Fá viðlagastuðning vegna fuglaflensu
Ítalskir bændur fá 27,2 milljónir evra í bætur frá ESB vegna 294 tilfella fuglaflensu haustið 2021.
Faraldur gekk um nokkur héruð á Ítalíu milli 23. október til 31. desember 2021. Stjórnvöld gripu umsvifalaust til mikilla smitvarna til að halda aftur af útbreiðslu sóttarinnar, en þær leiddu jafnframt til mjög minnkaðrar innkomu. Bændur sem voru með kjúklingaeldi, eggjaframleiðslu, kalkúna, endur og perluhænsn urðu fyrir mestum áhrifum. Tjónið fólst helst í ónýtum vörum eða að þær væru færðar niður um gæðaflokk.
Eftir formlega beðni frá ítölskum stjórnvöldum komst Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að þeirri niðurstöðu að ESB myndi standa undir helmingi þess kostnaðar sem ítölsk stjórnvöld hafa lagt út til að styðja við bændur á þeim svæðum sem verst voru útsett. Einungis bændur á fyrir fram ákveðnum svæðum eiga heimtingu á fjárstuðningi fyrir tjón sem gerðust í lok árs 2021. Greiðslurnar munu koma úr varasjóði landbúnaðarins og eiga að skila sér í lok september á þessu ári. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.