Ríkið þarf ekki að endurgreiða innflytjanda vegna tollkvóta
Hæstiréttur Íslands sýknaði íslenska ríkið í gær af kröfu Ásbjörns Ólafssonar ehf. um endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi til Í vegna greiðslna fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins.
Ágreiningur málsins lýtur að gjaldtöku fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins sem ráðherra úthlutaði stefnda 7. maí og 18. desember 2018 á grundvelli 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga nr. 99/1993 og 5. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005 gegn greiðslu gjalds, samtals að fjárhæð 17.410.000 krónur.
Ásbjörns Ólafssonar ehf. höfðaði mál 28. janúar 2019 og gekk dómur í héraði 1. nóvember það ár þar sem ríkið var sýknað af kröfu hans. Dómnum var áfrýjað og með nýjum dómi 19. mars 2021 var talið að í ljósi 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár styddist álagning þeirra gjalda sem um ræðir ekki við lögmæta skattlagningarheimild. Ríkið var þá dæmt til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem stefndi hafði greitt.
Áfrýjunarleyfi Hæstaréttar var veitt 14. maí 2021 á þeim grunni að dómur gæti haft fordæmisgildi um hvort viðhlítandi heimild hefði verið fyrir hendi fyrir gjaldtökunni. Komst Hæstiréttur síðan að þeirri niðurstöðu að gild skattlagningarheimild hefði legið til grundvallar þeirri gjaldtöku sem fólst í greiðslu Ásbjörns Ólafssonar ehf. fyrir þá tollkvóta sem málið laut að. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu Ásbjörns Ólafssonar ehf. og var málskostnaður felldur niður á öllum dómsstigum.