Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þurrkarinn tekur um 47 rúmmetra af korni í einu og þurrkar á nokkrum klukkutímum. Hann getur afkastað um 1.500 tonnum af þurru byggi á hausti, að sögn Birgis.
Þurrkarinn tekur um 47 rúmmetra af korni í einu og þurrkar á nokkrum klukkutímum. Hann getur afkastað um 1.500 tonnum af þurru byggi á hausti, að sögn Birgis.
Mynd / Aðsendar
Í deiglunni 23. október 2023

Fyrsta kornsamlag landsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Glæný þurrkstöð á bænum Flatey á Mýrum í Hornafirði framleiddi um 500 tonn af þurru byggi í haust. Birgir Freyr Ragnarsson bústjóri segir stöðina vísi að fyrsta kornsamlagi landsins.

Birgir Freyr Ragnarsson og Vilborg Rún Guðmundsdóttir, bústjórar á Flatey, og Hjörtur Logi Birgisson.

Í skýrslunni Bleikir akrar – aðgerðaráætlun um aukna kornrækt kemur fram að grundvöllur fyrir öflugum íslenskum kornmarkaði sé stofnun kornsamlaga, milliliðs milli kornbænda og kaupenda sem getur tekið á móti korni frá bændum, metið gæði og selt áfram. „Framleiðendafélög í einstökum sveitum og héruðum ættu að bindast heildarsamtökum þannig að einn aðili hefði yfirlit yfir magn og gæði af innlendu korni,“ segir þar meðal annars.

Eigendur Flateyjarbúsins á Mýrum í Hornafirði brugðust fljótt við tillögum starfshóps um eflingu kornræktar og reistu kornþurrkstöð sem tekin var í notkun í haust. „Þetta er splunkunýr þurrkari frá finnska framleiðandanum MEPU. Hann er að fullkomnustu gerð, bæði þegar kemur að þurrkun og meðhöndlun á korni,“ segir Birgir Freyr Ragnarsson, sem stýrir Flateyjarbúinu ásamt konu sinni, Vilborgu Rún Guðmundsdóttur.

Mun keyra á rafmagni

Þurrkarinn tekur um 47 rúmmetra af korni í einu og þurrkar magnið, miðað við 25% rakastig af akri, á 6–9 klukkustundum, að sögn Birgis. „Þessi þurrkun stenst fyllilega allar gæðakröfur sem kaupendur gera til korns og stenst allan samanburð hérlendis og erlendis.“

Afkastageta þurrkarans er því um 60–70 tonn af þurru byggi á sólarhring.

„Þurrkarinn er undirþrýstur turnþurrkari, kyntur með 1MW varmaskiptum olíuhitara. Allur rekstur hans er alsjálfvirkur. Vinna er hafin við að kynda hann alfarið á rafmagni og komin er rafmagnsheimtaug sem annar þeirri aflþörf. Öll starfsemi þurrkstöðvarinnar verður því keyrð á hreinni íslenskri orku,“ segir Birgir.

Hann bætir því við að vegna næsta áfanga í uppbyggingu þurrkstöðvarinnar sem krefst aukins rafafls þá þurfi að ráðast í frekari styrkingar á dreifikerfi Rarik. „Aukin eftirspurn er eftir raforku á svæðinu og í dreifbýli almennt vegna mikillar uppbyggingar tengdri ferðaþjónustu og orkuskiptum í samgöngum.

Rarik þarf því að ráðast í frekari styrkingu á dreifikerfinu sínu.“

Frá kornuppskeru í Flatey. Í ár var ræktað á rúmum 150 hektara lands, þurrkað í nýju þurrkstöðinni ásamt korni frá tveimur öðrum bændum á svæðinu. Samtals seldu bændurnir um 500 tonn til Fóðurblöndunnar.

Stór fjárfesting

Í ár var allt korn sem ræktað var á Flatey, á rúmum 150 hektara lands, þurrkað í nýju þurrkstöðinni ásamt korni frá tveimur öðrum bændum á svæðinu. Samtals seldu bændurnir um 500 tonn til Fóðurblöndunnar þar sem það verður notað í stað innflutts korns í kjarnfóður.

„Þetta er stór og mikil fjárfesting en menn eru að horfa á að með svona uppbyggingu getum við fjölgað stoðum í landbúnaði hér í héraðinu. Hér eru góð skilyrði til kornræktar og mikið af landi. Kornræktendum á svæðinu hefur fækkað en með þessari þurrkstöð getum við opnað á þann möguleika að bændur rækti korn og geti losnað við afurðirnar sínar.“

Kynningarfundur fyrir bændur

Í vetur stendur til að byggja yfir þurrkarann og koma upp aðstöðu til fullþurrkunar á hálmi fyrir undirburð. Þá er til skoðunar að reisa geymslusíló fyrir um 1.200 tonn af þurru korni.

Afköst þurrkstöðvarinnar er um 1.500 tonn af þurru byggi á hausti.

„Við ákváðum strax í upphafi að öll hönnun tæki mið af því að tveir þurrkarar yrðu settir upp og er því þegar búið að leggja í allan grunnkostnað við tilkomu næsta þurrkara nema kaup á honum og kostnað við uppsetningu. 

Flateyjarbúið mun, ef allt gengur eftir, auka sína kornrækt í ákveðnum skrefum og væntingar okkar standa til þess að innan 5 ára verði kornsamlagið að þurrka 2.500 til 3.000 tonn af korni frá okkur og
öðrum bændum á svæðinu.“

Hann bendir á að tækifæri til kornræktar á Íslandi séu gífurlegir og markaðir bæði fyrir korn og hveiti til staðar.

„Eiginlega allt korn er flutt inn og mikill vilji er fyrir því að auka innlenda framleiðslu. Vonandi er þetta bara fyrsta kornþurrkstöðin af fleirum á landinu og óskandi er að fleiri samlög rísi svo öllum verði gert kleift að rækta korn og nýta það land sem þeir hafa – þannig að kornrækt verði eins og hver önnur búgrein,“ segir Birgir Freyr sem undirbýr nú kynningarfund fyrir bændur á svæðinu í byrjun nóvember.

„Á þeim fundi verður farið yfir uppbyggingu kornsamlagsins í Flatey og hvað kornsamlagið og Fóðurblandan geta gert til að aðstoða bændur á svæðinu við að hefja kornrækt. Höfundum skýrslunnar Bleikir akrar verður einnig boðið að koma til fundarins til að kynna hana betur og hvað Landbúnaðarháskólinn geti gert til að aðstoða bændur í þessu efni.“

Flateyjarbúið er kúabú í eigu Skinneyjar-Þinganess og Fóðurblöndunnar. Þar eru mjólkaðar liðlega 200 kýr og framleiddir um 1,5 milljón lítrar af mjólk á ári. Auk þess eru aldir uxar til kjötframleiðslu og telur sá bústofn nú um 180 gripi.

Skylt efni: kornrækt | kornsamlag | bygg

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...