Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þorskroð frá Kerecis til að græða þrálát sár.
Þorskroð frá Kerecis til að græða þrálát sár.
Mynd / Kerecis
Á faglegum nótum 31. ágúst 2023

Bókvitið verður í askana látið!

Höfundur: Sigurgeir B. Kristgeirsson, búfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum

,,Bókvitið verður ekki í askana látið“ segir gamall íslenskur málsháttur.

Merking hans er sú að sá sem liggi og grúski í bókum hafi ekki tíma að vinna fyrir sér, sé því ekki matvinnungur eins og sagt var. Þá höfum við oft heyrt að meiri verðmæti verði ekki sótt í sjóinn, hann sé fullnýttur. En er það svo? Nýlega urðu stórfréttir í íslensku samfélagi þegar eignarhald Kerecis, félags vestur á fjörðum sem vann græðingarefni úr þorskroði, var selt fyrir 180 milljarða úr landi en þar af runnu um 60 milljarðar til Vestfirðinga. Kerecis er byggt upp af hugmynd um að nýta þorskroð til að græða þrálát sár sykursjúklinga sem annars gátu leitt til aflimunar þeirra. Skyndilega varð þorskroð, sem var lítils virði, gríðarlega verðmæt afurð sem bætti líf fjölda fólks. Allt þetta gerðist í krafti þekkingar og hugvits sem byggðist upp og fann sér svo farveg vestur á fjörðum. Hvort tveggja reyndist rangt, að bókvitið verði ekki í askana látið og að ekki verði sótt meiri verðmæti í sjóinn.

Tryggvi Hjaltason, formaður hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins.

Við fengum Tryggva Hjaltason, vörustjóra hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP og formann hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, til að útskýra fyrir okkur forsendur nýsköpunar, hversu mikilvæg verðmætaaukning er samfélögum og hvernig hvatar eiga að virka svo atvinnulífið geti staðið undir velmegun þjóðarinnar.

Mýtan um sérvitringinn

Hvað er það sem einkennir frumkvöðulinn? Er það þrjóski sérvitringurinn í skúrnum sem á engan pening en er með frábæra hugmynd? Hvað segir Tryggvi um það?

,,Það er mýta, sem er ekki rétt, að frumkvöðullinn þurfi að fórna öllu til að koma hugmynd sinni á framfæri. Rannsóknir hafa sýnt að hátt hlutfall nýsköpunar er hliðarverkefni til að byrja með, alveg eins og Marel spratt út úr sjávarútveginum fyrir margt löngu og nú Kerecis,“ segir Tryggvi. ,,Það sem er líka áhugavert er að meðalaldur frumkvöðla í verðmætustu nýsköpunarfyrirtækjunum er yfir fertugt og það er alls engin regla að þeir séu hámenntaðir. Víð þekking og að vera óhræddur við að gera mistök skiptir meira máli.“

Fjármagn og umhverfi skipta mestu

Hvað er það sem drífur nýsköpun, svona almennt, og hverjar eru forsendur þess að hún þrífist? Hvaða aðstæður þarf frumkvöðullinn að búa við?

,,Í fyrsta lagi skiptir stefna stjórnvalda miklu máli auk skilvirks og gegnsæs regluverks. Hvatar til nýsköpunar skipta mestu, eins og beinir styrkir, lágt skatthlutfall, endurgreiðslukerfi kostnaðar vegna rannsókna og þróunar, hugverkavernd, aðgengi að þekkingarsamfélagi eins og öflugum háskóla og öflug tengsl við atvinnugrein eins og sjávarútveg.

Það sem er gott er að fjárfesting ríkisins í nýsköpun er nú að nálgast 30 milljarða en var minna en 2 milljarðar fyrir tíu árum,“ segir Tryggvi.

Í öðru lagi megum við ekki gleyma peningunum. Gott aðgengi að fjármagni og stuðningi er stærsta einstaka breytan. Stór fyrirtæki hafa meiri fjárhagslegan styrk en þau minni, hafa lengri virðiskeðju, meiri aðföng og sérþekkingu sem skipta miklu við nýsköpun. Þau hafa líka úthald því það tekur langan tíma að uppskera ávöxt nýsköpunar, allt að 5–10 ár. Frægasta dæmið í sögunni eru ,,rannsóknarstofur“ amerískra risafyrirtækjanna Bell og Xerox, en þær voru settar upp af fyrirtækjunum til að vernda frumkvöðlana frá álagi og skrifræði við það að stunda nýsköpun og afla peninga. Stærstu og verðmætustu tæknifyrirtæki Bandaríkjanna í dag eru þau sem hafa búið til nútímaútgáfu af þessum ,,rannsóknarstofum“.

