mikilvægt sé að stuðla að sjálfbærni í matvælaframleiðslu vegna þeirra margþættu truflana sem urðu á aðfangakeðjum heimsviðskipta. Það olli ýmist skorti eða töfum á afhendingu og hækkaði verð fyrir vörur.

Í skýrslunni koma fram ábendingar um að gera þurfi reglulegar úttektir á matvælabirgðum til þess að tryggja birgðir af matvælum til sex mánaða í landinu. Einnig þarf að skilgreina hverjar lágmarksbirgðir á matvælum og aðföngum eru. „Þá er þörf á að gera viðbragðs- og neyðaráætlun vegna matvælaskorts, m.a. í samráði við helstu birgja.“

Helgi Eyleifur Þorvaldsson.
Nokkurra vikna lager

Helgi Eyleifur Þorvaldsson, aðjunkt við Landbúnaðarháskóla Íslands, segir óheppilegt þegar einkafyrirtæki sem hefur vilja til að eiga stóran hveitilager er gert að hætta. Hingað til hafi ekki þurft til neinn ríkisstuðning en vegna stífs regluverks er innlendri hveitimölun bolað burt. Hann var einn af þremur höfundum skýrslunnar Bleikir akrar – aðgerðaáætlun um aukna kornrækt, sem Landbúnaðarháskóli Íslands skrifaði samkvæmt beiðni matvælaráðuneytisins. Um nokkurra ára skeið var hann sölustjóri á landbúnaðarsviði hjá Líflandi og er því kunnugur starfsemi þess fyrirtækis.

„Ef við styðjumst eingöngu við sekkjað og malað innflutt hveiti, sem er í sjálfu sér allt í lagi, þá er lagerstaðan miklu lægri,“ segir hann. Innflutningur á svoleiðis vöru felist í að stöðugt séu pantanir á leið til landsins og í vöruhúsinu sé eins lítið af birgðum og hægt er þar sem lagerkostnaðurinn er hár. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Helgi hefur er miðað við að vera með eingöngu örfárra vikna lager af möluðu hveiti, ýmist í vöruhúsi eða í gámum á leiðinni til landsins. „Á móti kemur að þegar þú ert að reka myllu eins og Kornax ertu að kaupa ómalað hveiti í skipsförmum og þetta kemur í stærri einingum,“ segir hann.

Innlend framleiðsla ódýrari

Helgi telur að fyrirtæki eins og Lífland hefði ekki falast eftir því að byggja hveitimyllu hérlendis ef forsvarsmenn þess hefðu komist að því að innflutningur á tilbúnu hveiti væri ódýrari. Verðmunurinn sem er á ómöluðu og möluðu hveiti gefi færi á að flytja framlegðina hingað til lands í staðinn fyrir að verðmætasköpunin sé erlendis. „Ef þú lætur vinna það fyrir þig erlendis þá leggst ofan á það framleiðslukostnaður, sekkjunarkostnaður, umbúðir og það er dýrara í flutningum, sérstaklega ef þú pakkar því í kílóaeiningar. Það er langódýrast að flytja og geyma svona lager ómalaðan en auk þess geymist hveiti best ómalað í góðum birgðageymslum.“

Hann bendir á að kílóverðið af ómöluðu hveiti komið að bryggju hérlendis hafi lengi verið í kringum 50 krónur án vsk. (án uppskipunar- og geymslukostnaðar) á meðan kílóverðið af möluðu hveiti í neytendapakkningum úti í lágvöruverðsverslun með lítilli álagningu sé í kringum 150 krónur án vsk. Þessi munur breyti mjög miklu þegar um er að ræða mörg þúsund tonn af hveiti og geri það dýrt að eiga stóran lager af hveiti.

Heimsmálin hafa verið stöðugri

Helgi segir vonandi ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því að Ísland verði án hveitimyllu og ekki með neyðarlager af hveiti. Staðan í heimsmálunum hefur hins vegar oft verið stöðugri. „Það hefur geisað stríð í Evrópu í á þriðja ár. Við erum með Vladimir Pútin sem Rússlandsforseta, Donald Trump sem Bandaríkjaforseta og Kínverjar eru að vinda upp á sig.

Það berast fréttir af því að landsmenn fái sendan heim bækling á næstu mánuðum sem snýst um hvernig við eigum að haga okkur í stríði eða ef aðfangakeðjur rofna. Þetta eru tímar þar sem má færa sterk rök fyrir því að hver þjóð á að reyna eins og hún getur að standa undir sínu í svona þáttum,“ segir Helgi. Stefna flestra stjórnvalda sé að framleiða þann mat sem þau geta innanlands og er staða þeirra þjóða veik sem eru upp á aðra komnar hvað varðar orkugjafa og matvæli.

