Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Mynd / Teiking / Hlynur Gauti.
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast í Svarfaðardal. Nú ætti umfang kalsins að vera komið í ljós, en öll viðbrögð hafa tafist vegna hrets sem kom í byrjun júní. Gróður í túnum er lifandi yfir veturinn en undir loftþéttum klaka getur hann kafnað og drepist.

Eiríkur Loftsson.

Eiríkur Loftsson hefur starfað sem jarðræktar- og fóðurráðunautur í Skagafirði nær óslitið frá 1989, nú hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). Í gegnum sín störf hefur hann komið að mörgum verkefnum sem snúa að kali í túnum, en kaltjón eru algeng á nokkrum svæðum á Norðurlandi. Eiríkur segir stóran hluta af þeirri þekkingu sem sé til um kal á Íslandi byggjast á rannsóknum dr. Bjarna E. Guðleifssonar, sem lést árið 2019.

Svellakal algengast

Kali hefur verið skipt upp í nokkra flokka, en samkvæmt grein eftir Bjarna E. Guðleifsson, sem er aðgengileg á Vísindavefnum, er kal í túnum í níutíu prósentum tilfella svokallað svellakal. Eiríkur segir að undir loftþéttum klaka gangi á súrefnið vegna öndunar plantnanna og þegar það klárast verði öndunin loftfirrð. Þá fari að myndast etanól, mjólkursýra og koltvísýringur og síðan smjörsýra og ediksýra. Að lokum drepist plönturnar, en miðað sé við að túngrös lifi ekki af meira en þrjá  mánuði undir svelli. Þessu fylgir lykt sem finnst þegar klakinn bráðnar og líkir Eiríkur henni við þefinn af illa verkuðu votheyi.

Einkenni kals séu dautt gras í ræktarlandi, ýmist á afmörkuðum blettum eða heilu túnin í verri tilfellum. Áður en jarðvegurinn þornar séu kalblettirnir dökkir en verði síðan sinulitaðir. Séu túnin látin óáreitt komi gróður upp fyrir rest, eins og varpasveifgras og arfi, en það séu óhentugar fóðurjurtir.

Eftir að gróður kemur undan svellum þurfi bændur að gefa sér smá tíma til að átta sig hversu mikið tjónið er, en stundum sé jörðin ekki nema blaut og köld og geti grasið tekið við sér þegar hún þornar. Ein fljótlegasta aðferðin til að meta hvort túnin séu kalin sé að stinga upp hnaus á ætluðum kalblett og athuga hvort grasið byrji að spretta í hæfilegum hita og birtu innandyra.

Algengasta tegund kals er svokallað svellakal sem orsakast af því að gróðurinn kafnar við það að vera undir loftþéttum klaka í þrjá mánuði eða lengur. Eftir standa bændur með lífvana tún sem þarf að rækta upp eða gera við með ísáningu. Ef ekkert er gert gróa túnin aftur fyrir rest með túngrösum eða illgresi sem hentar illa sem gróffóður. Á Göngustöðum í Svarfaðardal sluppu engin tún við kal. Mynd / Sigurgeir B. Hreinsson

Frárennsli vatns af yfirborði

Eiríkur segir að til þess að minnka hættuna á kali sé mikilvægt að rækta túngrös með gott vetrarþol og sjá til þess að túnin séu þannig að vatn eigi greiða leið af yfirborðinu. Þetta sé þó ekki fullkomin trygging og hafi það sýnt sig í vetur að við ákveðnar aðstæður myndist svell á túnum í halla.

Þá mælir Eiríkur jafnframt með því að bændur kalki túnin til þess að sýrustigið í jarðveginum verði hæfilegt. Við rétt sýrustig sé viðnámsþróttur og vetrarþol plantnanna aukinn. Sjálfsáðar innlendar grastegundir þoli sýrustig undir 5,5 pH, sem sé algengt í íslenskum jarðvegi, á meðan eftirsóttari fóðurjurtir þurfi sýrustig nær pH 6. Kalkið hafi jafnframt jákvæð áhrif á byggingu jarðvegs sem leiði af sér aukin holurými og loftun.

