Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hrísgrjón – þriðja mest ræktaða planta í heimi
Á faglegum nótum 2. febrúar 2015

Hrísgrjón – þriðja mest ræktaða planta í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Um helmingur jarðarbúa borðar hrísgrjón á hverjum degi. Í Asíu eru hrísgrjón helsta uppspretta næringar yfir tveggja milljarða manna og ræktun þess eykst hratt í Afríku þar sem þau verða sífellt mikilvægari sem fæða.

Hrísgrjón hafa líklega fætt fleiri og í lengri tíma en nokkur önnur planta. Þau eru gríðarlega mikilvæg fæða enn í dag því meira en einn fimmti allra hitaeininga sem jarðarbúar neyta koma úr hrísgrjónum. Þau eru ræktuð á um 10% af öllu ræktanlegu landi í heiminum.

Fornleifarannsóknir í Kína sýna að ræktun hrísgrjóna nær að minnsta kosti tíu þúsund ár aftur í tímann, aðrir segja ræktunina vera allt að fimmtán þúsund ára gamla. Rannsóknir á erfðum hrísgrjóna benda til að ræktun þeirra sé upprunninn og hafi breiðst út frá bökkum Yangze-árinnar sem er lengsta á í Asíu og sú þriðja lengsta í heimi.

Talið er að hrísgrjón hafi borist til Grikklands með hersveitum Alexanders mikla þrjú hundruð árum fyrir Kristsburð og á 14. öld er farið að rækta þau á Ítalíu og Spáni. Til Ameríku berast þau með þrælum frá Afríku. Strandlengja sem liggur frá Senegal til Sierra Leone kallast Hrísgrjónaströndin og var þekkt fyrir þrælaverslun og hrísgrjónarækt á sínum tíma.

Fjölær grastegund

Hrísgrjón, Oryza sp., eru fjölærar grastegundir sem dafna í margs konar jarðvegi, hvort sem hann er þurr eða blautur, súr eða basískur. Einkímblöðungar sem geta náð 1,8 metra hæð. Í ræktun er plöntunni sáð á hverju ári. Blöðin eru löng, 50 til 100 sentímetrar, og mjó, 2 til 2,5 sentímetrar, blómin vindfrjógandi og fræin æt. Fræin vaxa á öxum og misjafnt er eftir afbrigðum hversu mörg grjón hver planta gefur þar sem öxin eru mismörg eftir afbrigðum. Þegar best lætur getur ein planta þroskað allt að 2000 grjón.

Aðlögunarhæfni plöntunnar ræðst að hluta til af því hversu vel þróað loftæðakerfi hennar er og því getur hún hæglega flutt súrefni frá blöðum til róta jafnvel þótt plantan standi hálf á kafi í vatni. Ættkvíslin Oryza skiptist í 23 tegundir og eru O. sativa og O. glaberrima mest ræktaðar, sú fyrrnefnda í Asíu en sú síðarnefnda í Vestur-Afríku. Í Asíu hefur O. sativa þróast í hundruð ef ekki þúsundir undir- og deilitegunda en algengastar eru indica, japonica og javanica sem eru nefndar eftir upprunalegum vaxtarstað.

O. sativa þrífst betur þar sem úrkoma er meiri og plantan oftast ræktuð á flæðiökrum sem hafa verið hólfaðir niður og eru undir 5 til 10 sentímetrum af vatni vegna stíflugerðar. Áætluð vatnsnotkun O. Sativa til framleiðslu á einu kílói af hrísgrjónum eru 2000 lítrar.

O. glaberrima þolir meiri þurrk og hefur ræktun hennar sótt verulega á víða í Afríku undanfarin ár.

Líkt og í annarri einræktun herja margs konar sjúkdómar og skordýr á plönturnar auk þess sem sveppasýking á fótum er algeng hjá þeim sem vinna á ökrunum og standa í vatni allan daginn. Fyrr á tímum voru hrísgrjónaakrar eldisstöðvar fyrir moskítóflugur og malaríu sem breiddist út með henni.

Fiskeldi á flæðiökrunum er sums staðar hliðarbúskapur með hrísgrjónaræktinni.

500 milljón tonn

Hrísgrjón eru þriðja mest ræktaða planta í heimi á eftir hveiti og maís og nam heimsframleiðsla á þeim árið 2013 tæpum 500 milljón tonnum og þar af rækta Kínverjar rúmlega 200 þúsund tonn. Meðalframleiðsla á hektara er rúm 4,5 tonn en í Ástralíu þar sem hún er mest er uppskeran yfir 10 tonn á hektara.

Til samanburðar er þorskkvóti Íslendinga fyrir fiskveiðiárið 2014 til 2015 218 þúsund tonn.
Af öðrum löndum sem framleiða mikið af hrísgrjónum má nefna Indland, Indónesíu, Víetnam, Taíland, Brasilíu og Japan. Langstærstur hluti hrísgrjónaframleiðslu þessara ríkja er ræktaður af smábændum og fer til manneldis innanlands. Þar sem mest er neytt af hrísgrjónum er hún um 500 grömm á dag en meðalneysla Evrópubúa er um þrjú kíló á ári.