Getum verið framarlega í kornrækt

Í skýrslunni Bleikir akrar eru færð rök fyrir því að Ísland hafi burði til þess að standa framarlega í kornrækt ef staðið er rétt að málunum. Aðspurður af hverju kornrækt hefur ekki náð lengra enn sem komið er bendir Helgi á að það hafi ekki verið fyrr en í fyrra sem kornrækt var styrkt sérstaklega af hinu opinbera. „Þá voru settar heilar 170 milljónir í heildina,“ segir Helgi og bendir á að þetta séu ekki stórar upphæðir í samhengi við margt annað. „Þetta er langtímaplan. Það mun taka tíu til fimmtán ár þangað til við förum virkilega að sjá einhvern árangur af þessu,“ segir Helgi. Dæmi frá nokkrum stöðum á landinu sýni að kornrækt geti verið á mjög háu plani.

Innlent kynbótastarf á hveiti hófst árið 2023 og vonast Helgi til að það muni verða til þess að hægt verði að rækta hveiti til manneldis hér á landi. Á áttunda áratugnum hófust kynbætur á byggi sem hafa skipt miklu máli við að efla íslenska kornrækt. Helgi bendir á að það virðist vera þverpólitískur stuðningur fyrir því að auka kornrækt. „En það er tómt mál um það að tala ef það eru ekki úrvinnslustöðvar til að vinna úr því. Það er svolítið eins og að fjölga kúabúum ef við höfum enga afurðastöð,“ segir hann.

Erna Bjarnadóttir.
Hlekkur hrokkinn úr aðfangakeðjunni

Erna Bjarnadóttir, formaður Íslandsdeildar Samtaka um landbúnað á jaðarsvæðum í norðri og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni, segir að undir öllum eðlilegum kringumstæðum þegar viðskipti ganga vel séu aðdrættir að jafnaði hnökralitlir. Hún nefnir í þessu samhengi hugtakið „fæðufullveldi“ sem snýr að því hvaða vald við höfum á aðfangakeðjunum. „Það er augljóst að þarna hrekkur einn hlekkur út. Ég met það svo að þetta sé atriði sem íslensk stjórnvöld ættu að láta sig varða. Það er ekki á færi einhvers fyrirtækis að bera ábyrgð á þessu,“ segir Erna og kallar eftir því að metin verði áhrif þess að hveitimyllan hverfur.

„Ef svarið er að það eigi að bregðast við þessu með einhverjum hætti hljóta stjórnvöld að þurfa að eiga viðræður við þá aðila sem þarna koma að til að sjá hvað er hægt að gera,“ segir Erna. Rétt sé að spyrja hvort hið opinbera eigi að eiga einhvern öryggislager af korni eða styðja við slíkt birgðahald með einhverjum hætti. Hún segist ekki hafa svörin við því, en það sé hægt að líta til þess hvernig nágrannalöndin halda utan um þessi mál.

Langtímastefna nauðsynleg í kornrækt

Hún bendir á að innlend hveitiframleiðsla sé lítil sem engin, en eins og kom fram í máli Helga Eyleifs hefur hið opinbera sýnt vilja til að efla hana. „Ef hveiti er á annað borð framleitt hér á landi til matar þá þarf svona verksmiðju eins og þarna er um að ræða til að breyta því í neysluhæfa vöru. Það er ekki nóg að sá fyrir korninu og uppskera.“

Nauðsynlegt sé að viðhalda langtímastefnu í eflingu kornræktar. „Öðruvísi getur þú ekki bæði byggt upp þekkingu og varðveitt hana,“ segir Erna. Bændur þekki sitt land
og viti hvernig hægt er að nýta gæði þess til að framleiða matvæli. „Ef við ætlum að fara að treysta meira á milliríkjaviðskipti með mat þá grefur það kannski undan þessu. Svo þegar allt er komið í óefni þá er þekkingin ekki lengur til staðar. Ef við höfum ekki olíu á skipin og getum ekki gert út þá er ekki nóg að eiga árabát. Þú þarft að kunna að róa og finna fiskimiðin,“ segir Erna.

Gömul saga og ný
Fréttaskýring 24. mars 2025

Gömul saga og ný

Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbún...

Mikil þörf á afleysingafólki
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysing...

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Fréttaskýring 12. mars 2025

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja

Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvæ...

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Fréttaskýring 25. febrúar 2025

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega

Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem e...

Er nauðsynlegt að vera með kornmyllu?
Fréttaskýring 10. febrúar 2025

Er nauðsynlegt að vera með kornmyllu?

Einu hveitimyllu landsins verður lokað á allra næstu vikum. Með því verða Íslend...

Bændur telja búgrein sína beitta misrétti innan stjórnsýslunnar
Fréttaskýring 5. febrúar 2025

Bændur telja búgrein sína beitta misrétti innan stjórnsýslunnar

Forsvarsmenn stærstu svínabúa landsins eiga í ágreiningi við hið opinbera vegna ...

Að bera kvíðboga fyrir óvissri framtíð
Fréttaskýring 17. janúar 2025

Að bera kvíðboga fyrir óvissri framtíð

Loftslagsbreytingar og þeir erfiðleikar sem þær valda fylla marga streitu og kví...

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...