Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Tímamót?
Mynd / HKr.
Lesendarýni 15. febrúar 2019

Tímamót?

Höfundur: Arnar Árnason
Nú er kosning um framleiðslu­stýringu, „kvótakosningin“, hafin og markar hún í raun upphaf vinnunnar við endurskoðun mjólkur­hluta búvörusamningsins. Áherslur kúabænda við samninga­vinnuna munu byggja á niðurstöðu hennar. 
 
Mig langar, áður en lengra er haldið, að hvetja alla mjólkur­framleiðendur til að taka þátt því það er mjög mikilvægt fyrir okkur fulltrúa bænda sem sitjum við samningaborðið í endurskoðuninni að hafa til þess skýrt umboð og að það komi greinilega fram hver vilji bænda er.
 
Breyttar forsendur
 
Eins og eflaust margir muna var lagt upp með – þegar núverandi samningur var skrifaður – að greiðslumarkskerfið skyldi aflagt bæði sem framleiðslustýring og sem viðmið fyrir beingreiðslur. Þannig hefði framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu verið aflögð og öllum frjálst að framleiða eins og þeir vilja. Ein af forsendunum sem lágu fyrir á sínum tíma, og stórar ákvarðanir voru byggðar á, voru tilgátur um það að íslenska kúakynið væri komið á einhvers konar endapunkt og gæti ekki framleitt meira en um 125 milljón lítra af mjólk og þess vegna væri óhætt að gefa alla framleiðslu frjálsa, hér yrði aldrei hægt að fullnægja innlendum markaði hvort eð er. Á þessu var byggt þegar fyrstu drög nýrra búvörusamninga voru hripuð á blað. Þetta hefur reynst fullkomlega rangt og íslenskir kúabændur framleiddu á síðasta ári  rúmlega 152 milljónir lítra. Þetta sýnir okkur að það getur reynst varasamt að taka stórar ákvarðanir nema að ígrunda vel hvaða skref eru stigin.
 
Semsagt, íslenskir kúabændur eru fullfærir um að framleiða allt það magn sem þarf til að sinna okkar sístækkandi innanlandsmarkaði fyrir mjólkurvörur. 
 
Viðhöldum jafnvægi í framleiðslunni
 
Ein af grundvallarforsendum þess að mjólk sé framleidd á öllu landinu er samstaðan um flutningsjöfnuð á mjólk, þ.e. að það kostar jafnmikið að sækja mjólk til bænda hvar sem þeir búa. Einnig búum við við svokallaða söfnunarskyldu sem tryggir það að mjólk er sótt og keypt af okkur í hvaða magni sem er, þó ekki öll á sama verðinu og það er einmitt hryggjarstykkið í kerfinu okkar þ.e. við fáum fullt verð fyrir mjólk innan greiðslumarks en svo lægra fyrir aðra mjólk sem minna fæst fyrir á markaði.
 
Þetta er gott fyrirkomulag sem við kúabændur búum við og er um leið gríðaröflugt byggðaþróunartæki en það getur verið vandi að umgangast slíkt af virðingu. Það er í okkar valdi og það er okkar hagur að viðhalda jafnvægi í framleiðslu mjólkur. Það verður alltaf hagkvæmast fyrir okkur sem bændur og okkur öll sem þjóð að framleiðsla búvöru sé í takt við neysluna því það hefur enginn neitt upp úr því að framleiða vöru sem ekki er markaður fyrir sem svo leiðir af sér að nauðsynlegt reynist að selja hana undir kostnaðarverði.
 
Við eigum öflugan iðnað sem sífellt leitar nýrra tækifæra og er það vel. Við eigum á hverjum tíma, eins og framleiðslumálin hafa verið hjá okkur, næga mjólk til að stunda vöruþróun fyrir nýja markaði. Því eigum við hiklaust að halda áfram en munum samt að það er dýrt að framleiða mjólk á Íslandi og við skulum passa okkur á því að búa ekki þannig um hnútana að við hljótum skaða af til lengri tíma litið.
 
Brýnt að koma á markaði með greiðslumark
 
Ef kvótinn verður kosinn áfram þá er brýnast að það komist markaður í gang með greiðslumark. Það er nauðsynlegt að greiðslumark geti leitað þangað sem það vill vera ef svo má segja. Strax í kjölfar kosningarinnar verður gerð skoðanakönnun á vegum BÍ og LK um það hvernig kerfi bændur vilja sjá í viðskiptum með greiðslumark sem og hvernig bændur vilja sjá skiptingu á milli einstakra liða samningsins.
 
Horfum í baksýnisspegilinn
 
Á árunum kringum 1980 stóðu kúabændur frammi fyrir mikilli offramleiðslu. Við því var brugðist með því að setja á framleiðslustýringu sem svo í gegnum tíðina hefur tekið breytingum vegna aðstæðna hverju sinni. Enn á ný stöndum við frammi fyrir því að þurfa að rýna kerfið okkar. Á þessum tímamótum verðum við að horfa í baksýnisspegilinn og læra af þeirri reynslu sem við höfum aflað okkur, hvernig við brugðumst við á sínum tíma, því þau viðbrögð hafa svo sannarlega skilað okkur áfram veginn. En á sama tíma verðum við að horfa fram á við og bregðast við nýjum áskorunum.
 
Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að ég tel stýringu nauðsynlega í mjólkurframleiðslu á Íslandi. Ég hef þá trú að einmitt það kerfi sem hefur verið við lýði síðan um 1980 hafi gert kúabúskapinn svo sterkan og framsækinn sem raun ber vitni. Það er þá nauðsynlegt að átta sig á því hverju við viljum að kerfið skili. Viljum við ekki að það skili góðri afkomu okkar bændanna, sanngjörnu verði og miklum gæðum til neytenda, að það tryggi matvælaöryggi og að opinberir fjármunir nýtist landi og þjóð? Viljum við ekki að það stuðli að dreifðri byggð og blómlegum sveitum? Viljum við ekki að það stuðli að lágmörkun á ónauðsynlegum innflutningi matvæla sem unnt er að framleiða hér og þannig losna við sótsporið sem felst í flutningi vara yfir höfin?
 
Ég held að allir, bæði bændur og neytendur, geti svarað þessum spurningum játandi og ég tel að öflugt kerfi í anda þess sem verið hefur við lýði um árabil sé verkfærið til að ná þessum markmiðum.
Vonandi auðnast okkur bændum, við kjörborðið þessa dagana, að kjósa á þann hátt að búgreinin okkar búi áfram við aðstæður sem tryggir festu í rekstrarumgjörð greinarinnar, afkomu bænda og sanngjarnt vöruverð.
 
Hvernig sem kosningin fer er nauðsynlegt að bændur allir snúi saman bökum og og einhendi sér í þá vinnu sem fram undan er, við lifum spennandi tíma.
 
Arnar Árnason, 
Hranastöðum
formaður Landssambands kúabænda
arnar@naut.is
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...