Matvælasvindl og -glæpir 10 til 20% af matvælamarkaði heimsins
Glæpir sem tengjast matvælaframleiðslu færast í aukana og aukinn flutningur matvæla milli landa gerir eftirlit með matvælaglæpum erfitt. Eftirlit með innlendum og innfluttum matvælum er takmarkað hér á landi vegna fjárskorts eftirlitsaðila.
„Matvælaglæpir eru margs konar og flókið fyrirbæri og hreint ekki einfalt að skilgreina þá í einföldu máli,“ segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.
Matvælasvik eru auðveldust og algengust í þeim hluta matvælaframleiðslunnar þar sem matvæli eru mest unnin.
„Undir málaflokkinn eru tilvik sem tengjast framleiðslu, dreifingu og sölu á matvælum. Þetta eru glæpir sem meðal annars geta haft áhrif á heilsu neytenda og mýmörg dæmi eru um slíkt. Til dæmis íblöndun efna sem fólk getur haft ofnæmi fyrir eða hreinlega eitruð efni sem blandað er í matvæli.
Í öðrum tilfellum, sem eru mikið algengari, er logið til um uppruna vöru, tegund matvæla eða blandað í matvæli efnum án þess að merkja þau á umbúðir. Í þeim tilfellum er iðulega skipt út hluta af dýrara hráefni með ódýrara og þannig verið að falsa vöruna. Dæmi um þetta er þegar bætt er við efnum eins og sykri, salti, eða fosfati og vatni til að þyngja vöruna og markmiðið að ná niður framleiðslukostnaði á þyngdareiningu.“
Vörusvik færast í aukana
Sveinn segir aukningu virðast vera í glæpum þar sem verið er að selja vöru sem er ekki það sem hún er sögð vera. Hér gæti til dæmis verið um að ræða vöru sem er upprunamerkt sem íslensk en er það ekki og kemur einhvers staðar annars staðar frá.
„Gróf dæmi um matarsvindl er þegar hreinlega er skipt um eina tegund af búfé fyrir aðra eins í tilfellinu þegar var verið að selja hrossakjöt sem nautakjöt. Það dæmi var gróft og í ljós kom að gamlir dráttarklárar og jafnvel hross sem höfðu fengið háa lyfjaskammta sem veðhlaupahestar höfðu verið seld sem nautakjöt áður en upp komst um svindlið.
Slík matvælasvik eru auðveldust og algengust í þeim hluta matvælaframleiðslunnar þar sem matvæli eru mest unnin. Það er til dæmis erfitt að taka tómat og selja sem gúrku. Um leið og farið er að vinna vöruna opnast auknir möguleikar á að svindla með hana. Dæmi eru um að skemmt kjöt hafi verið blandað út í unna kjötvöru til að drýgja hana. Annað og mjög gróft dæmi frá Kína er íblöndun melamíns í mjólk til að próteininnihald hennar mældist hærra. Það komst upp árið 2008 og olli barnadauða og yfir 54 þúsund innlögnum barna á spítala þar í landi árið 2008.
Sannleikurinn er sá að bara allra grófustu dæmin komast í fréttirnar en þau eru einungis toppurinn á ísjakanum. Reyndar eru flestir sem að þessum málum koma sammála um að við höfum engan veginn yfirlit yfir umfang matvælaglæpa á heimsvísu.“
Skekkir samkeppnisstöðuna
Til að setja matarglæpi í samhengi tekur Sveinn dæmi úr ferðaþjónustunni sem er talsvert rætt um hér á landi um þessar mundir.
„Yfirvöld telja sig vita að í sumum tilfellum sé svindlað undan skatti í gistiþjónustu hér á landi. Slík svik veikja að sjálfsögðu samkeppnisstöðu þeirra sem gera hlutina rétt og gefa allt upp til skatts. Nákvæmlega það sama gildir um svindl tengt matvælum og efnahagsleg áhrif matvælaglæpa eru þau að þeir sem standa rétt að sínu standa höllum fæti gagnvart þeim sem svindla. Það í eðli sínu veikir siðferði í keðjunni vegna þess að ef einhver kemst upp með að svindla eykst leitni í þá átt hjá öðrum.
Matvælaglæpir tengjast dýravelferð og það gefur augaleið að slæm meðferð á búfé er glæpur og má ekki líðast, jafnvel þó að það kunni að lækka matvælaverð til neytenda.
