Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Viðskiptaþvinganir á Rússa hafa nú þegar leitt til mikilla verðhækkana á hrávöru og hafa um leið þvingað framleiðendur aðfanga til að leita nýrra lausna. Gríðarmiklar kornbirgðir hafa hlaðist upp í Rússlandi og Úkraínu sem ekki er hægt að koma á markaði. Aðfangasalar eru sammála um að greina megi aukinn áhuga bænda á kornrækt.
Viðskiptaþvinganir á Rússa hafa nú þegar leitt til mikilla verðhækkana á hrávöru og hafa um leið þvingað framleiðendur aðfanga til að leita nýrra lausna. Gríðarmiklar kornbirgðir hafa hlaðist upp í Rússlandi og Úkraínu sem ekki er hægt að koma á markaði. Aðfangasalar eru sammála um að greina megi aukinn áhuga bænda á kornrækt.
Mynd / smh
Fréttir 29. mars 2022

Enginn fyrirsjáanlegur aðfangaskortur en útlit fyrir umtalsverðar verðhækkanir á fóðri

Höfundur: smh

Framboð og verð á aðföngum bænda í Evrópu markast nú og um ófyrirsjáanlega framtíð að talsverðum hluta af stríði Rússa í Úkraínu, því drjúgur hluti af því hráefni sem hefur verið notað til framleiðslunnar fyrir heimsmarkað á uppruna sinn í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi.

Íslenskir söluaðilar aðfanga fyrir bændur eru sammála um að ekki sé fyrirsjáanlegur skortur á mikilvægum aðföngum en miklir óvissutímar séu fram undan varðandi verðlag – einkum á fóðri – og líkurnar á gríðarlegum verð­hækkunum muni aukast meðan stríðið heldur áfram.

Viðskiptaþvinganir á Rússa hafa nú þegar leitt til mikilla verðhækkana á hrávöru og hafa um leið þvingað framleiðendur aðfanga til að leita nýrra lausna. Gríðarmiklar kornbirgðir hafa hlaðist upp í Rússlandi og Úkraínu sem ekki er hægt að koma á markaði.

Í samtölum við aðfangasala kemur fram að nóg sé til af sáðvöru og rúlluplasti og svo virðist sem verðhækkanir á þessum aðföngum séu ekki orðnar verulegar.

Langtímasamningar SS

Elías Hartmann Hreinsson, deildar­stjóri búrekstrardeildar Sláturfélags Suðurlands (SS), segir að vegna langtímasamninga sem SS hafi gert sé góð staða á framboði aðfanga fyrir bændur næstu mánuði.

Elías Hartmann Hreinsson, deildar­stjóri búrekstrardeildar SS.

„Varðandi fóður, þá gerðum við í nóvember á síðasta ári samning við okkar framleiðanda í Danmörku til 11 mánaða og tryggjum okkur því fast verð á því tímabili. Fóðrið sem við kaupum er allt frá DLG í Danmörku og það er framleitt þar, en nokkrar hækkanir urðu við síðustu verðbreytingar vegna þróunar á heimsmarkaði.“

Elías segir að áburðurinn sé einnig tryggður, sem hefur verið pantaður hjá SS.

„Eitthvað af honum er kominn og annað er á leiðinni. Aftur á móti veit maður ekkert hvað verður svo síðar, því áburðarframleiðslan er auðvitað í gríðarlegri óvissu í ljósi stríðsástandsins. Ég veit að Yara, okkar samstarfsaðili, hefur verið að taka fosfór úr eigin námum í Finnlandi, köfnunarefnisáburðurinn er framleiddur í Þýskalandi, og köfnunarefni í tví- og þrígildan áburð er framleitt í verksmiðjum Yara í Noregi og Finnlandi. En svo eru stórir framleiðendur á áburði sem hafa fengið fosfór og köfnunarefni í Rússlandi og kalí frá Hvíta-Rússlandi. Yara tók áður kalí frá Hvíta-Rússlandi en vegna viðskiptabanns hefur fyrirtækið snúið sér að Kanada, en það er óhætt að segja að verð á fosfór og kalí hafi hækkað gríðarlega á síðustu vikum.

