Bætt aflameðferð á smábátum
Hér áður fyrr þótti það merki um mikla aflakló og góð aflabrögð að koma að landi með svo mikinn afla að menn komust ekki sjálfir um dekkið nema að vaða fisk upp að mitti. Í dag þykir slíkt ekki vitnisburður um góða meðferð á matvælum.
Sem betur fer hefur þetta breyst töluvert undanfarin ár enda sjómenn meðvitaðri um mikilvægi góðrar meðhöndlunar á okkar dýrmæta sjávarfangi, segir í frétt á vefsíðu Matís. Landssamband smábátaeigenda (LS) og Matís hafa undanfarin ár staðið fyrir átaki þar sem smábátasjómenn eru hvattir til dáða til að fara vel með allan afla. Sérstakt verkefni, Fallegur fiskur, var sniðið utan um þetta átak en á Facebook-síðu verkefnisins deila menn myndum sín á milli sem sýna mismunandi meðferð á afla. Óhætt er að segja að Fallegi fiskurinn hafi vakið athygli.
1.000 sjómenn fengu hitamæli
Nú síðast fengu allir smábátasjómenn hitamæli að gjöf ásamt bæklingi frá LS og Matís. Góður pakki rataði því til um 1.000 smábátasjómanna, allt í kringum landið. Með gjöfinni er því beint til smábátaeigenda, að þeir óski eftir því að fiskmarkaðir sem landað er hjá, skrái hitastig aflans við uppboð.
Tilgangur verkefnisins – mikilvægi góðrar meðhöndlunar
Smábátaeigendur hafa af fjölmörgum ástæðum einstök tækifæri til að afla sér sérstöðu á mörkuðum með afurðir sínar. Með því að vekja athygli á bættri meðferð afla, er sérstaklega verið að vinna með þann möguleika að auka gæði með kælingu, ekki síst vegna hins stutta tíma frá veiðum til vinnslu, sem er eitt af einkennum smábátaútgerðarinnar.
Í sívaxandi samkeppni á mörkuðum og aukinni neytendavitund eru tækifæri smábátaútgerðarinnar augljós. Ferskleiki hráefnisins, umhverfisáhrif veiðanna og sú ímynd sem smábátaveiðar hafa hjá neytendum bera þar hæst, en til að nýta þessi samkeppnisforskot sem skyldi þarf að tryggja hámarks vörugæði, segir í frétt Matís.