Annað dæmi sem ekki má líta framhjá og tengist matvælaglæpum er dýravelferð því það gefur augaleið að slæm meðferð á búfé er glæpur og má ekki líðast jafnvel þó að það kunni að lækka matvælaverð til neytenda. Sama á við um umhverfisáhrif. Við viljum öll veg dýra og umhverfis sem bestan, en ef það er logið að okkur um uppruna vöru, þá er engin leið að fylgja því eftir að rétt sé að málum staðið í þeim efnum.“
Gríðarlegt umfang matvælaglæpa
Þrátt fyrir að ekki sé vitað með vissu hvert umfang matvælaglæpa í heiminum er, er vitað að það er gríðarlegt. Talið er að umfangið sé meira en verslun með fíkniefni og mansal á heimsvísu.
„Matvælaglæpir virðast vera algengastir þegar kemur að sjávarfangi, samkvæmt skýrslum Europol og Interpol þar sem innkallanir á vörum og handlagningar eru mestar á því. Glæpir tengdir framleiðslu á áfengi eru einnig algengir og öll þekkjum við framleiðslu og verslun með landa.
Vandinn við að ná utan um umfangið er að matvælaglæpir eru margs konar og flóknir. Staðbundnar rannsóknir vísindamanna sýna að svo virðist sem svindlað sé með allt að þriðjung sjávarfangs sem er á markaði í heiminum og þar er tegundasvindl algengast.“
Sveinn segir að fókus í matvælarannsóknum hafi ekki beinst að matvælasvindli í gegnum tíðina. „Það er ekki fyrr en á síðustu árum sem menn eru farnir að átta sig á umfanginu og alvarleika og þeim aunveruleika sem við stöndum frammi fyrir, þrátt fyrir að matvælasvindl hafi örugglega viðgengist frá því að menn fóru að versla með matvæli sín á milli.
Matvælaglæpir virðast vera algengastir þegar kemur að sjávarfangi, samkvæmt skýrslum Europol og Interpol þar sem innkallanir á vörum og handlagningar eru mestar á því.
Í dag er verið að framkvæma ýmiss konar rannsóknir sem byggja á erfðafræði til að horfa á tegundasvindlið. Að leysa tegundasvindl er samt sem áður bara hluti af púslinu, því samt sem áður er hægt að blanda íblöndunarefnum í vöruna til að þyngja hana, níðast á dýrum við framleiðslu, veiða fisk ólöglega og þar fram eftir götunum.
Mín ágiskun, miðað við það sem ég hef lesið mér til um, er að glæpir sem tengjast matvælum liggi á bilinu 10 til 20% af heimsframleiðslunni.“
Fólk oft bláeygt gagnvart matvælaglæpum
Viðurlög við matvælaglæpum eru væg miðað við aðra glæpi, eins og fíkniefnadreifingu og mansal, og því eftir miklu að slægjast fyrir glæpamenn og skipulagða glæpastarfsemi.
Sveinn segir að almenningur og stjórnvöld séu oft bláeygð og hafi tilhneigingu til að líta á matvælaglæpi sem minni háttar glæpi og jafnvel líta framhjá þeim.
„Í mörgum tilfellum er ekki um stórfenglega glæpi að ræða en í öðrum tilfellum geta glæpirnir leitt til þess að verið er að koma hættulegum efnum, lyfjaleyfum og jafnvel sýklalyfjaónæmi inn í fæðukeðjuna og ógna þannig heilsu neytenda.
Þannig að þegar litið er á málið í heild eru matvælaglæpir vaxandi og alvarlegt vandamál og hafa áhrif á samfélagið sem heild. Sem betur fer er vitund fólks um alvarleika málaflokksins að aukast og stjórnvöld farin að líta matvælaglæpi alvarlegri augum.
Varnir við svindli með unnar matvörur helgast að stórum hluta af því hversu auðvelt er að líkja eftir viðkomandi vöru og hvers vel neytandinn er upplýstur um hana.“
Rangar heilsufullyrðingar eru svindl
„Annað dæmi um matvælasvindl er þegar upplýsingar um hollustu matvöru eru rangar og fullyrt eitthvað um eiginleika vöru sem stenst ekki, til dæmis fæðubótarefni. Innflutningur og framleiðsla hér á landi á fæðubótarefnum hefur aukist mikið undanfarin ár og talsvert um að þessar vörur á markaði hér séu rangt merktar.“
Tilhneigingin að tala eftirlit niður
„Aukning á frjálsu flæði vöru yfir landamæri milli landa gerir allt eftirlit með matvælaglæpum mun erfiðara. Það eru til aðferðir til að framkvæma eftirlitið en því miður eru þær ekki nýttar að neinu ráði enn sem komið er. Í dag er því nánast ómögulegt að henda reiður á og koma í veg fyrir verslun og flutning svikinna matvæla milli landa.