Í þriðja lagi skiptir aðgengi að sérfræðiþekkingu miklu. Við þurfum bæði að geta byggt hana upp í landi auk þess að geta flutt hana inn, bæði inn til menntastofnana og til atvinnulífsins.

Síðast en ekki síst er aðgengi að mörkuðum. Stærð markaða skipta miklu máli. Heimamarkaður á Íslandi er takmarkaður en við erum tiltölulega stór í sjávarútvegi og þar liggja tækifærin. Þar ættum við að geta gert okkur gildandi.“

Nýsköpun í sjávarútvegi

Alkunna er að Marel spratt upp úr þekkingarleit í sjávarútvegi. Nú hefur Kerecis sprottið úr sama jarðvegi. Hvaða tækifæri sér Tryggvi fyrir sér í nýsköpun og verðmætaaukningu í sjávarútvegi?

,,Sjávarútvegurinn er í kjörstöðu að ráðast í stórsókn í nýsköpun. Hann er fjársterkur, með djúpa sérþekkingu, eftirsótta vöru sem er fiskurinn, gott aðgengi að erlendum mörkuðum, þekkingu í markaðssetningu og í vaxandi tilfellum þekkingu við að koma nýjum vörulínum á erlenda markaði. Þá er mikil vísindaleg þekking til á Íslandi á vistkerfi sjávar, fleiri tegundir til að nýta, frekari úrvinnslu á sjávarfangi og áfram má telja. Greinin hefur því öll lykilspil á hendi sér til að geta ráðist í stórsókn í nýsköpun. Ég hvet forsvarsmenn sjávarútvegsins til að setja sér metnaðarfull langtímaplön um fjárfestingu og uppbyggingu í sjávarútvegi. Við þekkjum dæmi um verðmætin í greininni.

Þar má nefna makrílveiðar (nýsköpun í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á nýrri tegund), hrognavinnsla (hráefni sem var ekki nýtt finnur markað sem lúxusvara), og nú síðast Kerecis (vara úr roði sem var að mestu hent, nýtt til lækninga). Samanlagt er ávöxturinn af þessum þrem nýsköpunarverkefnum tugir milljarðar á ári í hreinum gjaldeyristekjum.

Sjávarútvegurinn liggur á gullkistu að mínu mati, nýjum tegundum, virðisaukningu í núverandi verðmætaferlum svo sem vörum sem eru í dag að mestu bræddar, virðisaukningu próteins, lækningarvörum og áfram má telja,“ segir Tryggvi.

Misskipting jókst, en hver tapaði?

Í umræðu er mikið talað um misskiptingu. Öllum er það ljóst að við sölu á Kerecis jókst misskipting. Allt í einu urðu einstaklingar vestur á fjörðum auðugir, ekki bara af fé, heldur líka þekkingu við að byggja upp fyrirtæki. Verðmætin sem streymdu til landsins í formi sölu Kerecis er líklega um helmingur af söluverðmæti sjávarafurða á einu ári. Þjóðarauðurinn jókst sem nam söluverðmætinu. Stærsti hluti hans rennur til fyrrum eigenda en einnig stór hluti til opinberra aðila í formi skatttekna, bæði beinna og óbeinna. Um allan heim njóta sykursjúklingar góðs af nýsköpun Vestfirðinga. Getur það þá verið að allir græði þótt misskipting aukist?

,,Já, nýsköpun er svo sannarlega allra hagnaður þegar upp er staðið. En menn tapa líka í nýsköpun á þeim verkefnum sem ekki ganga upp og verða gjaldþrota. Það er því gríðarlega mikilvægt að það sé heilbrigð áhættutaka og að allir geri sér grein fyrir henni. Það felast líka verðmæti í því að læra af mistökum. Þannig safnast þekkingin upp. Fjárfesting í auknum rannsóknum og þróun er af allt öðrum toga en hefðbundin fjárfesting. Hún tekur lengri tíma og er flóknari en ábatinn er margfaldur.

Það er ekki að ástæðulausu að 10 ríkustu hagkerfi heims eru þau sem eyða 80% af öllum útgjöldum til rannsóknar og þróunar í heiminum í dag. Það gleður mig mjög að sjá að við erum sífellt að auka fjárframlög í nýsköpun. Það mun bæta hag okkar allra þegar upp verður staðið,“ sagði Tryggvi Hjaltason að lokum.

Skylt efni: Nytjar hafsins

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...