Mynd / Mari Potter - Unsplash
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stinga nýir höfundar upp kollinum og er frumraun margra afar áhugaverð. Nú er tíminn til að heimsækja allar helstu bókabúðir landsins og stinga nefinu niður í sem flestar þeirra bóka sem hafa verið gefnar út nýverið. Ævisögur, rómansar, þrillerar, fræðirit og hetjusögur af ýmsum toga gleðja landsmenn, sem ef til vill vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Allt eru þetta gluggar nýrra gátta, eins og karlinn sagði, og því um að gera að demba sér inn í næsta ævintýri.

Þræðir í lífi Bertu og Þræðir fléttast

Elínborg Angantýsdóttir, höfundur bókanna Þræðir í lífi Bertu og Þræðir fléttast, er að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundur, en hefur áður skrifað ljóð og hugleiðingar gegnum árin. Ritstíl hennar hefur verið líkt við bækur Guðrúnar frá Lundi, en Elínborg lýsir lífi og búskaparháttum í sveit um miðja öld á einlægan og rómantískan hátt.

Þræðir í lífi Bertu er persónuleg og innileg lesning, lífssaga konu sem hnýtt er við íslenskt mannlíf sjötta áratugarins. Aðalsögupersónan, konan, hefur að skrásetja sögu sína með það fyrir augum að vinna sig úr djúpstæðum sálarháska. Þetta er saga sársauka og gleði, sigra og ógna þar sem einlæg frásögn fangar lesandann jafnframt því sem hann kynnist lífi áratuganna áður.

Þræðir fléttast er sjálfstætt framhald bókarinnar Þræðir í lífi Bertu. Þetta er saga full af þrá, hindrunum og leit að tilgangi, en Berta er einstæð móðir sem gengið hefur í gegnum erfiðan skilnað og er að fóta sig á nýjan leik. Snúin fjölskyldubönd koma við sögu, áföll og þau hjartans mál sem gefa lífinu lit. Bækur Elínborgar má fá í verslunum Pennans Eymundsson víða um land.

Horfin býli og huldar vættir

Horfin býli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu er nafn nýrrar bókar eftir Ólaf J. Engilbertsson.

Í Snæfjallahreppi og Grunnavíkurhreppi urðu mikil umskipti á 20. öldinni, að því er kemur fram í kynningu. Um aldamótin 1900 var mannlíf í miklum blóma á þessu svæði og íbúafjöldinn umtalsverður á landsmælikvarða. Síðasti bóndinn flutti í burtu 1995. Í bókinni er að finna frásagnir sem þræða hina horfnu byggð, allt frá landnámi til síðustu ábúenda. Fjöldi mynda prýðir verkið.

Íbúafjöldi reis og hneig

„Árið 1703 voru átta býli í byggð á Snæfjallaströnd með samtals 147 íbúum, þar af fimm ómögum,“ segir Ólafur. „1801 voru býlin jafnmörg, en íbúum hafði fækkað niður í 130. Í flestum tilvikum var tví- eða þríbýli og á einum stað, Unaðsdal, var fjórbýli, svo bæirnir voru í reynd 20. Íbúafjöldinn á Snæfjallaströnd fór eftir það ört hækkandi og voru þar yfir 300 manns um aldamótin 1900, þegar árabátaútgerð var í hvað mestum blóma. Árið 1910 var íbúafjöldinn hins vegar kominn niður í 223 og um 1930 var 21 bær í byggð í Snæfjallahreppi með um 150 íbúa. Á þessum árum og fram eftir fjórða áratugnum fór fólki svo ört fækkandi og fjölskyldur fluttu í burtu, einkum af ytri Ströndinni. Gamlar kostajarðir fóru þá í fyrsta sinn í eyði og í ritinu er lögð áhersla á að bregða ljósi á hvernig umhorfs var um og eftir 1930 þegar hinar miklu umbreytingar urðu og ásýnd Strandarinnar breyttist,“ segir hann.

