Stuðningsgreiðslur vegna hækkandi áburðaverðs í gegnum jarðræktarstyrki og landgreiðslur
Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um fyrirkomulag á stuðningsgreiðslum til bænda vegna hækkunar áburðaverðs. Gert er ráð fyrir að um 650 milljónir króna fari í beinan stuðning við bændur í gegnum jarðræktarstyrki og landgreiðslur, sem álag fyrir síðasta ár. Afgangurinn, 50 milljónir króna, fer í sérstakt átak um bætta nýtingu áburðar og leiðir til að draga út notkun hans – sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins mun sjá um.
Í tilkynningunni er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra að hún búist við því að greiðslurnar verði afgreiddar strax um næstu mánaðamót.
Á síðasta ári fengu 1.534 bú jarðræktarstyrki og landgreiðslur vegna ræktunar á samtals 91.610 hekturum. Í tilkynningunni kemur fram að áætlað sé að álagsgreiðslan þýði um það bil 79 prósent álag á greiðslurnar 2021. „Gætt verður sérstaklega að búum sem nýir ábúendur hafa tekið við eftir að greiðslan 2021 fór fram,“ segir í tilkynningunni.
Áburðarvísitalan hækkað um 93 prósent
„Áburðaverð hefur hækkað á síðustu misserum. Áburðarvísitala Alþjóðabankans hefur hækkað um 93% frá lokum síðasta áburðartímabils, m.a. vegna hækkunar á jarðgasi og COVID-tengdum framboðsáhrifum. Áætluð hækkun hérlendis frá síðasta ári er um 87% samkvæmt mati Hagstofunnar fyrir verðlagsgrundvöll kúabús,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Haft er eftir Svandísi að með þessum aðgerðum sé komið til móts við bændur og þá erfiðu stöðu sem þeir standa frammi fyrir. „Við höfum lagt áherslu á að fjármunirnir skili sér sem fyrst til bænda og á sem einfaldastan hátt. Með þessari útfærslu náum við því fram. Við höfum átt gott samstarf við Bændasamtökin vegna málsins,“ segir Svandís.