Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fréttir 3. desember 2015
Kúabændur hafa varið tugum milljarða í kaup á greiðslumarki
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Íslenskir kúabændur hafa frá árinu 1994 til dagsins í dag varið 28,2 milljörðum króna á núvirði í kaup á greiðslumarki í mjólk. Það lætur nærri að bændur hafi greitt um 11–12 krónur á hvern lítra yfir tímabilið í heild sem eru nálægt 25% af beingreiðslum sem bændur fá við framleiðslu hvers lítra. Við þennan kostnað bætist lántökukostnaður og vaxtagreiðslur sem eru ekki inni í myndinni. Samanlagt umfang viðskiptanna nemur 68,9 milljónum lítra. Þetta kom fram í máli fulltrúa Landssambands kúabænda á kynningarfundum um gerð nýrra búvörusamninga í síðustu viku.
Samantekt LK um umfang greiðslumarksviðskipta byggir að hluta á hliðstæðri samantekt Daða Más Kristóferssonar og Ernu Bjarnadóttur frá árinu 2010. Líklegt er að eitthvað sé um tvítalningu á fjölda lítra þar sem sömu bændur hafa keypt og selt kvóta á tímabilinu. Engu að síður er um háar upphæðir að ræða sem stækka mjög að umfangi ef fjármagnskostnaðurinn væri talinn með. Ekki er til yfirlit um hann en fram kom í máli forsvarsmanna LK að sú upphæð hlypi á milljörðum króna. Á mynd 1 sést verðþróun á greiðslumarki sem náði hámarki árið 2005 þegar kvótaverð nálgaðist 600 kr. á lítra á núvirði. Athygli vekur að verð á greiðslumarki hækkar hratt eftir gerð nýrra búvörusamninga árin 1997 og 2004.
Greiðslumarkið var sett á við sérstakar aðstæður
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, segir að eftir því sem tímar líða, leiði þessi staða til þess að sífellt hærra hlutfall af stuðningi hins opinbera rennur til fyrrverandi bænda og fjármálastofnana. „Fram til 2010 var bændum heimilt að gjaldfæra greiðslumarkskaup, en það ár var ákvæði um slíkt fellt út úr tekjuskattslögum, þannig að í dag er einungis heimilt að gjaldfæra kaupin við búskaparlok. Í þessu samhengi öllu er líka nauðsynlegt að hafa í huga við hvaða aðstæður viðskiptum með greiðslumark var komið á. Mjólkurframleiðslunni hafði verið haldið fastri í fjötrum niðurskurðar framleiðsluheimilda í u.þ.b. áratug, sem var orðið greininni með öllu óbærilegt ástand,“ segir Baldur Helgi.
Endurskoðun í nýjum búvörusamningum
Umræðan um kvótakerfið og þann kostnað sem hefur fylgt því var til umræðu á bændafundunum í síðustu viku. Meðal annars vegna þess hvað stór hluti af ríkisstuðningi rennur til bankastofnana vegna greiðslumarkskaupa ræða menn nú nýjar lausnir þar sem stuðningskerfi landbúnaðarins verði endurskoðað. Markmiðið er að greiðslumarkið eigngerist ekki og að bændur þurfi ekki að kaupa sér rétt til stuðningsgreiðslna frá ríkinu hver af öðrum.
Mynd 1. Verð á greiðslumarki hefur sveiflast töluvert á rúmum 20 árum.
Mynd 2. Núvirði greiðslumarksviðskipta er um 28,2 milljarðar króna. Veltan snarlækkar í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Heimild / LK