Byggt er á upplýsingum í bókinni Undir Snjáfjöllum eftir Engilbert S. Ingvarsson sem Snjáfjallasetur gaf út 2007.

Hvarf eins og dögg fyrir sólu

Á ytri Ströndinni í landi Sandeyrar og Snæfjallastaðar var skv. Ólafi talsverð þurrabúðabyggð um aldamótin 1900. Þegar mest var bjuggu þar fjórtán fjölskyldur í litlum kotum með lítið undirlendi, en gjöful fiskimið skammt undan landi. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum ritaði ítarlega um búendur og bátaformenn þar árið 1901 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga. Í Grunnavík var uppgangur í útgerð eftir aldamótin og fram yfir 1950.

Þorvaldur Thoroddsen segir í Ferðabók sinni rétt fyrir aldamótin 1900 að kotahverfi sé niðri við sjóinn í Grunnavík. Um 80 manns eru þá taldir eiga þar heimili. Jóhann Hjaltason skrifar 1949 að þarna sé snotur byggð og að bæirnir standi þar þétt. Byggðin var þá kölluð Í Víkinni og voru íbúarnir enn um 70.

„Ljóst er að þarna var vísir að þéttbýliskjarna sem hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu á rúmum áratug. Byggð hélst áfram í blóma á innri Snæfjallaströnd, þó býlum fækkaði. Með samgöngubótum og Inn-Djúpsáætlun var reynt að sporna gegn því að byggðin legðist í eyði, líkt og raunin varð á með Grunnavík haustið 1962. Þróunin varð þó ekki umflúin og síðasti bóndinn hvarf af Ströndinni haustið 1995. Síðan hefur einungis verið fólk þar á sumrum, líkt og í Grunnavík og á Höfðaströnd, utan ábúenda í Æðey sem dvelja þar meira og minna allt árið,“ segir Ólafur.

Hvíti Ásinn

Jóhanna Sveinsdóttir er ein nýrra höfunda nú í ár en frumraun hennar, barna- og unglingabókin Hvíti Ásinn, er æsispennadi og vel skrifuð. Lesendur kynnast unglingsstúlkunni Iðunni sem býr ásamt föður sínum utan við samfélagið í Noregi en þarf að flýja um miðja nótt til Íslands.

Þar kynnist hún uppruna sínum og tekst á við þroska og þrautir sem flétta saman norræna goðafræði og Íslendingasögurnar á snilldarlegan hátt. Líkt og aðrir unglingar þarf Iðunn að æfa samskipti sín við jafnaldra og trú á sig sjálfa og eigin styrk – en í þessu tilfelli er um æsispennandi atburðarás að ræða sem kynnir til leiks persónur sem allir kannast við ef vel er að gáð.

Lesendur geta til dæmis velt því fyrir sér hver Valtýr skólastjóri raunverulega er og hvers vegna hann er einhentur. Eða hvers vegna Iðunn hefur sterkari skilningarvit en aðrir. Hvíti Ásinn er svo sannarlega ein þeirra bóka sem getur höfðað til allra aldurshópa og Jóhanna Sveinsdóttir höfundur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Bókin er gefin út af Sölku, en samnefnd bókabúð er við Hverfisgötu 89–93 og afar ánægjulegt að líta þar við í jólaösinni. Hvíta Ásinn má einnig finna t.d. hjá Forlaginu og Pennanum Eymundsson.

Íslandshvalir í máli og myndum

Út er komin bókin Ísland of the Whales, eftir Eline van Aalderink. Hún er íslensk-hollenskur sjávarlíffræðingur og sérfræðingur í vistfræði sjávarspendýra og sjófugla. Eline starfar á Íslandi, m.a. sem rannsóknasamhæfingastjóri og leiðsögumaður fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfa sig í hvala- og lundaskoðun.

