Umhverfismat sem byggt er á falsfréttum
Var að lesa svokallað Umhverfismat Umhverfisstofnunar um láglendis veg þjóðvegar 1 með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Plagg upp á 258 bls. og virðist það unnið af mörgum aðilum, eins og VSÓ ráðgjöf, Mannviti o.fl. fyrir svo aðra aðila eins og Vegagerðina.
Ég sé þó ekki að viðkomandi aðilar kvitti undir að þeir séu samþykkir þessum álitum, sem öll enda á sömu loka orðunum „Að þessu athuguðu mælum við með leið 4.“ Leið sem sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur fyrir löngu síðan sagt að komi ekki til greina þar sem þessi valkostur liggi um endilangt fyrirhugað íbúðabyggingaland Víkur kauptúns. Að flestra dómi er þessi valkostur, leið 4, vitlausasti, dýrasti, óhagvæmasti og furðulegasti valkosturinn sem fundinn hefur verið upp. Þessi ákvörðun er að mínum dómi byggð á því sem nú kallast, kurteislega, falsfréttir en á gamalli íslensku, lygar. Þar sem því er haldið fram að valkostir 1 til 3 fari um viðkvæmar sjávarleirur og viðkvæmt lífríki eins og fuglabyggð og brekkubobba.
Við skulum skoða þetta aðeins nánar:
1. Hvað eru sjávarleirur?
Samkvæmt íslenskri skilgreiningu geta sjávarleirur myndast á svæði milli stórstraumsfjöru og stórstraumsflóðs á lágu flötu landi, sem ýmist flæðir yfir á flóði en þornar á fjöru og myndar þá svokallaðar leirur. Valkostir 1 til 3 eru fleiri hundruðum metra frá mörkum flóðs og fjöru og enginn fræðilegur möguleiki að halda því fram að fyrirhuguð vegstæði fari yfir viðkvæmar sjávarleirur. Þetta er því falsfrétt og fullyrðing í umhverfismati um að valkostir 1 til 3 hafi neikvæð áhrif á sjávarleirur út í hött og ákvörðun um að hætta við valkostina á þeim forsendum byggð á lygum.
2. Hvað er ós?
Samkvæmt íslenskri skilgreiningu er ós sama og útfall ár í sjó fram. Sum þessara árútfalla eru það vatnsmikil og kröftug að þau lokast ekki en geta þó myndað árósa eins og til dæmis Þjórsárós, Skaftárós o.fl. Sumir árósar eru myndaðir af fleiri litlum ám, sem sameinast í eitt útfall og dæmi um það eru t.d. Holtsós og eða Dyrhólaós, sem við köllum bara Ósinn. Þessir ósar geta lokast þegar sandburður eða öldurótsburður verður sterkari útfalli óssins.
3. Geta verið sjávarleirur umhverfis vatnsborð ósa?
Svarið er nei. Ekki samkvæmt skilgreiningu um sjávarleirur. Hef reyndar hvergi heyrt minnst á sjávarleirur í eða við ósbakka nema hér við Dyrhólaós Það er staðreynd að útfall Óssins er bæði þröngt og grunnt og torveldar því sjávarflæði inn og út úr Ósnum. Við mælingu okkar heimamanna reyndist 4 millimetra mismunur á milli stórstraumsflóðs og fjöru og var þá Ósinn með eðlilegt útfall. Hvað veldur þá þessari hækkun og lækkun á Ósnum? Svarið er ósköp einfalt og náttúrulegt. Útfallið er vatnslítið og megnar ekki í brimveðrum að vinna á móti sandburði sjávar og útfallið lokast. Stundum hleðst þar upp hár sjávarkambur þannig að það tekur þessar litlu ár langan tíma að hækka það í Ósnum að hann nái að ræsast fram og er þá talað um að Ósinn standi uppi, eða sé lokaður, en opinn þegar útfallið er opið. Þar sem landið er láglent nær Ósinn að flæða sums staðar þó nokkuð inn á landið, en annars staðar hækkar vatnsborðið við ósbakkana á annan metra, þegar verður hvað mest í Ósnum. Það getur tekið Ósinn mánuð eða meira að vaxa það mikið að hægt sé að ræsa hann út. Fyrir allmörgum árum fékk ég góðan og grandvaran bónda, sem býr nærri Ósnum, til þess að skrá í heilt ár hvenær Ósinn opnaðist og lokaðist. Niðurstaðan, yfir þetta heila ár, var að Ósinn var lokaður í 212 daga af 365 dögum. Er hægt að tala um viðkvæmar sjávarleirur við slík skilyrði inn í ósi? Svarið er nei. Það er fölsun. Í falsumsögnunum eru svo birtar myndir af veglínu þegar Ósinn hefur verið lokaður lengi og er hvað mestur og látið líta svo út að svona sé vegurinn á flóði. Það eru því einfaldlega lygar og falsfréttir, sem lagðar eru til grundvallar, að hætt er við besta vegakostinn.
