Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ari Heiðmann Jósavinsson, bóndi í Miðhvammi.
Ari Heiðmann Jósavinsson, bóndi í Miðhvammi.
Mynd / Aðsend
Fréttir 15. febrúar 2023

Bændur standa saman að aðfangakaupum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrir um ári síðan stóðu um 80 bú í Suður-Þingeyjarsýslu saman að því að óska eftir tilboðum áburðarsala um verð fyrir um 1.400 tonn áburðar sem talið var að þau þyrftu um vorið.

Það skilaði hópi bænda betri kjörum vegna áburðarkaupa en þeir áttu kost á samkvæmt útgefnum verðskrám. Um vorið náðu þeir fram hagstæðum olíukaupum með sams konar aðferð. Nú bíða þeir þess að allar verðskrár verði birtar og taka í kjölfarið ákvörðun um hvort óskað verði aftur eftir tilboðum.

„Við erum núna bara að bíða eftir að allt verð frá áburðarsölunum komi fram áður en við ákveðum hvort við förum sömu leið og á síðasta ári. Við erum með starfshóp hérna meðal bænda og starfsmanna Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga sem mun meta stöðuna – hvort ástæða er til að biðja um tilboð fyrir okkar bændur,“ segir Ari Heiðmann Jósavinsson, bóndi í Miðhvammi, og telur að um 120 bú séu á félagssvæði búnaðarsambandsins.

Áburðurinn greiddur að hausti

„Í fyrra kusu þrír áburðarsalar að senda ekki inn tilboð en við fengum tilboð frá tveimur, Skeljungi og Búvís, og tókum því sem við fengum frá Skeljungi. Það var talsvert hagstæðara en á útgefnum verðlistum og við vorum mjög ánægð með að hafa náð þessu fram, kannski aðallega með samstöðu bænda. Stór kostur við það tilboð var líka að ekki þurfti að greiða fyrir áburðinn fyrr en um haustið, sem kom sér sérstaklega vel fyrir minni búin sem eru ekki alltaf í aðstöðu til að sækja sér slíka möguleika,“ segir Ari. Hann áætlar að um tíu bændur hafi skipt um áburðarsala vegna þessa tilboðsferils og um 40 bændur hafi tekið tilboði Skeljungs

„Ég á von á því að búnaðarsambandið farið þá leið að óska aftur eftir sérstökum tilboðspakka fyrir okkur, enda hefur áburður hækkað mjög á undanförnum árum – þó ekki sé útlit fyrir sambærilegar hækkanir nú. Þetta er á margan hátt hagkvæmt fyrirkomulag – líka fyrir áburðarsalana.

Þeir þurfa að taka miklu færri símtöl við bændur og eiga möguleika á því að sækja viðskipti inn í stóran markhóp með einföldum hætti.“

Enn betri kjör á olíukaupum

Ari segir að bændahópurinn hafi einnig farið í olíuútboð síðasta vor, sem hafi gengið enn betur en með áburðinn – og allnokkrir bændur fengu mun betri kjör frá Skeljungi í gegnum það sameiginlega ferli. „Stóri árangurinn úr því var að á dreifbýlli svæðum þá fengum við olíunni dreift einu sinni í viku í stað hálfsmánaðarlega.

Þannig fengum við í raun betri þjónustu líka og hagstæðara verð. Svo fengu þeir bændur sem búa næst Húsavík kostakjör, því þeir gátu fengið ódýrustu vélaolíuna bara á sína dælu.“ Hann segist hafa lært mjög margt í þessu ferli, til dæmis að bændur eru mjög vanafastir þegar kemur að viðskiptasamböndum og skipta ógjarnan um söluaðila aðfanga nema eitthvað sérstakt komi til.

„Margir bændur hafa til dæmis fengið olíutanka frá fyrirtækinu sem þeir skipta við og óttast að missa þá þegar þeir fara í viðskipti við annan söluaðila. En það er ekkert vandamál í sjálfu sér að fá nýjan tank – en bara svona atriði getur þvælst fyrir bændum svo ég taki dæmi. Það var reyndar áhugavert að sjá að fleiri bændur færðu sín viðskipti, frá einum söluaðila til annars, í olíukaupum heldur en með áburðinn.“

Að sögn Ara eru bændur á um 80 búum sem hafa verið móttækilegir fyrir þessum samræðum. Honum finnst sem þeirra frumkvæði í Suður- Þingeyjarsýslu í þessum málum sé dálítið til marks um breyttan tilgang búnaðarsambandanna í landinu.

„Þau eru kannski núna að finna sér nýjan stað í félagskerfinu – sem getur falist í því að standa í fararbroddi fyrir hagsmunamál eins og okkar hérna. Stjórnin hér hefur verið mjög dugleg í þessari vinnu.

Það verður að segjast eins og er að það höfðu ekki margir trú á því að við næðum einhverjum árangri en nú hefur það sýnt sig að það er hægt að ná fram hagsmunum í krafti stærðar hópsins og ég held að önnur búnaðarsambönd geti fylgt fordæmi okkar. Hver og einn bóndi er svo smár í stóra samhenginu,“ segir Ari.

Skylt efni: áburður | áburðarverð

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...