Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þegar hjón austur á Héraði ákváðu að við svo búið mætti ekki standa og særðu hann á ný úr myrkviðum aldanna.

Elsta þekkta íslenska heimild um jólaköttinn er frá því um miðja 19. öld, úr Breiðdal. Hann er einn þeirra jólavætta sem taldar eru eiga sér rætur í heiðni og eru sagnir af áþekkum verum til um alla Evrópuálfu og víðar og um þær getið strax á 15. öld eða fyrr.

Líkum hefur verið leitt að því að hlutverk jólakattarins hafi einkum verið að halda fólki að þeim verkum sem þurfti að inna af hendi fyrir jól, svo sem að prjóna og vinna fatnað fyrir hvern og einn svo hann „færi ekki í jólaköttinn“. Jólakötturinn sum sé refsar fólki ef það stendur sig illa við jólaundirbúninginn, t.d. með því að éta jólamat þess, gera því aðra skráveifu eða jafnvel éta fólkið og sá sem enga nýja flík fær fyrir jólin er sagður „fara í jólaköttinn“. Það gat líka gerst hjá þeim sem fékk enga jólagjöf og jafnvel líka fyrir þann sem síðastur var í sparifötin á aðfangadagskvöld.

Jólakötturinn er ekki einn um að hafa gert okkur lífið hér á Íslandi leitt, heldur eru sagnir af ýmsum kattættuðum skrímslum, svo sem skoffíni, skuggabaldri, finngálkni og urðarketti, en jólakisinn mun kominn út af ætt hins síðastnefnda.

Jólakötturinn hefur oft staðið þjóðinni nær en um þessar mundir enda hlutverk hans orðið óljósara í breyttu samfélagi.

Við ættum þó að halda honum til haga sem hluta af gamalli vættatrú enda er hann á pari við Grýlu gömlu og jólasveinana.

Edda Björnsdóttir og Hlynur Halldórsson á Miðhúsum á Fljótsdalshéraði endurvöktu deyjandi jólaköttinn fyrir hartnær hálfri öld þegar þeim fannst íslenskar jólahefðir eiga orðið í vök að verjast. Síðan hefur kisi styrkt stöðu sína með hverju árinu. Mynd / Fjölnir Björn Hlynsson
Miðhúsa-jólakötturinn

Skammt utan við Egilsstaði má líkast til finna uppruna endurkomu jólakattarins á Íslandi nútímans. Hjónin Edda Björnsdóttir og Hlynur Halldórsson á Miðhúsum á Fljótsdalshéraði ráku galleríið og listasmiðjuna Eik í hartnær hálfa öld, frá árinu 1975, og unnu þar úr íslensku hráefni, ekki síst úr skóginum og þá allra helst birki. Þar var m.a. skorin út eftirlíkingin af Valþjófsstaðarhurðinni sem nú er fyrir kirkjunni í Fljótsdal. Smíðisgripirnir voru fjölmargir og bæði nytjahlutir eins og laufabrauðshnífar og -pressur, tölur úr hreindýrshorni, skógarbollar og tréstaup, og skrautmunir af ýmsu tagi. Þau hjónin eru nú að mestu sest í helgan stein.

„Við fengum hugmyndina að jólakettinum okkar fyrir fjörutíu árum eða meira,“ segir Edda. „Mér fannst þetta vera komið út í svo mikla vitleysu, það var aldrei minnst orðið á neitt úr íslenskum hefðum. Jólakötturinn þekktist ekkert þá, svona eins og hann gerir í dag. Þannig að ég lífgaði hann við hér fyrir austan hjá okkur. Hann var eiginlega orðinn útdauður úr þessu jólastressi sem var þá.“

Eitt árið fannst jólakötturinn óvænt í Bónuspoka þar sem hann hafði hreiðrað um sig og var að éta sig inn í nýkeyptan hamborgarhrygg. Mynd / sá

Edda lýsir því hvernig jólakötturinn hafi spilað stórt hlutverk hjá fólki í gamla daga. „Lýsingin á honum er náttúrlega ekki skemmtileg,“ heldur hún áfram. „En svo kom að því að börn máttu aldrei vera hrædd og þá dagaði hann eiginlega uppi. Allir jólasveinarnir orðnir rauðir og hræðilegir. Þessi gamla bændamenning var eiginlega að týnast. En svona kom þetta nú til og mér fannst ég satt að segja vera að bjarga jólakettinum,“ segir Edda hlæjandi og bætir við að við eigum ekki að gleyma því sem jólahaldið snerist um í „den“.

Jólakötturinn má ekki deyja

Eik fór að framleiða jólaketti úr tré og handmála, í ýmsum stærðum. Sá stærsti hefur svo trónað í miðbæ Egilsstaða fyrir hver jól í áraraðir, ein og hálf mannhæð og upplýstur í skammdeginu. Edda segir þó ekki rétt hlutföll í honum enda hafi hann verið smíðaður af öðrum. Eik framleiddi einnig pínulitla ketti sem nælur og jólaskraut. Jólakettir Eddu og Hlyns seldust strax eins og heitar lummur og gera enn.