Tilhneigingin er oftar en ekki að tala eftirlit niður og mikil tvíhyggja þar í gangi. Það er mikið talað um neytendavernd og krafa um að matvæli séu holl og góð en á sama tíma er talað um eftirlitsbáknið og kvartað yfir þeim kostnaði sem eftirlitið hefur í för með sér.
Opinberi geirinn er líka fremur gamaldags þegar kemur að eftirlitsaðferðum og langt frá því að verið sé að nýta nýjustu tækni og aðferðir á því sviði. Til að mynda erfðafræði sem er sennilega besta aðferðin til að greina tegundasvindl.
Opinberi geirinn er fremur gamaldags þegar kemur að eftirlitsaðferðum og langt frá því að verið sé að nýta nýjustu tækni og aðferðir á því sviði.
Önnur aðferð sem ekki er enn komin í notkun við matvælaeftirlit felst í bálkakeðjutækni (blockchain). Þá er margs konar upplýsingum um vöruna, til dæmis um uppruna, dreift á margar tölvur. Með því móti eru margir aðilar sem hafa sömu upplýsingar um vöruna því nánast ómögulegt er að breyta þeim upplýsingum á pappírum.
Gangi þessi tækni eftir geta neytendur á einfaldan hátt, til dæmis með QR-kóða, leitað upplýsinga um vöruna og hvort varan sé sú vara sem þeir ætla að kaupa,“ segir Sveinn.
Heilindi í matvælaframleiðslu skipta öllu máli
„Í raun er alveg sama hvort horft er til hagsmuna matvælaframleiðenda, verslunarinnar eða neytenda, þá skipta heilindi í matvælaframleiðslu gríðarlegu máli og eru undirstaðan fyrir því að þessir aðilar geti treyst hver öðrum.
Inn í þetta spila einnig umhverfismál og dýravelferðarmál á þann hátt að neytendur geti fylgst með og fengið upplýsingar um framleiðsluferlið. Hvernig voru aðstæður dýranna í eldinu eða er notuð í framleiðsluna pálmaolía frá svæðum þar sem er stundað ólöglegt skógarhögg og þar fram eftir götunum.“
Sveinn segir kröfur um aukin heilindi í matvælaframleiðslu og skilvirkt matvælaeftirlit sem tryggi þau heilindi séu í dag í raun tengt aukinni velferð og kaupgetu ákveðins hluta neytenda. Ástandið sé í sumum tilvikum skelfilegt, án þess að um það sé fjallað. „Það að geta leyft sér að geta spurt spurninga um gæði og uppruna matvæla er í raun lúxus hinna ríku en á sama tíma tel ég það líka vera okkar ábyrgð að spyrja þessara spurninga því að ef við gerum það ekki gerir það enginn.
Ástæða þess að hægt sé að selja matvæli frá mörgum stöðum í heiminum á mjög lágu verði er að laun séu afar lág, dýravelferð virt að vettugi og ekki sé hugað að umhverfismálum. Viðskiptamódel matarglæpamanna gengur því í verstu tilfellum út á mannréttindabrot og slæma meðferð á dýrum og umhverfinu. Það hefur í för með sér óeðlilegt sótspor sem fylgir því að flytja matvælin heimshorna á milli. Viðskiptamódelið þrífst svo í skjóli rangrar upplýsingagjafar og skorti á gagnrýni okkar sem kaupa vöruna.
Viðskipti af þessu tagi koma niður á öllum til lengri tíma en til skemmri tíma má segja að glæpamennirnir og neytendur græði á þeim. Glæpamennirnir, af því að þeir skapa sér illa fengnar tekjur, og neytandinn af því að hann telur sig vera að fá vöru á góðu verði. Raunin er hins vegar sú að neytandinn er blekktur til að taka þátt í glæpastarfsemi.
Spurningin sem neytendur verða því að spyrja sig að þegar þeir sjá vöru sem er á mjög lágu verði er hvers vegna verðið sé svona lágt. Ef hlutirnir virðast of góðir til að vera sannir, þá eru þeir gjarnan ekki sannir.
Gagnrýnin hugsun neytenda er því í raun sterkasta vopnið gegn matvælasvindli.“
Staðan á Íslandi
Samkvæmt lögum er eftirlit á innflutningi á matvælum í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Matvælastofnunar, MAST. „Þessir aðilar gera hvað þeir geta, en staðreyndin er sú að þrátt fyrir það erum við Íslendingar ekki í neinni stöðu til að fullyrða að staðan hér sé á þann hátt sem vera ber.
