Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Allra heilagra messa, hrekkjavakan og amerísk grasker
Á faglegum nótum 4. nóvember 2016

Allra heilagra messa, hrekkjavakan og amerísk grasker

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Allra heilagra messu ber samkvæmt kirkjuhefð upp á fyrsta dag nóvembermánaðar ár hvert. Svo ákvað Gregoríus páfi, hinn fjórði með því nafni. Hann gegndi páfadómi frá árinu 827 til dauðadags árið 844. Dagurinn var helgaður öllum píslarvottum og öðru sannheilögu, framliðnu fólki sem ekki átti sinn sérstaka sálumessudag í viðburðaskrá hinnar rómversku kirkju.

Tveim öldum síðar bættu kirkjufeðurnir allrasálnamessu við og að hún skyldi sungin daginn eftir til sáluhjálpar þeim fátæklingum sem andast höfðu á árinu og verið huslaðir án viðhafnar og yfirsöngs í stíl við það sem tíðkaðist þegar eignafólk sem gat staðið undir sálnamessu­gjöldunum átti í hlut. 

Heiðnir siðir og handanheimar

Í raun var þessi ráðstöfun kirkjufeðranna sprottin af hvötinni til að kveða niður rótgróna siðu frá fyrri öldum þegar fólk hélt hátíðir, oft dálítið groddalegar, til að milda og draga úr áhrifum handanheima á hið daglega líf. Þessar hátíðir voru tengdar dauðanum og verum framliðinna sem hugsanlega gætu verið að slæðast um slóðir lifenda til að gera þeim lífið leitt.

Árið á suðurslóðum skiptist bara í sumar og vetur. Því var eðlilegt að halda þessar hátíðir á þeim tímamótum þegar myrkrið var orðið birtunni yfirsterkara. Þá gátu draugar og forynjur náð sér á strik og gert fólki skráveifur ef þeim var ekki mætt með tilhlýðilegu móti. Fólk, einkum unglingar, klæddi sig í ótótlega búninga og setti upp grímur til að trufla framgang forynjanna svo að þær drægju sig til baka inn í sinn dularheim. Héldu sig síðan þar og væru til friðs næsta árið.

Hátíðahöld af þessu tagi og á þessum árstíma voru ekki snar þáttur í menningu germanskra þjóða. Þar náði svona sprell litlum vinsældum. Og þó, margir jólasiðanna okkar og ýmislegt sem nú er tengt föstuinngangi páskanna er af svipuðum meiði.

Þjóðir með keltneskan uppruna, t.d. Írar og Skotar, tóku þessar dauðahátíðir af fullum þunga. Ekki samt of hátíðlega, því þeim fylgdi margvíslegt sprell og gjarna einhverjir grímubúningar sem féllu vel að tilefninu. Og þeir fluttu sprellið yfir á kvöldið fyrir allraheilagramessu. Á ensku kallast hún „All Hallows‘ Day“. Kvöldið áður verður þá „All Hallows‘ Evening“ sem síðan styttist í „Halloween“. Það höfum við íslenskað með orðinu hrekkjavaka og á síðustu árum hefur borið á að hún sé orðinn snar þáttur í félagslífi yngri kynslóðanna hér á landi. Sennilega vegna amerískra áhrifa.

Víða á Bretlandseyjum var kvöldið fyrir allraheilagramessu tilefni þess að fólk gerði vel við sig í mat og fór í leiki. Fólk vandraði á milli húsa í grímubúningi eða dularklæðum, sprellaði í grönnunum og sníkti eitthvert góðgæti. Bálkestir voru kyntir utanhúss og margir báru luktir úr holuðum, stórum næpum. Í næpurnar voru skorin andlit sem lýsti út um.

Eiginlega voru þessi hátíðahöld eins konar blendingur af töðugjöldum, vættatrú og tengingunni við dauðann og hið forgengilega. Þetta var líka kvöldið til að rýna í framtíðina með alls kyns töfrabrögðum og spádómum. Sett voru upp sjónarspil þar sem við áttust hin illu og góðu öfl. Og að sjálfsögðu í tilkomumiklum leikbúningum sem hæfðu hlutverkunum.

Fólk sem flutti frá Bretlands­eyjum yfir til Vesturheims tók með sér siði og hátíðir heimahaganna. Háttsemin aðlagaðist samt nokkuð í nýjum heimkynnum vestanhafs. Þar fundu menn þeim áður ókunnan jarðarávöxt sem hentaði mun betur í hlutverk hrekkkjavökuluktarinnar en næpurnar. Graskerin voru komin til að vera.

Slyngi Jack – írskur drykkjubolti

Luktin góða sem skorin er út í næpur eða grasker kenna enskumælandi menn við írskan drykkjubolta og hrekkjalóm sem kallaður var slyngi Jack. Jack þessi sat eitt sinn að sumbli á vegakrá á dimmu hrekkjavökukvöldi. Þá bar Kölska þar að og Jack ákvað að leika nú á hann og bjóða honum sál sína fyrir ef hann borgaði fyrir sig síðustu ölkrús kvöldsins. Kölski gekkst kátur við boðinu og breytti sér samstundis í sexpensa mynt svo að Jack gæti borgað bareigandanum. En Jack var þá ekki seinn á sér, heldur greip peninginn og stakk honum í vasa sinn. Þar lenti peningurinn við hliðina á litlum silfurkrossi sem Jack bar á sér. Þarna var Kölski kominn í gildru og gat ekki breytt sér aftur til upphafsins og var nú á valdi Jacks sem ekki sagðist frelsa hann úr prísundinni nema að hann lofaði að sækja sál sína ekki fyrr en að tíu árum liðnum. Kölski samþykkti það.

Leið nú og beið. Tíu árin voru langt fram komin þegar leiðir þeirra lágu saman. Og nú á þjóðveginum. Kölski kallaði eftir skuldinni og Jack sagði það svosem ókei ef Kölski bara vildi bara vera svo vænn að hoppa þarna upp í eplatréð og rétta sér eitt epli áður en þeir gengju frá málunum. Kölski hélt nú að það væri lítið mál og að hann gæti varla farið mikils á mis þótt hann léti þessa ósk eftir honum. Nú væri Jack svo gott sem gefinn fengur.

En ekki var hann fyrr kominn upp í tréð en að Jack gerði krossmörk allt í kring um það, þannig að enn varð Kölski á valdi hans. Og nú samdi hann með hangandi haus við Jack um að til þess að komast niður úr eplatrénu kostaði hann því til að Jack fengi að halda sál sinni eins lengi og honum sjálfum sýndist og vera þar með laus við alla skilmála við sig.

Nokkrum árum síðar gaf Jack upp öndina og stormaði nú að Gullnahliðinu. Þar hitti hann fyrir Lykla-Pétur og beiddist inngöngu. En, nei-ónei, sagði þá Lykla-Pétur, vegna drykkjuskapar þíns, klækja og óknytta áttu ekkert pláss hér.

Þá ásetti Jack sér að rifja upp gömul kynni við Kölska og brá sér að dyrum hans, bankaði þar uppá og bað um að fá að komast inn í ylinn. En nú brá svo við að Kölski vildi ekkert með hann hafa og taldi sig brjóta mjög á samvisku sinni færi hann að gera við hann nýjan samning. Því gerði hann Jack afturreka til fyrri vistar þar sem hann gæti ráfað um sem fyrr án þess að eiga nokkurs staðar höfði sínu að að halla.

En Kölski gerði þó gustuk á. Í holuðu næpuna sem Jack bar alltaf með sér, sér til viðurværis, lét hann falla glóðarmola úr logum helvítis svo að hann gæti þó alltaf lýst sér leið á hinu endalausa ráfi sínu. Síðan hefur slyngi Jack flakkað um eirðarlaus og þindarlaust og er enn að. En ætíð með þessa eina litlu glóð að leiðarljósi. Luktina hans, hrekkjavökuluktina, kallar enskumælandi fólk því „Jack-o‘-lantern“ eftir honum.

