Bílaframleiðendur kaupa þvottavélar í stórum stíl til að fá íhluti í nýja bíla
Bílaframleiðendur og framleiðendur margvíslegra iðnaðartækja hafa verið að kaupa nýjar og notaðar þvottavélar í stórum stíl að undanförnu. Ástæðan er skortur á tölvustýringum og hálfleiðurum sem notaðir eru í bíla.
Verulega fór að bera á þessum skorti í Covid-19 faraldrinum á árunum 2020–2021. Þá lamaðist starfsemi fjölmargra íhlutaframleiðenda vegna veikinda starfsfólks. Erfiðlega gekk því að ljúka smíði bíla og fleiri tækja sem eru orðin mjög tölvuvædd. Staðan versnaði svo enn frekar þegar Rússar hófu innrás í Úkraínu, en þar voru m.a. framleiddir margvíslegir íhlutir fyrir iðnaðinn. Þá hefur viðskiptabann á Rússa ekki bætt úr skák en þeir eru næstöflugustu framleiðendur á platínu sem notuð er í hálfleiðara í raftækjum. Þetta hefur leitt til þess að stórframleiðendur á tölvukubbum, m.a. í Bandaríkjunum og víðar, hafa átt í miklum erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar.
Þetta hefur haft mikil áhrif á bílaframleiðendur eins og Tesla, Toyota, Ford, Volkswagen, Audi og fleiri sem hafa þurft að draga úr bílaframleiðslu sinni. Sem dæmi hefur Toyota dregið úr sinni framleiðslu sem nemur 100.000 bílum á ári.
Hefur sala fólksbíla dregist saman af þessum sökum víða um heim og var um 40% minni í Evrópu í mars síðastliðinn en var áður en heimsfaraldurinn hófst. Þrátt fyrir mikla eftirspurn og fyrirliggjandi pantanir á ökutækjum er búist við að framleiðsla bíla í Evrópu dragist saman um 20% til viðbótar vegna skorts á íhlutum, samkvæmt heimildum ACEA data. Sem dæmi um þróunina, þá herma óstaðfestar fréttir að bílaframleiðandinn Audi hafi keypt 4.000 þvottavélar fyrir skömmu til að ná sér í tölvustýringar sem nota má í bíla. Stýringarnar eru m.a. notaðar í eldsneytiskerfi hefðbundinna bensín- og dísilbíla og í orkustýringar í rafbílum. Stórir framleiðendur hálfleiðara, m.a. í Taívan og Kína hafa reynt að auka framleiðslu en t.d. ASML Holding NV í Kína er nú komið með pantanir fyrir allri sinni framleiðslugetu á árinu 2023.
Hálfleiðaraframleiðandinn Manufacturing Co. í Taívan, sem er stærsta fyrirtæki heims á þessu sviði, kynnti á dögunum að framleiðslan væri í járnum og yrði erfið út árið 2022. Í Kína glíma framleiðendur auk þess við skort á mannafli vegna mikillar tíðni Covid-smita.
Þessi skortur á örgjörvum kemur ekki bara niður á bílaframleiðendum, því tölvuframleiðendur eru ekki síður í vanda vegna þessa. Þannig tefur þetta mjög fyrir framleiðslu á fartölvum, farsímum, myndavélum og fleiru.
Spyrja má hvort notkun íhluta úr þvottavélum leiði til þess að bílar eins og Audi, Toyota eða Tesla fái undirnöfn eins og Turbo Washing Machine eða eitthvað álíka.