Taíland er stærsti útflytjandi hrísgrjóna í heiminum og flytur út um átta milljón tonn á ári, Víetnam er í öðru sæti með tæp fjögur þúsund tonn og Bandaríkin í því þriðja og flytur út tæp þrjú milljón tonn á ári.

Japanir framleiddu svo mikið af hrísgrjónum á tímabili að það hlóðst upp hjá þeim hrísgrjónafjall ekki ósvipað kjötfjalli Íslendinga á níunda áratugnum.

Land sem notað er í heiminum undir hrísgrjónarækt er áætlað um 160 milljón hektarar, sem gerir Ísland að hálfgerðu hrísgrjóni í samanburði, en flatarmál Íslands er um 10.400 hektarar.
Landbrot, rotnun jurtaleifa og losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið vegna hrísgrjónaræktunar er svo mikil að hún er talin ein af ástæðum hlýnunar jarðar.

Tímafrek ræktun

Hrísgrjónarækt er víðast hvar tímafrek og krefst mikils mannskapar. Þar sem hrísgrjón eru ræktuð í vatni er plöntunum plantað og þær uppskornar með höndum. Plægja þarf akrana, halda við áveitum, forrækta plöntur af fræi til útplöntunar, sem tekur 25 til 50 daga, og sinna þeim yfir vaxtartímann. Vinnan við ræktunina er því yfirleitt á félagslegum grunni þar sem allir íbúar samfélagsins vinna saman og deila uppskerunni. Algengur vaxtartími er 90 til 180 dagar og því hægt að fá tvær uppskerur á ári þar sem veðurfar er hagstætt.

Þrátt fyrir að hrísgrjónarækt sé langmest í Asíu er einnig talsvert um hana í nokkrum löndum Afríku, Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku.

Brún hollari en hvít

Grjón mismunandi afbrigða eru misstór og mismunandi á litinn. Algengast er að skipta hrísgrjónum eftir stærð; löng, miðlungs og stutt. Löng hrísgrjón halda lögun sinni betur en önnur við suðu en miðlungs klessast meira. Miðlungsstór hrísgrjón henta vel í risotto en stutt í hrísgrjónagraut.

Munurinn á brúnum eða rauðum og hvítum hrísgrjónum fest í því að þau síðarnefndu eru meira unnin og ekki er búið að taka hismið af þeim brúnu. Rannsóknir benda til að brún hrísgrjón séu hollari en hvít og innihaldi meira af vítamínum, trefjum og steinefnum en hvít.

Einn af kostunum við hrísgrjón sem matar er að þau geymast vel sé þeim haldið þurrum. Hrísgrjón sem mulin eru í hveiti gera brauð stökkt við bakstur.

Keisarinn sem borðaði svínafóður

Gömul kínversk saga segir frá keisara sem ekki vildi borða annað en hvít hrísgrjón og lét hann gefa svínunum hismið. Eftir nokkra mánuði var keisarinn aðframkominn af næringarleysi en svínin stálhraust og pattaraleg. Kokkur keisarans ráðlagið honum að borða hýðishrísgrjón til að ná heilsu. Eftir það var hann þekktur sem keisarinn sem borðaði svínafóður.

Krankleiki keisarans gæti hæglega hafa stafað af næringarefnaskorti, aðallega skorti á B1 vítamíni, og kallast beriberi og lýsir sér í máttleysi. Talsvert fór að bera á þessum sjúkdómi eftir að Asíubúar drógu saman neyslu á brúnum hrísgrjónum seint á nítjándu öld.
Í Asíu eru hrísgrjón tákn um frjósemi og velgengni og endurspeglast sú trú á Vesturlöndum í þeim sið að henda hrísgrjónum yfir brúðhjón.

Meira en matur

Auk þess að vera dagleg fæða hundruð milljóna manna um allan heim eru hrísgrjón og hálmur af honum meðal annars notuð til að vefa kaðla, í fatnað og pappír, snyrtivörur, tannkrem og til vín- og bjórgerðar. Dæmi um vín og bjór sem búið er til úr hrísgrjónum eru sake og bandarískur Budweiser.

Villihrísgrjón

Hrísgrjón eins og við þekkjum þau hafa verið í ræktun í mörg þúsund ár og því má ekki rugla þeim saman við það sem eru kölluð villihrísgrjón og er planta sem er skyldari höfrum en hrísgrjónum. Hafrarnir sem kallaðir eru villihrísgrjón eru af grastegund sem er upprunnar í Norður-Ameríku og kallast Zizania aquatica. Líkt og O. sativa líður þeirri plöntu best í grunnu vatni.

Indíánar í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna þekktu plöntuna vel og nýttu hana sér til matar. Í dag er hún ræktuð í suðurríkjum Bandaríkjanna á svipaðan hátt og hrísgrjón og hafrarnir seldir sem villihrísgrjón og heilsuvara. 

Skylt efni: hrísgrjón | ræktun

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...