Einhverjir áburðarframleiðendur hafa verið að taka fosfór frá Marokkó, en það er annars eðlis – upprunnið úr sjó og ríkt af kadmíumi. Vandamálið er að í Evrópu fyrir utan Norðurlöndin eru ekki hámarksgildi fyrir kadmíum­innihald í áburði og þó að það hafi ekki mikil áhrif á jarðveginn til skamms tíma þá safnast þetta upp og getur mengast mjög,“ segir Elías.

Á vef Matvælastofnunar er bent á að kadmíum sé þungmálmur og með endurtekinni notkun á kadmíum-ríkum áburði skapast hætta á skaðlegum áhrifum vegna aukinnar upptöku plantna á efninu.

Verðhækkanir verða á sáðvöru

Elías segir að framboð á sáðvöru hafi ekki verið eins mikið og áður.

„Það má búast við gríðarlegum verðhækkunum á sáðvöru. Balkanlöndin hafa verið að framleiða sáðvöru fyrir þessi lönd eins og Rússlandi og Úkraínu, þar sem stór hluti ræktunar fyrir Evrópumarkað hefur farið fram. En núna veit maður ekki hvernig það mun þróast.“

Hann segir að engin spurning sé hins vegar um það að nú sé lag fyrir íslenska bændur að fara í eigin kornrækt – og fyrir kornbændur að auka við sig.
„Kornverð kemur til með að hækka mikið. Mér finnst eins og það sé hugur í bændum.

Við sjáum núna líka óhemjumikla aukningu í sölu á kalki og það virðist hafa náð í gegn að við það að laga sýrustig jarðvegsins nýtist áburðurinn miklu betur. Til að gefa dæmi um það hversu góða raun það getur gefið, er að það er eitt afurðamikið kúabú hér á Suðurlandi sem hefur náð sýrustiginu upp í 6,3 til 6,5 með því að kalka reglubundið á hverju ári í mörg ár. Þar er nú dreift áburði á við gott sauðfjárbú. Mér finnst að það mætti huga betur að ýmsum slíkum þáttum búrekstrarins, betri kostnaðargreiningum og nákvæmari útreikningum á fóðurgildi hverrar heyrúllu til dæmis.“

Bygg og maís hækkað um 30-40 prósent

Úlfur Blandon, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Fóður­blöndunni, segir stöðuna hjá fyrirtækinu ágæta í dag hvað varðar fóður og áburðinn hafi verið verið búið að tryggja áður en stríðið skall á.

Úlfur Blandon, framkvæmdastjóri hjá Fóðurblöndunni.

„Við getum í raun keypt það sem vantar af fóðri og enginn skortur er, en það er reyndar allt miklu dýrara. Bygg og maís hefur hækkað um 30 til 40 prósent á undanförnum dögum og ástæðan fyrir því er kannski aðallega sú að öll kornsíló í Rússlandi og Úkraínu eru full af bygg og maís. Óvissa í þessum málum hefur mikil áhrif á verð, Þeir koma þessu ekki úr landi og á markað – og því hækkar heimsmarkaðsverð.

Við höfum hvatt bændur til að fara út í kornrækt, sem hafa tök á því, og finnum fyrir áhuga. Bændur eru að tryggja sér sáðvöru. Það reyndar leit ekkert vel út fyrir tveimur vikum síðan varðandi framboð á sáðvöru en síðan hefur ræst úr því og við fengum það magn sem við vorum með í fyrra og meira til,“ segir Úlfur og bendir á að verðhækkun á sáðvöru sé í raun ekki enn komin inn þó hún sé einhver nú þegar.

Olían og mjólkin

„Áburðurinn okkar er kominn yfir til Finnlands og það er búið að sekkja hann nánast allan. Hann kemur svo í tveimur sendingum, í næstu viku og svo í lok mánaðarins. Hann er svona að mestu upprunninn frá Rússlandi – eins og stór hluti af öllum áburði á markaði hér í Evrópu. Sérstaklega fosfórinn og kalí,“ segir Úlfur sem hefur ekki áhyggjur af yfirvofandi vöruskorti á áburði – til dæmis á næsta ári.

