Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frá árinu 2011 hefur Landsvirkjun selt upprunaábyrgðir eða „syndaaflausnir“ úr landi í stórum stíl. Með þeim hafa erlend fyrirtæki sagst framleiða sínar vörur með hreinu íslensku rafmagni, en ekki raforku sem framleidd er að stærstum hluta með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Orkustofnun hefur hins vegar þurft að yfirfæra samsetningu erlendu orkuframleiðslunnar í íslenska orkuframleiðslubókhaldið.
Frá árinu 2011 hefur Landsvirkjun selt upprunaábyrgðir eða „syndaaflausnir“ úr landi í stórum stíl. Með þeim hafa erlend fyrirtæki sagst framleiða sínar vörur með hreinu íslensku rafmagni, en ekki raforku sem framleidd er að stærstum hluta með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Orkustofnun hefur hins vegar þurft að yfirfæra samsetningu erlendu orkuframleiðslunnar í íslenska orkuframleiðslubókhaldið.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 29. desember 2022

Íslendingar verða rukkaðir á nýju ári fyrir syndaaflausnir af eigin raforku

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í júní 2015 greindi Sveinn A. Sæland, fyrrverandi formaður Sambands garðyrkjubænda, frá tilraun Orkuveitu Reykjavíkur til að neyða garðyrkjubændur til að greiða sérstakt gjald fyrir að nota hreina íslenska raforku. Nú hefur Landsvirkjun stigið skrefið til fulls og verður ekki lengur í boði að segjast nota hreina endurnýjanlega orku nema að borga sérstaklega fyrir það.

Þrátt fyrir tilraunina sem Orkuveita Reykjavíkur gerði og greint var frá 2015 til að fá garðyrkjubændur til að greiða sérstakt gjald fyrir hreina raforku sem framleidd væri með vatnsafli og jarðhita, þá hafa orkufyrirtækin ekki lagt í aðra slíka tilraun hér á landi fyrr en nú. Hins vegar hafa upprunavottorð verið látin fylgja innlendum orkukaupum endurgjaldslaust frá 2016.

Virðist vera markmiðið að hækka orkuverð

Landsvirkjun hefur nú tilkynnt sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði raforku að frá og með árinu 2023 muni upprunaábyrgðir raforku ekki fylgja endurgjaldslaust með þeirri orku sem fyrirtækin kaupa. Afsláttur verður veittur fyrir kaupum upprunaábyrgða á næsta ári og munu fyrirtækin hafa val um framseljanlegar ábyrgðir á markaðsverði eða óframseljanlegar á föstu verði. Afslátturinn er tímabundinn og ljóst að þessi gjaldtaka fyrir „syndaaflausnir“ vegna raforkunotkunar muni leiða til hækkunar á raforkuverði sem virðist greinilega vera markmiðið.

Landsvirkjun hefur nú tilkynnt sölufyrirtækjum á heildsölumarkaði raforku að frá og með árinu 2023 muni upprunaábyrgðir raforku ekki fylgja endurgjaldslaust með þeirri orku sem fyrirtækin kaupa.

Sagt í takti við orkutilskipanir frá ESB

Með því að láta upprunaábyrgðirnar ekki lengur fylgja raforkukaupum sölufyrirtækja, sem þær hafa gert frá árinu 2016, er að sögn Landsvirkjunar verið að færa fyrirkomulag sölu til samræmis við kerfið á meginlandi Evrópu. Þetta er enn einn milliliðurinn í verðmyndun raforku og samþætt­ ingu orkumarkaðar Evrópu sem framkvæmd hefur verið með reglugerðainnleiðingum, einkum í formi orkupakka.

Kemur verst við landsbyggðarfólk

Heimildamaður blaðamanns segir að gjaldtaka vegna upprunaábyrgða muni koma verst við þau svæði á landsbyggðinni sem byggja alla sína orkunotkun eingöngu á raforku. Kynding húsnæðis geti vegið þar þungt sem ekki er til staðar á höfuðborgarsvæðinu og öðrum stöðum sem búa við jarðhitakyndingu. Þá getur þetta líka komið mjög illa við garðyrkjustöðvar, sem eru stórnotendur á raforku, og kúabú.

