Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta árs, þar sem fram kemur að kartöfluframleiðslan hafi ekki verið minni í landinu frá árinu 1993.
Í flestum tegundum útiræktunar var uppskeran lakari en árið á undan. Kartöfluuppskeran var tæpum 1.800 tonnum minni og gulrótaruppskeran rúmlega helmingi minni – og sú minnsta í ellefu ár.
Í gögnum Hagstofunnar eru borin saman árin 2023 og 2024 og koma tölurnar í meginatriðum heim og saman við þær upplýsingar sem var sagt frá í frétt hér í Bændablaðinu í lok nóvember um uppskeruna í útiræktuninni. Þá var stuðst við upplýsingar úr skráningu bænda á uppskeru beint af akri. Sagði Helgi Jóhannesson, garðyrkjuráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, af því tilefni að lök kartöflu- og gulrótaruppskera skýrðist af erfiðu ræktunarári, þar sem sumarið hefði verið kalt og frekar stutt. Sérstaklega var tíðarfar í Eyjafirði kartöflubændum erfitt. Þá hætti umfangsmikill kartöfluræktandi búskap á síðasta ári sem setur strik í reikninginn. Rauðkál er eina grænmetistegundin í útiræktun þar sem aukning er í uppskerumagni á milli ára, eða ellefu tonn, sem Helgi skýrði í auknu umfangi ræktunar hjá garðyrkjubændum.