Bændur eru orgínalar
Þau málefni sem upphafsmenn Bændablaðsins vörpuðu ljósi á í árdaga blaðaútgáfunnar standast enn tímans tönn í dag.
Bændablaðið á sér lengri en þrjátíu ára sögu því það birtist landsmönnum fyrst þann 19. júní 1987. Ritstjóri og ábyrgðarmaður þess var Bjarni Harðarson. Hann hóaði saman nokkrum vinum sínum til að stofna félagsskap kringum blaðaútgáfu fyrir bændur landsins og dreifbýlið.
Meðal þeirra var Gylfi Gíslason, Hrólfur Ölvisson, Gunnar Bender og Arna Rúnarsdóttir og Jón Daníelsson frá Tannstöðum í Hrútafirði, en sá starfaði jafnframt sem blaðamaður Bændablaðsins og síðar ritstjóri.

Fréttatengdar umfjallanir
Þrátt fyrir að vera rétt um 25 ára gamall hafði Bjarni þá þegar aflað sér töluverðrar reynslu sem blaðamaður, bæði hjá Stúdentablaðinu, Helgarpóstinum, Tímanum og sem ritstjóri tímaritsins Bóndans, sem gefið var út af útgáfufélaginu Fjölni.
„Það skemmtilegasta í blaðamennskunni var alltaf að þvælast um landið og taka viðtal við bændur. Bændur voru og eru að upplagi orgínalar á vondri íslensku, þeir hafa vegna einveru í sínu daglega lífi frumlegri sýn á lífið og tilveruna heldur en fjöldinn sem vinnur og lifir í meira kraðaki mannlífsins,“ segir Bjarni. Tímaritið Bóndinn og tímaritið Freyr, sem gefið var út af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda á árunum 1904–2007, voru að Bjarna sögn lík að uppistöðu sem fagrit. En gegnum starf sitt hafði hann kynnst erlendum bændablöðum í dagblaðsformi. Blöðin voru að sögn Bjarna fréttatengdari en Bóndinn og Freyr en þau þjónuðu einnig sem baráttumálgögn fyrir málstað bænda og landsbyggðar.
Þannig blað vildu Bjarni og félagar gefa út og stofnuðu í kringum útgáfuna hlutafélagið Bændasynir ehf. Bjarni lýsir tíðaranda meðal bænda um það leyti sem Bændablaðið er stofnað. „Hreyfing bænda sem vildu brjóta upp staðnað kerfi studdu blaðaútgáfuna. Þarna var verið að stofna Landssamband kúabænda og Landssamband sauðfjárbænda og kljúfa það frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda, sem síðar urðu svo Bændasamtökin.“
Bændablaðinu var ætlað að draga fram fréttir og umfjallanir um landbúnaðar- og landsbyggðarmál. Í fyrsta leiðara blaðsins skrifar Bjarni að blaðinu sé ætlað að vera málgagn allra þeirra sem vilja veg landsbyggðarinnar sem mestan. „Bændablaðið er fréttablað og ætlun okkar er að hafa þau áhrif á íslenska fjölmiðlun að sjónarmið landbúnaðar og landsbyggðar njóti sín betur en verið hefur.“
Umræðuefni landbúnaðar seint á níunda áratug síðustu aldar svipar að einhverju leyti til umræðunnar í dag. Í fyrstu tölublöðum ársins 1987 er fjallað um samdrátt í sauðfjárrækt, útflutning hrossa, kjötframleiðslu og afkomuvanda, hagkvæmar bústærðir, hagræðingu í slátrun, innflutning landbúnaðarafurða og samkeppnismál í mjólkuriðnaði. Þarna eru viðtöl við starfandi bændur sem einnig höfðu hlutverk innan stjórnsýslunnar.
Viðhorfin breyst til hins betra
Svo var það skinkusmyglið. Í öðru tölublaði Bændablaðsins er sagt frá því að erlend skinka fyndist í samlokum. Skinkan væri ólöglega flutt inn af farmönnum og að hún gengi ólöglega kaupum og sölum; „og er með arðvænlegri smyglvarningi ef undan eru skilin eiturlyf“.
