Áburðarverð aldrei hækkað meira
Tveir áburðarsalar tilbúins áburðar hafa birt verðskrár sínar. Sláturfélag Suðurlands (SS ) reið á vaðið fyrir jól og nú fljótlega eftir áramót birti Lífland sína verðskrá. Þær vörutegundir sem hækka mest í verði hækka um 100 til 120 prósent frá því í fyrra.
Eitthvað fækkar vörutegundum hjá Líflandi, en engar breytingar eru í vöruúrvali SS.
Talsverð óvissa hefur verið varðandi framboð og verð á tilbúnum áburði í Evrópu á þessu ári. Með miklum kostnaðarhækkunum hefur dregið mjög úr framleiðslu og hafa íslenskir áburðarsalar því ekki haft tök á því að birta verðskrár sínar fyrr.
Verðhækkun á tilbúnum áburði er af þeim sökum í sögulegu hámarki.
Hjá SS er hækkunin mest á köfnunarefnisáburðinum Opti Kas, sem hækkar um 98 prósent.
Hjá Líflandi er uppsett listaverð um 105–120% hærra en í fyrra. Þar sem takmarkað framboð er á ákveðnum tegundum er hvatt til þess að bændur panti áburð sem allra fyrst.