Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bændur og þjóðaröryggi
Mynd / smh
Skoðun 4. janúar 2022

Bændur og þjóðaröryggi

Höfundur: Vigdís Häsler framkvæmdastjóri BÍ

Í skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem kom út fyrr á þessu ári, er fjallað með ítarlegum hætti um innlenda matvælaframleiðslu, innflutning matvæla og aðfanga og mikilvægi þess að stjórnvöld móti stefnu um fæðuöryggi landsmanna. Í skýrslunni er fjallað um veikleika íslenskrar matvælaframleiðslu og lagt mat á áhrifin ef upp kæmi skortur á aðföngum sem eru nauðsynleg fyrir framleiðsluna. 

Innlend matvælaframleiðsla stendur fyrir stórum hluta fæðuframboðs á Íslandi og þá sérstaklega próteini. Garðyrkjan sér fyrir um 43% af framboði grænmetis, búfjárrækt um 90% af kjöti, 96% af eggjum og 99% af mjólkurvörum en aðeins um 1% í korni til manneldis. Framleiðslan er þó mjög háð innfluttum aðföngum, sérstaklega eldsneyti og áburði, en einnig fóðri og sáðvöru. 

Hækkanir á áburði án hliðstæðu

Í umsögn sinni um frumvarp til fjárlaga 2022, 1. mál benda Bændasamtökin á þá grafalvarlegu stöðu sem nú er á áburðarmarkaði. Síðustu mánuðir hafa einkennst af hækkunum á áburðarverði sem eiga sér vart sögulega hliðstæðu og fátt bendir til annars en að fóður ásamt öðrum aðföngum muni hækka umtalsvert á næstunni líkt og kemur fram í skýrslu WASDE (The World Agricultural Supply and Demand Estimates) um þróun á hráefnisverði á heimsmarkaði. Það er álit samtakanna að heimildir séu til staðar fyrir stjórnvöld að grípa inn í ef talið er að fæðuöryggi sé ógnað vegna verðhækkana á þessum aðföngum. Norðmenn hafa gripið til ráðstafana gagnvart landbúnaðinum þar í landi um aðgerðir sem nú virðast hafa verið of bjartsýn. Samtökin fylgjast vel með stöðunni í löndunum í kringum okkur og hafa átt samtal við ráðuneyti landbúnaðarmála og ráðherra nú í tvígang vegna þessarar óvissu. 

Aðrir þættir sem áhrif hafa á fæðuöryggi

Náttúruhamfarir, lofts-lags-breyt-ingar, farsóttir, einangrun landsins og fleiri hættur geta ógnað fæðuöryggi. Í áhættumatsskýrslu sem utanríkisráðuneytið lét vinna kemur fram að staða Íslendinga sé veikari en nágrannaþjóða þegar kemur að fæðuöryggi, þrátt fyrir að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þar sé tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. En það er vissulega jákvætt skref í rétta átt að stjórnvöld tali fyrir fæðuöryggi þjóðar og stefna að því að efla tækifæri innlendrar matvælaframleiðslu til fulls, en þá þarf jafnframt að huga að framkvæmdinni.

Á þingmálaskrá innanríkisráðherra fyrir 152. löggjafarþing, má finna frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008. Um er að ræða frumvarp þar sem m.a. verða lagðar til breytingar á rýni í kjölfar almannavarnaástands vegna óveðursins í desember 2019, skýra hugtök og valdheimildir. Samtökin brýna fyrir ráðherra að áður en frumvarpið verður lagt fram á þingi, verði jafnframt hugað að öðrum viðeigandi ráðstöfunum,  t.a.m. birgðahaldi á aðföngum sem nauðsynlegt er að  tryggja fyrir meirihluta innlendrar framleiðslu í einhvern tíma, háð framleiðslugreinum. Einnig er nauðsynlegt að efla framleiðslu á korni, bæði sem fóður fyrir búfé og til manneldis, útiræktun grænmetis og innlenda áburðarframleiðslu með bættri nýtingu hráefna. Þá ber við töku ákvarðana um landnotkun að hafa fæðuöryggi þjóðarinnar að leiðarljósi til að tryggja að það land sem hentugast er undir ræktun tapist ekki undir aðra starfsemi. Því þarf að liggja fyrir skýr stefna um landnotkun og flokkun landbúnaðarlands af hálfu stjórnvalda og frá sveitarfélögum.

Hlutverk stjórnvalda

Fæðuöryggi og heilbrigðisöryggi eru á allra vörum. Hlutverk stjórnvalda er að setja fram viðbragðsáætlanir sem tryggja fæðu- og matvælaöryggi, sjálfbærni í matvælaframleiðslu og birgðageymslu matvæla. Stjórnvöld þurfa því að huga að matvæla-, fæðu-, neysluvatns og fráveitukerfi sem þjóðhagslega mikilvægum innviðum til jafns á við fjarskipta-, samgöngu- og orkukerfi landsins. 

Árið 2020 lokuðu margar þjóðir landamærum sínum fyrir fólksflutningum. Veruleg hætta var á samdrætti matvælaframleiðslunnar vegna minni umsvifa í flestum samfélögum og takmörkunum á flutningi vinnuafls milli landa. Röskunin sem þetta leiddi af sér hefur hækkað verð á ýmsum matvælum síðasta árið, m.a. vegna þess að u.þ.b. þrjátíu ríki settu útflutningstakmarkanir á matvæli, þar á meðal stór útflutningslönd á korni. 

Það kemur svo sem ekki á óvart að bændur og þeir sem starfa í frumframleiðslu matvæla og hráefna voru ekki í forgangi til bólusetningar, þrátt fyrir að fæðuöryggi landsmanna teljist hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins. En að starfa í framlínu þýðir víst ekki það sama og að starfa í framlínu. Heilbrigðisstarfsmenn og viðbragðsaðilar starfa í framlínu, um það verður ekki deilt. Aftur á móti er afar brýnt að þeir aðilar sem jafnframt bera ábyrgð á ómissandi innviðum á grundvelli þjóðaröryggisstefnu, t.a.m. fæðuöryggi þjóðarinnar, séu skilgreindir sem hluti af forgangshópi. Í landbúnaðartengdum greinum væru þetta bændur og frumframleiðendur matvæla, aðilar sem starfa við eftirlit í matvælaframleiðslu, ráðunautar sem leiðbeina bændum og dýralæknar. 

Tvisvar sinnum á rúmlega tíu árum hafa samtökin þurft að svara ráðherrum hvort nægur matur sé til í landinu. Það er því mikil ábyrgð sem stjórnvöld fela þeim sem starfa í íslenskum landbúnaði og hafa með höndum framleiðslu matvæla komi til þess að innflutningur á aðföngum til landsins stöðvast. Því er mikilvægt að endalausn stjórnvalda sé skýr og til staðar sé aðgerðaráætlun um hvernig fæðuöryggi þjóðarinnar verður treyst. 

Vigdís Häsler,
framkvæmdastjóri BÍ.

 

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...