Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 3. ágúst 2016
Stór skref í gæðum, rekjanleika og tengingu neytenda við framleiðendur
Fjallalamb á Kópaskeri hefur nú sett á markað nýjar upprunamerktar afurðir og hafa viðtökur á markaði verið mjög góðar. Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs, segir fyrirtækið með þessu stíga stórt skref í gæðum, rekjanleika og tengingu neytenda beint til framleiðanda vörunnar. Til að byrja með verður félagið með heil og hálf læri, heila og hálfa hryggi, og grill- og súpusagaða framparta.
Allar upplýsingar um bónda og býli á snjallsímavænni heimasíðu
„Við vorum áður með hálfa skrokka í kassa, voru þeir merktir framleiðanda og gátu viðskiptavinir flett honum upp á heimasíðu okkar. Nú tökum við þetta skrefinu lengra, höfum uppfært heimasíðuna og hver og einn bóndi er með sína eigin síðu. Þannig geta eigendur snjallsíma skannað vöruna í búðinni og fengið allar upplýsingar um bónda og býli,“ segir Björn Víkingur en á síðu hvers og eins bónda eru margvíslegar upplýsingar, eins og hvaða verkefnum hann sinni, afurðir á síðasta ári, upplýsingar um jörðina, myndir og einnig er hægt að senda fyrirspurn beint til bónda. „Þarna höfum við ótæmandi möguleika á upplýsingum sem við getum sett inn fyrir hvern bónda, segir Björn Víkingur.
„Þetta er snjallsímavæn heimasíða og auðvelt fyrir notendur að fara inn á hana, en þeir sem ekki eru með síma af því tagi í vasanum á meðan verslað er geta flett framleiðslunúmerinu á vörunni upp á heimasíðunni okkar,“ segir Björn Víkingur.
Til að byrja með fást upprunamerktar vörur frá Fjallalambi í flestum stærri verslunum Krónunnar og Iceland.
Upprunamerktar afurðir frá Fjallalambi voru kynntar á aðalfundi félagsins sem haldinn var nú nýverið.
Viðurkenningar veittar
Á fundinum voru veittar viðurkenningar fyrir hæsta meðalverð haustsins 2015 og fyrir mestu meðaltalsframfarir í sauðfjárrækt á tímabilinu 2013 til 2015. Dagbjartur Bogi Ingimundarson á Brekku fékk viðurkenningu fyrir hæsta meðalverð dilka innlagða hjá Fjallalambi haustið 2015, 10.665,65 kr á dilk. Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir og Benedikt Líndal Jóhannsson, bændur á Brúarlandi, Þistilfirði, fengu viðurkenningu fyrir mestu meðaltalsframfarir í fjárrækt á innleggjendasvæði Fjallalambs.