„Við höfum aðallega áhyggjur af hækkandi áburðarverði sem búvöruverð nái ekki að halda í við. Einu sinni var það þannig að olíuverð og mjólkurverð hélst alltaf í hendur – og það var þannig í mörg ár. Mjólkurlítrinn í dag út úr búð kostar um 176 krónur á meðan olían á bensínstöð kostar í dag yfir 300 krónur lítrinn, það er því miður staðreyndin.

Það er að mörgu að huga í þessu en við sjáum það og vissum að bændur skera ekki niður fóður í kýrnar sínar, en spara frekar við sig í endurræktun túna og slíku – og huga vel að betri nýtingu áburðar.“

Áskoranir í verðlaginu

Jóhannes Baldvin Jónsson, deildar­stjóri vöruþróunar og ráðgjafar hjá Líflandi, tekur undir með Úlfi um að verðhækkanir á fóðri kunni að verða umtalsverðar á næstu misserum, sem skýrast af miklum hækkunum á hrávöru til fóðurgerðar.

Jóhannes Baldvin Jónsson, deildar­stjóri hjá Líflandi.

„Það er ekki fyrirsjáanlegur skortur en okkar áskoranir verða í verðlaginu því það er mikill titringur á mörkuðum. Fyrir ástandið sem skapaðist við innrás Rússa í Úkraínu höfðu þegar átt sér stað nokkrar hækkanir vegna ýmiss konar þróunar á heimsmarkaði, meðal annars vegna verðhækkana á áburði, hækkunar á skipafrakt og fleiri þáttum.“

Áburðinum dreift í apríl

Áburði Líflands verður dreift til viðskiptavina í apríl.

„Okkar áburður er núna tilbúinn á Bretlandseyjum og fer í skip eftir tæpar tvær vikur, en hráefni í hann kemur víða að og meðal annars frá Rússlandi. Hrávaran var öll trygg og komin til Skotlands þegar stríðið braust út.“

Í ljósi nýlegra tíðinda af viðskipta­banni á einn eigenda PhosAgro, eins helsta fosfórframleiðanda Rússlands, má búast við því áburðarkreppan verði enn harðari ef heldur fram sem horfir. Með viðskiptabanninu lokaðist fyrir allan útflutning á fosfór frá PhosAgro til Evrópu.

„Þetta getur dregið dilk á eftir sér og snert okkur beint því þessi fosfór frá Rússlandi inniheldur lítið af kadmíum og hentar því vel hér á Íslandi þar sem ströng skilyrði eru um hámarks kadmíuminnihald áburðar. Við höfum hvatt stjórnvöld til að rýna þetta mál og taka skref í því að koma í veg fyrir að hér verði hugsanlegur skortur á þessu mikilvæga innihaldsefni áburðar í náinni framtíð,“ segir Jóhannes.

Óvissa með skeljasand til kölkunar túna

Jóhannes bendir á að vegna mikilla hækkana á áburði sé kölkun túna og ræktarlands mikilvægur liður í að bæta nýtingu áburðarefna og auka uppskeru. Nú sé hins vegar sú staða uppi að námaleyfi Björgunar, eina vinnsluaðila skeljasands í landinu, hafi ekki fengist endurnýjað og ekki fyrirséð með frekari dælingu hans.

„Birgðir þeirra eru nú á þrotum sem gerist á versta tíma þegar bændur þurfa nú sem aldrei fyrr að beita öllum tiltækum ráðum til að auka framleiðni nytjalands. Við hjá Líflandi höfum hvatt matvælaráðuneytið og Bænda- samtökin til þess að beita sér í því að lausn finnist á þessu máli, enda er skeljasandur eina íslenska jarðefnið sem raunhæft er að nýta í þessum tilgangi,“ segir Jóhannes.

Bændur hugleiða kornrækt

„Það er alveg ljóst að bændur fara fyrr af stað í sínum hugleiðingum varðandi sáðvörur,“ segir Jóhannes, spurður um hug bænda til eigin kornræktar.

„Það má greina aukinn áhuga á kornrækt og ég tel hyggilegt að bændur ígrundi það að bæta í þar. Það hafa orðið lítils háttar verðhækkanir á sáðkorni en ekki miklar breytingar til að mynda á grasfræi, sem skýrist af því að samningar um verð á þessum tegundum voru gerðir á seinni hluta síðasta árs.

Hluti af sáðvörunni er þegar kominn og hluti hennar er á leiðinni.“

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...