4. Hvað er lífríki?
Þetta orð virðist vera það nýtt í íslenskri tungu að ég finn enga skýringu á því í minni orðabók. Ég er ekki líffræðingur en samkvæmt mínum skilningi er allt sem lifir og deyr , vex eða grær, og ég þar með, hluti af þessu lífríki. Samkvæmt mínum skilningi er ekki til sá blettur á jörðinni að ekki sé í honum eitthvert lífríki, nema þá í glóandi hraunelfu. Eru einhverjar líkur á því að þessi láglendisvegur um Mýrdal geti raskað lífríki Mýrdalsins eða landsins? Svar mitt er nei. Hvað sem líffræðingar skrifa upp á, þá er þessi lífríkisógn helbert kjaftæði. Þó að þrjú kjóa óðul hafi fundist á eða nærri fyrirhuguðu vegstæði og einhverjir aðrir fuglar hafi sést þar á flugi þá er ég ekki í vafa um að þeir geta valið sér annað varpsvæði. Vegurinn gæti jafnvel bjargað fuglum frá því að gera sér hreiðurstæði á óssvæði, sem getur flætt upp á þegar Ósinn lokast fyrirvaralaust um varptímann.
5. Þá er eftir brekkubobbabullið.
Lífríkisspírum mistókst fyrir mörgum árum að friðlýsa svæðið austan undir Reynisfjalli þar sem brekkubobbar hafa búsvæði. Brekkubobbar éta eitthvað sér minna. Mýsnar éta brekkubobbana og kettirnir síðan mýsnar og allt þrífst vel. Sem sagt dæmigert lífríkisland. Gangaopið mun koma út úr Reynisfjalli að austan í suðurjaðri þessa búsvæðis og raska búsvæði bobbanna um nokkur hundruð fermetra. En aðalbúsvæði bobbanna er um 60.000 fermetrar, og munu þessir valkostir 1 til 3 á engan hátt skerða lífsmöguleika blessaðra bobbanna. Þetta er því enn ein lygin.
6. Hvað eru lífríkisspírur?
Svar: Lífríkisspíra er bara mitt orð yfir fólk almennt, sem hugsar mikið um lífríkið og vill láta það njóta vafans ef um hann er að ræða og nær yfir mörg svið. Ég hugsa það ekki sem uppnefni heldur grófa flokkun, svipað og t.d. menntaspíra, eða montspíra.
7. Niðurstaða mín er því:
Valkostir eða veglínur nr. 1 til 3 eru hagkvæmustu, öruggustu og stystu leiðirnar og koma til með að spara yfir 5 milljónir ekinna kílómetra árlega miðað við umferðartölur Vegagerðarinnar á síðasta ári og yfir milljarð í kostnaði yfir árið. Í umsögnum er lítið gert úr þessum sparnaði. Þó að allar þessar rándýru falsfréttaumsagnir endi á (umbeðnum) neikvæðum niðurstöðum, um valkosti 1 til 3, þá endar mín ókeypis (óumbeðin) umsögn á jákvæðri niðurstöðu. Hagkvæmasta, auðveldasta, hættuminnsta og stysta leiðin er láglendisleiðin, sem hjá Vegagerðinni í sinni könnun skorar mest, en af einhverjum furðulegum ástæðum sem hún mælir ekki með lengur. Hvað sem hver segir og hvað sem verður gert í bráðræði, þá mun endirinn að lokum verða sá, þó að seinna verði, að það verða tvær leiðir, gamla leiðin fyrir fjallið, sem hjáleið eða innansveitarleið, fyrir þá sem það vilja, og nýja láglendisleiðin í gegnum fjallið. Og þá hafið þið það.
8. Að lokum spurning:
Ef Umhverfisstofnun , Skipulags stofnun, Matvælastofnun og önnur lífríkisspíruráð og félög, geta kært bæði fyrirhugaðar framkvæmdir og hönnun, sem þeim er ekki að skapi, má þá ekki á móti kæra þessa sömu aðila ef þeir byggja málflutning sinn og álit á falsfréttum og lygum, og skapa með því milljarða fjárútlát fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur?