Álmur (Ulmus glabra)
Árið 2020 mældist álmur í Múlakoti í Fljótshlíð 20,54 metrar á hæð. Þar með bættist hann í flokk þeirra trjátegunda sem náð hafa tuttugu metra hæð hérlendis.
Þær eru nú tíu og nefnast í stafrófsröð alaskaösp, álmur, blágreni, degli, evrópulerki, fjallaþinur, rauðgreni, rússalerki, sitkagreni og stafafura.
Fáeinar tegundir í viðbót nálgast tuttugu metra markið, skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur.
Álmur er samheiti nokkurra tuga lauftrjátegunda af álmættkvíslinni sem vaxa víða um norðurhvel jarðar, allt frá norðurheimskautsbaug og suður fyrir miðbaug. Þetta eru tré sem gjarnan geta orðið 30-40 metra há eða meira. Það sem við köllum í daglegu tali álm er sú tegund sem hefur fræðiheitið Ulmus glabra, er algengasta álmtegundin í norðvesturhluta Evrópu og sú eina sem hefur þrifist hérlendis. Á höfuðborgarsvæðinu eru myndarleg álmtré sem sennilega eru af dönskum uppruna. Þau geta orðið að tignarlegum trjám en eru kalsækin og henta einkum sunnanlands. Hingað hefur einnig borist álmur frá Beiarn á 67° norðurbreiddar í Noregi. Hann er fullkomlega harðger en seinvaxinn og oft kræklóttur. Slíkt getur sumum jafnvel þótt kostur frekar en galli svo sem í garðrækt eða við götur og torg þar sem er mikilvægast að trén séu hraust og þrífist en síður að þau verði mjög stór.
Hér er komin tegund sem gefa mætti meiri gaum hérlendis, ekki síst hin norðlægu kvæmi frá Noregi. Álmtré eru yfirleitt einstofna tré með breiða, regnhlífarlaga krónu sem gefur þeim einkennandi svip, svo þau þekkjast gjarnan langar leiðir, hvort sem er í skógi eða görðum. Haustlitir eru fallega gulir. Álmur er áhugaverð tegund til að auka fjölbreytni og prýða umhverfið því hann brýtur upp einsleit form innan um aðrar trjátegundir með sínu hvelfda krónuformi.
Tegundin hefur verið reynd víða um land og reynst vel á jafnvel ólíklegum stöðum þar sem næðir um hana, svo fremi hún búi við nægan raka og frjósaman jarðveg. Hérlendis vex álmur fremur hægt en örugglega ef hann verður ekki fyrir áföllum, svo sem kali eða snjóbroti.
Styrkleiki álms er ekki síst gott vindþol tegundarinnar sem sannarlega er þakkarvert hérlendis, ekki síst í þéttbýlisgörðum. Vert væri að huga meira að ræktun álms í þéttbýli, jafnvel sem götutré. Laufið á álminum er þétt í sér og þolir þannig vindbarning mun betur en sumar aðrar tegundir, svo sem alaskaösp. Þá þolir álmur allvel saltákomu af sjó og sömuleiðis loftmengun. Annar meginstyrkleiki álms er viðurinn sem hefur verið eftirsóttur til smíða enda fallegur og oft með fallega brúnan kjarna, en líka bæði léttur og sterkur. Á sjöunda og áttunda áratugnum voru til dæmis innihurðir, innréttingar og jafnvel veggja- og loftaklæðningar í íslenskum húsum gjarnan spónlagðar með svokölluðum gullálmi, ljósgullnum viði úr tilteknu blendingsyrki álms, Ulmus x hollandica 'Wredei'.
Alkunn er álmsýkin, sveppsjúkdómur sem barkarbjöllur bera milli trjánna og þurrkaði álm að miklu leyti út í Evrópu á seinni hluta síðustu aldar. Álmsýki olli líka miklum skaða vestanhafs og á Nýja-Sjálandi. Illa hefur gengið að finna kvæmi eða einstaklinga af evrópskum álmi með mótstöðuafl gegn álmsýki. Hins vegar hefur tekist að rækta fram yrki, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku, sem sögð eru þola sjúkdóminn, m.a. með því að sækja erfðaefni í asískar álmtegundir með náttúrlega vörn gegn sýki þessari. Nú er komið nokkurt úrval af slíkum yrkjum í ræktun bæði austan hafs og vestan, þar á meðal blendingar við evrópska álminn. Hægt gengur þó að auka vinsældir tegundarinnar á ný, sennilega vegna þess slæma orðs sem álmurinn fékk á sig þegar trén drápust unnvörpum á síðustu öld, ekki síst glæsileg götutré sem víða settu mikinn svip á evrópskar borgir.
Hingað til lands hefur álmsýki ekki borist og ekki heldur aðrar helstu óværur sem herja á tegundina, ef undanskilin er álmlús. Hún getur farið illa með lauf trjánna þegar líður á sumarið og spillt útliti þeirra en er ekki skaðleg að öðru leyti. Rifstegundir eru millihýsill álmlúsar og því er óráðlegt að rækta rifs í nágrenni við álmtré.
Ef rétt er staðið að ræktun álms ætti þessi tegund að geta í auknum mæli prýtt götur og torg íslenskra þéttbýlisstaða en líka verið til yndisauka og aukinnar fjölbreytni í görðum og skógum landsins.