Þessi afhjúpun Bændablaðsins reyndist afdrifarík. „Mjög fáir aðilar á Íslandi framleiddu skinku á þessum tíma. Það var gert í ákveðnum mótum en við gátum mælt það út að skinkusneiðar á samlokum sem hægt væri að fá í sjoppum, komu ekkert úr íslenskum skinkugerðum. Þetta var smygluð skinka,“ rifjar Bjarni upp en segja má að umfjöllun um skinkusmygl hafi komið Bændablaðinu á kortið. Í framhaldi birtist m.a. opnuviðtal við Bjarna í DV um málið, einnig í sjónvarpi. Bændasynir leigðu sér í framhaldi bás á Landbúnaðarsýningu í Laugardalshöll í ágúst það sama ár, þar sem þeir leyfðu gestum og gangandi að smakka og bera saman íslenska og erlenda skinku.
„Við vorum að reyna að halda á lofti sjónarhorni innlendrar framleiðslu með þessu móti. Menn voru þarna að kaupa erlenda skinku í járndósum og sneiða það niður því það var ódýrara en að kaupa innlenda framleiðslu,“ segir Bjarni, sem þó spyr sig hvort umfjöllunin hafi breytt einhverju.
„ Lögreglan rannsakaði þetta ekkert sem sakamál, til þess var tilefnið ekki nógu mikið. Þetta var engu að síður augljóslega smygl og umfjöllunin hefur kannski dregið kjark úr mönnum að halda þessu áfram.“ Þannig segist Bjarni skynja endurtekin stef í umfjöllun um landbúnað í gegnum árin. Hann segir þó viðhorf hafa breyst til hins betra. „Það var alveg talsvert algengt sjónarmið á þessum tíma að það ætti ekkert að vera að standa í að framleiða hér á Íslandi. Þessi sjónarmið hafa lagast og menn hafa fundið fyrir mikilvægi fæðuöryggis. Viðhorfin breyttust í hruninu, ekki af góðu tilefni. Svo skerpist á þessum sjónarmiðum núna út af því hvað það er ófriðvænlegt í heiminum. Menn átta sig á mikilvægi innlendrar framleiðslu. Svo hafa menn gert sér grein fyrir hreinleika íslenskra landbúnaðarvara, sem var ekki eins almennt viðurkennt sjónarmið þá og nú.“
Mikilvægi landsbyggðar
Þá séu ýmis umfjöllunarefni sem Bændablaðið fyrir rúmum þrjátíu árum setti á oddinn og eru enn þýðingarmikil. Bjarni nefnir í því samhengi byggðarmál. „Við erum mjög nálægt því að tapa heilu landshlutunum úr byggð. Þar með verðum við af þeim möguleika að nýta þau landsvæði til landbúnaðar og matvælaframleiðslu.“
Hann nefnir sem dæmi norðausturhorn landsins og Vestfirði. „Mér finnst að við eigum að vera miklu meira á tánum yfir þessu og gera miklu meira. Velmegun byggir á því að við þekkjum landið. Við þekkjum ekki eyðibyggðir, rétt eins og við þekkjum ekki hálendið. Við gerum okkur ekki grein fyrir möguleikunum sem svæðin bjóða upp á, nema þar sé byggðarnet. Það er engin leið til að byrja, því þó þú sjáir brjálaða möguleika í Jökulfjörðunum þá flytur þú ekki þangað því þar er ekki vegur, enginn skóli, ekki neitt.“
Eins á við þegar talað er um vaxtarmöguleika í dreifbýli. Þannig standi sum byggðarlög, og falli, með ferðaþjónustu. „Samdráttur í ferðaþjónustu gerir þessi svæði berskjölduð. Við þurfum að hafa meira þarna. Við getum ekki lifað öll á einu horni landsins. Það mun leiða til fátæktar og það er að gerast heilt yfir á Vesturlöndum, sem ég tel á mjög slæmri vegferð hvort sem horft er til Bandaríkjanna eða Evrópusambandsins Þar er umgjörðin orðin svo mikil en þá vantar svo mikið framleiðsluþáttinn.“
Bændasynir gáfu út Bændablaðið til ársloka 1993 og hætti þá Bjarni útgáfu blaðsins. Jón Daníelsson, fyrrverandi starfsmaður blaðsins, tók þá yfir reksturinn og rak blaðið á eigin nafni í eitt ár. Hann samdi svo um sölu á heiti blaðsins til Bændasamtakanna, sem hóf útgáfu sína árið 1995.
Í gegnum árin hefur Bjarni verið í ýmsum hlutverkum, svo sem sem þingmaður, rithöfundur og bókaútgefandi. Í dag skilgreinir hann sig fyrst og fremst sem bóksala.