Skitið á tröppurnar og gerandinn sendir rukkun

Sveinn A. Sæland, sem rak garð­ yrkjustöðina Espiflöt með fjölskyldu 2015, sagði þá um tilraun Orkuveitu Reykjavíkur til gjaldtöku vegna hreinleikavottorða:

„Okkur var boðið að kaupa okkur frá þessari vitleysu fyrir sem nemur 5,1 eyri á kílówattstund (kWst). Þannig gætum við keypt kjarnorku og jarðefnaeldsneytið út af reikningum hjá okkur og fengið rafrænt „lógó“ inn á heimasíðuna sem segir að við séum að kaupa hreina orku. Ég var bara ekki tilbúinn að taka þátt í svona skrípaleik. (...) Einn góður maður setti fram þá samlíkingu að þetta væri eins og einhver kæmi og skiti á tröppurnar hjá manni, bankaði svo á útidyrnar og byði húsráðanda að borga viðkomandi fyrir að þrífa upp skítinn eftir sig.“

Í áformum Landsvirkjunar nú á að ganga mun lengra og gert er ráð fyrir meira en tvöfalt hærra gjaldi á kílóvattstund en Sveinn nefndi 2015. Þó er veifað þeirri gulrót að gefinn verði afsláttur á hreinorkuvottorðunum til að byrja með.

Syndaaflausnir fyrir orku sem þegar hefur verið keypt

Á árinu 2023 ætlar LV að bjóða afsláttarkjör. Um 77% afsláttur verður boðinn á verði upprunaábyrgða miðað við markaðsverð þeirra fyrir þeirri orku „sem þegar hefur verið keypt“ og er með afhendingu á árinu 2023.

Tilboð Landsvirkjunar til Orkubús Vestfjarða hljóðar t.d. upp á að kaupa upprunaábyrgðir á 300 kr. á megawattstund (MWst) sem jafngildir 0,30 kr. á kílówattstund með allri keyptri raforku fyrir árið 2023 sem Orkubú Vestfjarða hefur fest kaup á fyrir 15. desember 2022.

Eftir þennan tíma þarf að greiða fullt „markaðsverð“ sem var í byrjun desember á 1.320 (kr/MWst) = 1,32 kr/kWh. Þetta er ríflega tvöfalt hærra en það 0,51 kr. gjald sem Orkuveita Reykjavíkur ætlaði að rukka garðyrkjubændur um árið 2015.

Mun kosta Vestfirðinga um 160 milljónir króna á ári

Samkvæmt skýrslu starfshóps um orkumál á Vestfjörðum og skýrslu verkfræðistofunnar Eflu, fer raforkuþörf jafnt og þétt vaxandi á Vestfjörðum. Hún hefur verið um 245 gígawattstundir (GWst) á ári og búist við að hún fari á 476 GWst eftir um 13 ár, eða fyrir árið 2035.

Vestfirðingar geta ekki framleitt í dag nema um helming af orkuþörf sinni og þurfa því að kaupa frá Landsvirkjun eða öðrum um 120 GWst á ári eða 120.000 MWst.

Eftir árið 2023 mun Landsvirkjun væntanlega samkvæmt markaðsverði í dag, rukka vegna syndaaflausna fyrir þetta orkumagn um 158.400.000 krónur auk rukkunar fyrir orkuna sjálfa. Útilokað er talið að Orkubú Vestfjarða taki á sig aukinn kostnað upp á nær 160 milljónir á ári og því augljóst að því verður velt yfir á almenna orkukaupendur á svæðinu. Sama mun trúlega gilda um alla aðra raforkusala á landinu með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu. Stingur þetta óneitanlega í stúf við áform yfirvalda um orkuskipti í landinu og hvatningu til fólks um kaup á rafbílum.

Salan hefur vakið furðu

Það hefur vakið undrun landsmanna að allt frá 2011 hafa íslensk orkufyrirtæki selt hreinleika­ eða upprunavottorð á raforku til fyrirtækja Evrópu. Í skjóli þessara vottorða hafa erlend fyrirtæki skreytt sig og segjast nota hreina orku sem samt er framleidd að meirihluta með kolum, olíu, gasi og kjarnorku. Erlend fyrirtæki hafa því notað íslensku upprunavottorðin til að blekkja sína neytendur. Í staðinn hafa Íslendingar þurft að taka á sig á pappírunum losun á gróðurhúsalofttegundum og geislavirkum úrgangi vegna framleiðslu raforku í Evrópu.

Þannig sagði Orkustofnun (OS) að á síðasta ári hafi íslensk raforka verið að 24% hluta framleidd með kjarnorku og 13% með jarðefnaeldsneyti, sem er í raun ósatt. Þá sagði OS að einungis 63% raforkunnar hér á landi hafi verið framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Verst voru áhrifin af sölu syndaaflausna árið 2018 þegar Orkustofnun sagði að einungis 11% raforku á Íslandi væri framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Annað, eða 89%, var sagt framleitt með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Öll raforka sem framleidd er á Íslandi er notuð innanlands. Meðaltal áranna 2011 til 2021 sýndi endurnýjanlega orkuhlutann aðeins vera 39%. Þegar búið er að selja syndaaflausnir fyrir meira en 60% af orkunni úr landi, er þá líka hægt að selja Íslendingum syndaaflausnir vegna sömu orku?

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...