Þó að stundum sé talað um að nýræktir séu viðkvæmar fyrir kali segir Eiríkur það oft hafa sýnt sig að nýræktir koma ekki verr undan svelli samanborið við önnur tún. Það skýrist hugsanlega af því að við jarðvinnslu verður jarðvegurinn lausari í sér og geti geymt meira súrefni.

Eiríkur segir grasfræyrkin sem eru flutt inn hafa mismikið vetrarþol. Af vallarfoxgrasi séu norsku yrkin Engmo og Vega og samnorræna yrkið Snorri harðgerðust. Finnsk yrki sem hafa verið notuð undanfarin ár virðast ekki vera með sama vetrarþol og áðurnefnd yrki, þó þau henti vel að öðru leyti.

Gaddatromlur og svartur sandur

Bændur hafa reynt ýmsar aðferðir til að losna við svell af túnum. Eiríkur nefnir að fyrir nokkrum árum hafi verið gerðar tilraunir með að gata klakann með tromlum alsettum göddum, en það virki ekki ef svellbunkinn er þykkur. Þá hafi sumir dreift svörtum sandi þegar sól fer að hækka á lofti til þess að flýta bráðnun. Báðar þessar lausnir geti gert sitt gagn, en þegar sólbráð sé á daginn og frost á nóttinni megi búast við að fyllist í holurnar. Notaðar hafa verið stórvirkar vinnuvélar til að kraka í svellið, en þá sé mikilvægt að skemma ekki það sem er undir.

Aðstæður sérstakar í vetur
Guðmundur H. Gunnarsson.

Guðmundur H. Gunnarsson er með áratugareynslu sem ráðgjafi í jarðrækt. Hann er búsettur á Möðruvöllum í Hörgárdal, þar sem áður voru meðal annars stundaðar jarðræktartilraunir, og var hann í miklu návígi við dr. Bjarna E. Guðleifsson heitinn.

Guðmundur segist oft hafa séð að nýrri tún hafi komið verr út þegar kemur að kali og telur hann upp tvær mögulegar ástæður: Annars vegar að í eldri túnunum hafi sjálfsáðar og harðgerðari grastegundir, eins og snarrót og vallarsveifgras, tekið yfir; og hins vegar að í nýrri túnum séu oft yrki sem hafi minna vetrarþol. Þegar komi upp vond kalár eins og núna, þar sem túnin eru undir klaka í þrjá til fjóra mánuði, lifi engar plöntur af – ekki einu sinni snarrótin.

Sérstakar aðstæður þurfi til svo að kal verði útbreitt. Í byrjun nýliðins vetrar hafi verið mikið frost og snjólétt á Norðurlandi og komið klaki í jörðu. Um miðjan desember hafi komið hlýindi með rigningu í nokkra daga og vatn safnast fyrir á flötum og frosnum túnunum. Þar botnfraus það og lokaði fyrir allan aðgang lofts. Þegar vatn renni yfir tún í hægum blota geti einnig myndast svell í halla. Þá hafi skipst á með frosti og þíðu um veturinn og stöðugt bæst á klakann. Hann tekur sem dæmi að rétt við hlaðið á Möðruvöllum hafi verið komið tæplega hálfs metra þykkt svell.

Ísáningarvélar gagnlegar

Guðmundur veit til þess að á Norð- austurlandi séu til þrjár ísáningarvélar. Þær eru ólíkar venjulegum sáðvélum á þann hátt að þær fella fræið rétt undir svörðinn án þess að þörf sé á jarðvinnslu og geta þær því verið gagnlegar þegar kemur að því að laga kalin tún, sérstaklega ef þau eru yngri en þriggja ára. Ef grasið þarf ekki að berjast við mikla samkeppni, eins og þegar bæði túngrös, varparsveifgras og illgresi hafa drepist í alvarlegu kali, geti útkoman verið sambærileg og þegar tún eru endurræktuð.