Landnám vestanhafs – graskerin uppgötvuð

Í Ameríku gerðu innflytjendurnir bresku sér fljótt ljóst að graskerin sem innfæddir þar ræktuðu væru mun betur til útskurðarins fallin en næpurnar þegar kom að því að skera út í þær andlit hrekkjavökuluktanna sem þessi glóðarmoli Kölska átti að lýsa út um, mönnum til áminningar um fallvalta gæfu.

Grasker eru upprunnin í háfjöllum Mið-og Suður-Ameríku og höfðu verið í ræktun í meira en fjögurþúsund ár áður en Evrópumenn bar þar að garði. Ræktunin hafði breiðst út um allt landsvæðið sem nú eru Mexíkó og suðurríki Bandaríkjanna og reyndar til norðurs upp með austurströndinni þar sem breskir innflytjendur settust að. Þau heyra til ættkvísl graskerja, á fræðimálinu Cucurbita sem er gamalt og almennt heiti á ýmsum öðrum „graskerum“ í gamla heiminum. Við þekkjum það í tökuorðinu „kúrbítur“ sem er frekar ónákvæmt og getur spannað öll form af graskerjum. Viðurkenndar tegundir eru um tuttugu auk fjölda undirtegunda. Í ræktun til manneldis eru þó aðeins fimm tegundir og þar af aðeins þrjár sem ræktaðar eru í stórum stíl þar sem hlý og löng sumur leyfa.

Þrjár aðaltegundir graskera

Af þessum þrem tegundum má fyrst nefna Cucurbita maxima sem hlotið hefur íslenska heitið risagrasker. Af því eru til tugir stofna sem hver hefur sitt yfirbragð í stærð, lit eða lögun. Kannski sjáum við það fyrst og fremst fyrir okkur sem vagn Öskubusku í teiknimyndum Disneys eða þá sem hina dæmigerðu hrekkjavökulukt með augum, munni og nösum. En afbrigðin eru mun fleiri, stór (stundum risastór eintök sem vega hálft tonn eða meira) eða smá, hnöttótt eða aflöng, gul, órans eða græn á litinn. Og það fer svolítið eftir löguninni hvað afbrigðin kallast. Þau hnöttóttu kallast oftast „pumpur“ en séu þau aflöng kallast þau frekar „skvass“, en í raun er þessu oft ruglað saman.

Önnur tegund sem hægt er að rækta í görðum norður á Skán og í plastskýlum enn lengra til norðurs eru moskusgrasker, Cucurbita moschata, og ber miðlungsstór aldin, sem oftast eru digur að framan . Stundum eru þau mjög afturmjó og jafnvel sveigð í krappa boga. Liturinn oftast mógulur eða strágulur og kjötið mjög þétt, sætt og matarmikið. Af þeim leggur þægilega moskuslykt. Af moskusgraskerum þekkjum við einna helst 'Butternut‘ sem er smágert með þéttu, rauðleitu og afar bragðgóðu aldinkjöti sem svo sannarlega minnir á smjör og hnetur í sömu andránni og nota má bæði steikt eða soðið í viðbit ellegar súpur. Eins má rífa það niður hrátt í kökur og eftirrétti.

Þriðju tegundina þekkjum við flest vel. Það er mergjan, Cucurbita pepo, sem stundum er kölluð kúrbítur, zukkíni, skallop, spaghettimergja, courgette og slíkum nöfnum áfram endalaust eftir því hvert útlitið er og notagildið. Mergjan er eina graskerið sem nokkurn veginn er tiltölulega auðvelt að rækta hér á Íslandi. Í blíðum sumrum þrífast plönturnar jafnvel utanhúss ef þær eru í góðu skjóli á móti sól. Annars þurfa þær að vera undir plasti eða í gróðurhúsum án upphitunar. Aldinin eru tekin meðan hýðið á þeim er þunnt og mjúkt. Þá líkjast þau helst gúrkum. Best er að taka þau viku til tíu daga gömul. Þau má borða hrá en eru fremur bragðlítil. En í margvíslegri matargerð taka þau vel við kryddi og hægt er að gera úr þeim alls konar hlaup og sultur til að hafa með bakkelsi eða kjötréttum.

Skylt efni: Grasker | Hafsteinn Hafliðason | Al

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...