Bændur norðan heiða þurfa góðan heyfeng
Fyrri slætti er víðast hvar lokið í Eyjafirði og var þokkalegur, að sögn Sigurgeirs Hreinssonar, framkvæmdastjóra Búnaðarfélags Eyjafjarðar.
Langvarandi þurrkar gera að verkum að háin fer seint af stað og óvíst hvenær unnt verður að hefja seinni sláttinn. Sigurgeir segir að bændur séu í þeirri stöðu að þurfa góðan heyfeng í sumar. Veðurspá gerir ekki ráð fyrir mikilli úrkomu þannig að brugðið geti til beggja vona um hvort svo verði. „Það er tvísýnt en ekki öll nótt úti enn, sprettutíð er alveg út ágústmánuð og fram í september svo enn er von,“ segir Sigurgeir.