Ísland of the Whales er líklega fyrst og fremst stíluð á ferðafólk, áhugasamt um hvalaskoðun og verndun hvala við Ísland. Bókin er á ensku, prýdd sterkum ljósmyndum og teikningum höfundar, og er sumpart eins og persónulegt samtal höfundarins við lesandann. Höfundur fjallar um vísindalegar staðreyndir og athuganir ásamt persónulegum og listrænum hugleiðingum. Bókin er aðgengileg og léttleikandi, þrátt fyrir þungan undirtón þar sem lesandinn er brýndur til umhugsunar um umhverfismál og náttúruvernd.

Fjallað er um vænlegar hvalaskoðunarslóðir, hvalahljóð, hnúfubak, höfrung, hnísu, steypireyði, búrhval, andarnefju, háhyrning, grindhval, langreyði og hrefnu í máli og myndum. Lýsing er á hverri hvalategund fyrir sig, m.a. stærð og lengd, atferli og sérkenni, dýpt köfunar og lengd, æti og hvar og hvenær má vænta þess að sjá hverja tegund. „Þessi bók er tilraun til að hvetja til breytinga,“ skrifar höfundur í formála. „Að búa til ölduhreyfingu sem gefur til baka til hafsins og óvenjulegra íbúa þess. Þetta er óður til ótrúlegrar aðlögunarhæfni hverrar tegundar, æðruleysi hvers stofns og sérstöðu hvers og eins þeirra, allt samofið byltingarkenndum vísindum, heillandi staðreyndum og óumflýjanlegum tilfinningum sem þessar töfraverur vekja með okkur.“

Höfundur gefur út. Bókin er 96 síður, prentuð í Bretlandi og fáanleg m.a. í bókaverslunum, sem hjá höfundi á tinyblowseverywhere@gmail.com. Höfundur heldur jafnframt úti Instagram og TikTok á tinyblows.everywhere.

Blákápa

Ljóðabókin Blákápa er þriðja ljóðabókin sem Félag ljóðaunnenda á á Austurlandi gefur út með ljóðum eftir Braga Björnsson (1929–2011) frá Surtsstöðum í Jökulsárhlíð. Hefur Magnús Stefánsson, í samvinnu við börn Braga, valið til birtingar um 260 ljóð úr safni stílabóka höfundar. Bókin er 270 síður.

M.a. er í bókinni að finna nokkur ljóð og þulur sem Bragi orti fyrir börn og fullorðna um dýrin í sveitinni og ýmislegt sem þar gerðist og tengdist fjölskyldu hans. Annars eru yrkisefnin fjölmörg og fjölbreytt.

Bragi var afkastamikið og gott ljóðskáld og voru vísur og ljóð hans helsta hugðarefni. Hann var lengst af kunnari fyrir lausavísur sínar enda voru þær honum mjög tamar í daglegum samskiptum við vini og kunningja. Auk eigin vísnagerðar var Bragi forfallinn lausavísnasafnari og skrifaði hjá sér allar þær vísur sem hann heyrði og mat prenthæfar og gjarnan tilefni þeirra ef það lá fyrir.

Í Blákápu kennir ýmissa safaríkra grasa og er þar m.a. eftirfarandi ljóð:

Aðfangadagskvöld

Er klukkur hringja kvöldsins helgi inn
kyrrð og friður taka alger völd
og jólastjarnan sendir geislann sinn
í sveit og borg – til allra þetta kvöld.

Og það er fagnað jafnt í hreysi og höll,
hjörtun fyllast bæn og þakkargjörð,
ef þannig hug við temdum okkur öll
hans æðsta hugsjón myndi sigra á jörð.

Því hann sem fæddist fyrstu jólum á
og friðarbirtu mannkyninu gaf,
hann veitir lífdrykk öllum enn sem þá
ótæmandi náðarbikar af.

Á kirkjustjökum kvikna jólaljós,
við kærleik hjartans þyrnir verður rós.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...