Sýningarreitir á Hvolsvelli
Fyrir framan verslun SS á Hvolsvelli á vegum búvörudeildar SS má nú sjá 36 tilraunareiti sem sýna áhrif mismunandi áburðarskammta á korn og hafra.
„Til að athuga hvort sýrustigið sé ákjósanlegt, þá var tekið jarðvegssýni úr reitunum í vor. Mikilvægt er að sýrustigið sé á bilinu pH 6-6,5 svo að upptaka næringarefna verði sem best. Æskilegt sýrustig fyrir bygg er á bilinu pH 6,0-6,5 og fyrir hafra pH 5,8-6,3,“ segir í tilkynningu frá Sláturfélagi Suðurlands. Sáð var byggi í 30 reiti en notuð voru tveggja raða yrkin Kría, Anneli og Filippa og sex raða yrkin Smyrill og Aukusti.
Einnig var sáð í sex reiti af höfrum með yrkinu Niklas.
„Allir reitirnir fengu 70 kg/ha af köfnunarefni en mismunandi magn af fosfór og kalí. Allur áburður sem var notaður er frá Yara,“ segir jafnframt í tilkynningunni en reitirnir eru vel merktir fyrir gesti og gangandi á svæðinu.