Jólakattarins varð líka vart í jólaskrautskassa í afvikinni geymslu fyrir nokkru síðan, heimafólki til skelfingar. Mynd / sá

Edda, sem var um tíma formaður Landssamtaka skógareigenda, kom líka með hugmyndina að Jólamarkaði Jólakattarins sem haldinn var í 17. sinn á Egilsstöðum um miðjan desember. Miðhúsa-jólakötturinn er einmitt einkennistákn markaðarins.

„Jólakötturinn má ekki deyja. Íslendingar stökkva alltaf á allt sem kemur einhvers staðar að og mér fannst bara vera komið of mikið af innfluttu glingri. Því varð jólakötturinn til hjá okkur og hann kom ekki fram með neinum látum. Fólk hefur margt ekki nein tengsl við söguna, það skynjar ekki að gamli tíminn á alltaf að tengjast aðeins inn í nútímann til að viðhalda hefðum, þekkingu og vera bara þjóð!“ segir Edda ábúðarfull.

Hún talar líka um hversu nútíminn sé fullur af æpandi litum, blikki og glimmeri sem stingi í augu, æpandi og skrækjandi. Áður fyrr hafi litir verið mildir og lágstemmdir, meira að segja litirnir á gömlu jólasveinunum. „Okkar menning var ekki þannig. Við vorum bara látlaus og lifðum á okkar náttúru. Það er alveg ótrúlegt hvað Íslendingar þeirra daga féllu vel inn í sína náttúru og umhverfi. En það er ekki lengur og mér leiðist það. Jólafígúrurnar okkar eru ekki lengur hæglátar í menningunni eins og þær voru. Þær lágu svona meira í loftinu en að þær væru að trana sér mikið fram.“

Jólasveinar komu sjóleiðis

Þau Hlynur og Edda hafa framleitt fleira sem tengist gömlum hefðum jóla. Laufabrauðshnífarnir frá Eik eru sérlega flottir en ekki lengur fáanlegir. Þeir eru í laginu eins og laufblað, flugbeittir enda úr skurðstofustáli, með birkihandfangi og í leðurslíðri. Einnig laufabrauðspressur sem hafa gamla sýrutunnulokið sem fyrirmynd. Hús handanna á Egilsstöðum hefur annast sölu á gripum frá Eik.

Edda rifjar upp að á Eskifirði, þar sem hún ólst upp, hafi jólasveinarnir komið af sjó, enda flest þar sjávartengt. „Þeir komu róandi á skinnbátum og grófu þá í fjörunni við lendingu. Ég man að sem krakkar vorum við að grafa í sandinn til að leita að bátunum. Þetta var skemmtileg menning. Svo breyttist þetta þegar kaninn kom með allt sitt glimmer og sterkrauða jólasveininn,“ segir hún.

Aðspurð hvort hún haldi að Fljótsdalshéraði beri gæfa til að varðveita jólaköttinn segist hún ekki viss um að svo sé, en vonandi verði héraðið þó vörsluaðili jólakattarins um langa framtíð.

Á Miðhúsum fannst árið 1980 silfursjóður, 43 silfurmunir, sem að langmestu leyti er frá víkingaöld og þótti merkur fornleifafundur. Þau Edda og Hlynur eru frumkvöðlar í íslenskri bændaskógrækt og voru meðal fyrstu bænda sem gerðu samning við Héraðs- og Austurlandsskóga. Þau fengu Landbúnaðarverðlaun árið 1996.

Jólakettir Eddu og Hlyns á Miðhúsum fengust í ýmsum stærðum og einnig sem jólaskraut og barmnælur. Þau eru hætt framleiðslunni en enn fást kettir af lager hjá Húsi handanna. Mynd/sá

Listamenn tekið köttinn að hjarta

Fleiri hafa orðið til þess að gera jólakettinum hátt undir höfði í list sinni, þ.á m. Jóhannes úr Kötlum í ljóðinu Jólakettinum sem lýsir vel fyrir hvað jólakötturinn stendur, Guðrún Sigurðardóttir, listakona á Egilsstöðum, sem hannaði á sínum tíma m.a. borðbúnað og kertastjaka með kettinum atarna, Hekla Íslandi og Erlingur Jóhannsson fyrir Glóð/Konukot. Að ógleymdum risaköttunum á Ráðhústorgi Akureyrar og Lækjartorgi Reykjavíkur.

Þeir sem vilja vita meira um jólaköttinn ættu að kynna sér fróðlega grein Hrefnu S. Bjartmarsdóttur þjóðfræðings um Jólaköttinn, uppruna hans, ættir og hlutverk, sem birtist í Bændablaðinu árið 2016 og má finna á veraldarvefnum.

Vígalegur jólaköttur á Ráðhústorgi á Akureyri. Mynd / Visit Akureyri

Jólakötturinn á Egilsstöðum er á þriðja metra og lífgar upp á miðbæ Egilsstaða. Hann er einkennismerki Jólakattarins, jólamarkaðar sem haldinn hefur verið í desember í 17 ár. Mynd / Ingibjörg Jónsdóttir

Ljósum prýddur jólaköttur á Lækjartorgi í Reykjavík Mynd/sá

Skylt efni: Jól

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...