Nýr og mikið breyttur VW Tiguan
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Laugardaginn 13. ágúst síðastliðinn frumsýndi Hekla nýjan VW Tiguan.
Nokkrum dögum áður gafst mér kostur á að prófa þennan nýja tæknivædda bíl sem er mikið breyttur frá fyrri árgerðum.
Eflaust hafa þeir sem lesa þessa pistla mína rekið augun í að ég er lítið hrifinn af því að stækka felgur undir nýjum bílum, ég vil hafa felgurnar eins litlar og hægt er. Tiguan er hægt að fá á 17 tommu felgum, en bíllinn sem ég prófaði var á 19 tommu felgum sem gefur skemmtilegt grip á góðu malbiki, en virkar eins og að bíllinn sé grjótharður á malarvegum og við hverja grjótnibbu eru hliðar dekkjanna í hættu.
Fjórhjóladrifinn fólksbíll eða jepplingur?
Að undanförnu þá hef ég flokkað jeppa, jepplinga og fólksbíla samkvæmt „prófíl“ dekkja (fjöðrunarhæð hjólbarða). Vegakerfi Íslands er engan veginn tilbúið fyrir þá dekkjaþróun sem flestir bílaframleiðendur eru komnir í, þá er það bara kostnaðarauki fyrir bifreiðaeigendur sem höggva hliðarnar úr þessum lágu dekkjum (samanber undanfarin tvö vor í holum Reykjavíkur og slakt viðhald malarvega á landsbyggðinni þar sem stórgrýti stendur víða upp úr vegum til þess eins að skemma bíla og dekk). Af dekkjastærðinni einni er Tiguan fjórhjóladrifinn sportbíll sem hefur útlit jepplings.
Skemmtilegur kraftur í vélinni og miklar tækninýjungar
Í boði eru átta mismunandi Tiguan á verðbilinu frá 5.890.000 upp í lúxusútgáfu sem kostar 7.990.000, en bíllinn sem ég prófaði var næstdýrasti:
Sjálfskiptur Tiguan Highline með 2,0 TDI dísilvél sem skilar 150 hestöflum og kostar 7.490.000. Snerpan í vélinni skilar bílnum fljótt upp í umferðarhraða (hættulega snöggur, það þarf að passa sig sé manni annt um ökuskírteinið).
Að keyra bílinn á bundnu slitlagi er hreinn unaður, nánast ekkert veghljóð og mjög lítið hljóð inni í bílnum þegar ekið var eftir malarvegi. Bíllinn sem ég prófaði var útbúinn akreinarlesara og á að vera hægt að sleppa stýrinu um stund og bíllinn beygir sjálfur þar sem hann á að lesa hvítar veglínurnar beggja vegna við bílinn, en það vantar mikið upp á að veglínur séu með öllum vegum og þær sem eru til staðar eru oft ólæsilegar fyrir bílinn, þá bremsar bíllinn lítillega til að láta vita að vegmerkingarnar eru illlæsilegar.
Mikið af þæginda tæknibúnaði
Hraðastillirinn (cruse control) er útbúinn fjarlægðarskynjara í næsta bíl og sem dæmi hafði ég hraðastillinn stilltan á 90 km hraða og keyrði uppi bíl sem var á 70. Hraðastillirinn hægði sjálfkrafa á bílnum og svo vel vildi til að bíllinn á undan var að fara að beygja 90 gráðu beygju á sama stað og ég.
Hraðastillirinn hélt jöfnu bili á milli bílanna í gegnum beygjuna án þess að ég þyrfti að snerta bremsur. Góður búnaður sem virðist hægt að treysta fullkomlega. Átta tommu snertiskjárinn gefur góða mynd aftur fyrir bílinn og þegar stillt er á leiðsögukerfið sýnir skjárinn alltaf hver hámarkshraðinn er á hverjum stað. Sá reyndar vitleysu í tvígang þar sem bæði var uppgefið að hámarkshraðinn væri hærri og lægri en það sem hann er á hvorum stað. Upphitað stýri er eitthvað sem mætti vera í fleiri bílum, þetta er svo notalegt á köldum vetrarmorgnum.
17 tommu felgur betri á vondum vegum, en stærri felgurnar
Hliðarspeglarnir mættu vera stærri, en baksýnisspegillinn inni í bílnum er mjög vel staðsettur og góður. Alls ók ég bílnum rúma 250 km. og samkvæmt aksturstölvunni var ég að eyða 5,6 lítrum á hundraðið (uppgefin eyðsla í blönduðum akstri er 5,7 lítrar).
Á heildina litið er Volkswagen Tiguan góður valkostur sem fjórhjóladrifinn fólksbíll, en ef á að nota bílinn mikið á möl er ekki sniðugt að vera á 18, 19 og 20 tommu felgunum sem í boði eru undir bílinn þar sem fjöðrunin er svo góð að maður finnur ekkert fyrir steinum og holum fyrr en maður er búinn að höggva í sundur hlið á dekki og jafnvel beygja felgu.
Ég er aldrei sáttur við ljósabúnað í bílum þar sem hægt er að fara af stað bara með kveikt ljós að framan og engin að aftan. Lögin segja að það eiga að vera ljós allan hringinn alltaf í akstri og það hlýtur að vera hægt að panta bílana löglega fyrir íslenska umferð til landsins.
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 1.673 kg
Hæð 1.673 mm
Breidd 1.839 mm
Lengd 4.486 mm