Dæmi um þetta er innflutningur á ólífuolíu. Við vitum að á heimsvísu er svindl með jómfrúarolíu verulegt, en bolmagn til að hafa eftirlit með því hvort innflutt jómfrúarolía sé það raunverulega eða hvort sé raunverulega verið að selja aðrar gerðir olíu er ekki til staðar. Sama gildir um innflutta tilbúna rétti, það er borin von að að ætlast til þess að eftirlitsaðilar geti fylgst með því að innihald þeirra sé í samræmi við innihaldslýsinguna á umbúðunum.
Allt snýst að lokum um fjármagn og eins og staðan er í dag höfum við einfaldlega ekki fjárhagslegt bolmagn til að fylgja þessum málaflokki sem skyldi.
Matís hefur átt í samvinnu við BfR, sem er þýska áhættumatsstofnunin tengt rannsóknum á matvælaglæpum. Samstarf hafur einnig verið við aðrar stofnanir í Evrópu og næstu skref Matís í rannsóknum á matvælasvindli eru meðal annars að auka samtalið við Europol.“
Sveinn segir að í raun hafi eina leið Matís til að afla fjármagns til rannsókna tengdum matvælaglæpum verið að sækja í alþjóðlega rannsóknasjóði, í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir. Slíkt hafi gefið aðgang að alþjóðlegri þekkingu, sem skipti miklu máli.
Eftirlit með innlendri framleiðslu
Að sögn Sveins er það hlutverk Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna að sjá um eftirlit með matvælaframleiðslu hér á landi. Matís sé svo þjónustuaðili þeirra stofnana.
„Þrátt fyrir góðan vilja allra þessara aðila verð ég að viðurkenna að þekking okkar á þessum málaflokki er ekki eins viðamikil og hún ætti að vera. Miðað það eftirlit sem er að meðaltali í Evrópu á matvælaframleiðslu þá erum við ekki að standa okkur illa en ef við berum okkur saman við Norðurlöndin þá er það mitt mat að við höfum ekki sams konar þekkingu á matvælum og áhættuþáttum þeirra hér á landi og í Skandinavíu. Sérstaklega finnst mér skorta á áhættumat í því samhengi.
Í dag ber matvælaframleiðendum samkvæmt lögum að geta rakið vöruna í báðar áttir í framleiðslukeðjunni og keðjan samkvæmt því í prinsippinu rekjanleg. Framleiðslukeðja landbúnaðarvara á Ísland er stutt og fremur einföld í samanburði við margar alþjóðlegar framleiðslu- og dreifingarkeðjur.
Í því ljósi tel ég mig í flestum tilfellum geta treyst því að það sem ég er að kaupa sé það sem það er sagt vera og ég tel mig vera að kaupa. Samt sem áður byggir þessi skoðun mín sem neytanda á trú og trausti á bóndann og söluaðilann. Traustið byggir því á sannfæringu en í raun ekki á upplýsingum eða staðreyndum enda engar yfirgripsmiklar rannsóknir á innlendri framleiðslu farið fram hvað matvælaglæpi varðar.
Annað sem áhugavert er að skoða í þessu samhengi er heimaslátrun sem í dag er ólögleg og því glæpur. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að reglur hér á landi varðandi heimaslátrun séu allt of stífar og að við ættum að auka frjálsræði bænda til að slátra heima, enda sé kröfum um hreinlæti og heiðarleika í viðskiptum sinnt og eðlilegt eftirlit, sem byggi á áhættumati, haft með slíkri starfsemi. Ég tel að slíkt myndi hafa jákvæð áhrif varðandi dýravelferð og umhverfismál og geti í raun aukið meðvitund neytenda, jafnt Íslendinga sem ferðamanna, fyrir íslenskum landbúnaði. Ef þú kaupir heimaslátrað kjöt er keðjan frá framleiðanda til þín eins stutt og mögulegt er og búið að taka út milliliði sem hugsanlega geta hafa átt við vöruna á ólöglegan hátt, t.d. blandað innfluttu kjöti við innlent. Væri heimaslátrað kjöt hins vegar selt án þess að salan væri gefin upp væri aftur á móti verið að skjóta undan skatti og það er skattalagabrot sem á ekki að líðast frekar en aðrir glæpir.“
Áskorun að fylgja eftirlitinu eftir
„Að mínu mati er ein helsta áskorun okkar Íslendinga þegar kemur að matvælaglæpum að fylgja málunum eftir og hætta því stefnuleysi sem er ríkjandi varðandi málaflokkinn. Við eigum að framkvæma þær rannsóknir sem þarf að framkvæma til að geta ályktað um stöðuna og grípa til þeirra ráðstafana sem þörf er á til að hún sé sé í lagi til framtíðar,“ segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, að lokum.