Guðmundur hefur alltaf ráðlagt bændum á Norðurlandi, þar sem kal- hætta er mikil, að sá með harðgerðustu grasfræyrkjunum. Þau séu ef til vill uppskeruminni, en hann telur hag- stæðara að vera með þolnari tún í staðinn fyrir að þurfa að endurrækta oftar. Snorri og Engmo hafi verið harðgerðustu yrki vallarfoxgrassins, en það síðarnefnda var ófáanlegt í vor.

Jóhannes Baldvin
Jónsson.
Framleiðsla undir eftirspurn

Jóhannes Baldvin Jónsson, deildarstjóri ráðgjafar og vöruþróunar hjá Líflandi, segir sölu á fræi vera meiri í ár en vant er, sérstaklega á grasfræi til túnræktar og grænfóðri. Salan á Norðurlandi beri klárlega í sér að bændur séu að bregðast við kali.

Varðandi þá gagnrýni að fræsalar skuli ekki bjóða upp á harðgerðustu vallarfoxgrasyrkin, segir Jóhannes aðgengið að umræddum stofnum ekki nógu gott.

Framleiðsla á Snorra hafi verið undir eftirspurn vegna lakrar uppskeru hjá fræframleiðendum ytra. Jafnframt hafi verið meiri ásókn í tegundir og yrki sem gefi meiri endurvöxt, sem sé gjarnan að einhverju leyti á kostnað vetrarþols.

Engin tún sluppu
Gunnar Guðmundsson

Gunnar Guðmundsson, bóndi á Göngustöðum í Svarfaðardal, segir stærstan hluta ræktarlandsins á búinu hafa orðið fyrir kalskemmdum núna í vetur. Þetta sé svellakal og sluppu engin tún, hvort sem þau væru á jafnsléttu eða í halla.
Hvorki Gunnar né foreldrar hans, sem hafa verið í búskap á Göngustöðum frá 1979, hafa lent í viðlíka áður. „Það hefur alveg kalið hérna, en það kemst ekkert nálægt þessu,“ segir hann. Mesta tjónið sem hann hafi orðið fyrir fram að þessu hafi verið á bilinu 30 til 40 prósent.

Kalið kom ekki á óvart

Í byrjun maí fóru fyrstu kalskemmdirnar að koma í ljós, sem kom Gunnari ekki á óvart þar sem klaki hafði legið yfir dalnum frá því um áramótin. Göngustaðir eru ekki eina jörðin sem varð fyrir tjóni, en Gunnar segir kalskemmdir útbreiddar um Svarfaðardalinn. Ekki hafi hjálpað til að vorið hafi verið óhagstætt þar sem talsvert snjóaði í kringum páska og aftur í byrjun júní.

Gunnar segist vera svo heppinn að eiga töluvert af fyrningum, en heyskapur var sérlega góður í fyrra. Til þess að eiga nóg fóður yfir veturinn reiknar hann með að þurfa að kaupa sex hundruð heyrúllur, að því gefnu að grænfóðuruppskeran bregðist ekki. Þriðjungur gróffóðursins verði því aðkeyptur næsta vetur, en að jafnaði þurfi átján hundruð rúllur.

Endurræktar 60 hektara

Ræktarlandið á Göngustöðum er um 95 hektarar og stendur til að plægja og sá í 60 af þeim í sumar. Stærsti hluti túnanna fái venjuleg túngrös, en þeim sé öllum skjólsáð með ertum og höfrum til þess að fá sem mesta uppskeru í ár, en jafnframt sé einæru rýgresi sáð í fjölda túna. Gunnar hefur látið ísá í tíu hektara, en ræktarlandið sem eftir stendur muni fá túnáburð og verða nýtt til beitar.

Vegna hretsins í byrjun júní var ekki hægt að byrja jarðvinnslu fyrr en í kringum þjóðhátíðardaginn. „Það kom fimmtíu til sextíu sentímetra jafnfallinn snjór yfir allt sem tafði okkur mikið,“ segir Gunnar. Túnin séu fyrst núna orðin nógu þurr til að þola að ekið sé á þeim og vonast hann til að vera búinn að koma megninu af fræinu í jörð rétt fyrir mánaðamót.

Nærmynd af kalskemmdum. Mynd / Eiríkur Loftsson

Skylt efni: Kal | jarðrækt

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...