Fiskur sem ekki má veiða
Lúðan er eini hefðbundni nytjafiskurinn á Íslandsmiðum sem sjómönnum er bannað að beina sókn sinni í. Áfram er þó hægt að fá lúðu í soðið í fiskbúðum landsins því heimilt er að landa lúðu sem kemur sem meðafli á öðrum veiðum og ekki er talin lifa það af að verða sleppt aftur í hafið.
Lúðuveiðar hafa alltaf haft á sér ákveðinn ævintýrablæ. Hver kannast ekki við myndirnar í blöðunum af hreyknum fiskimönnum sem stilla sér upp með stórlúðu á stærð við þá sjálfa eða meira, ferlíki sem óvænt hefur álpast á krókinn hjá þeim? Verðmætur happafengur. Þá hafa sjómenn sem stundað hafa beinar lúðuveiðar með haukalóðum (lúðulínu) líkt spenningnum sem fylgir lúðuveiðunum við bestu augnablikin á laxveiðum þegar glímt er við þann stóra.
Langvarandi viðkomubrestur
En nú er gamanið fyrir löngu búið, að minnsta kosti hvað varðar beina sókn í stórlúðu. Hún hefur verið bönnuð allt frá árinu 2012 vegna langvarandi viðkomubrests í stofninum samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar. Raunar hafði Hafró lagt til bann við beinni sókn í lúðustofninn allt frá árinu 1997 en talaði fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Þáttaskil urðu hins vegar árið 2008 þegar bein sókn í stórlúðu með haukalóðum jókst verulega og árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd með þeim hætti en þá nam lúðuaflinn í heild rúmum 500 tonnum. Þegar hér var komið sögu þótti stjórnvöldum tími til kominn að grípa inn í enda ljóst að ef stærri lúðunni yrði eytt yrði engin nýliðun.
Lokun svæða ekki fýsileg
En hvernig er hægt að friða eina tiltekna fisktegund sem syndir innan um aðrar fisktegundir í sjónum og lendir því óhjákvæmilega í veiðarfærum fiskiskipa? Eftir umfangsmikla skoðun Hafrannsóknastofnunar var einkum tvennt talið koma til greina í þessu sambandi. Í fyrsta lagi lokun veiðisvæða fyrir öllum veiðum þar sem unglúða heldur sig og í öðru lagi sleppingar á allri lífvænlegri lúðu sem veiðist sem meðafli. Skoðun leiddi í ljós að erfitt yrði að draga frekar úr lúðuveiðum nema með því að loka stórum veiðisvæðum fyrir öllum veiðum með botnvörpu, línu og dragnót. Fundað var með skipstjórnarmönnum sem töldu svæðalokanir slæman kost því sú aðgerð myndi þýða umtalsverðar hömlur á veiðum annarra tegunda. Sleppingar á lífvænlegri lúðu þóttu skárri kostur, þó að á honum væru ýmsir gallar, t.d. hvað varðar botnvörpuveiðar.
Sleppingar
Niðurstaðan varð sú að stjórnvöld settu reglugerð þar sem segir að við línuveiðar skuli sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar og við handfæra- og sjóstangaveiðar skuli losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúðan kemur um borð. Síðast en ekki síst er svo alfarið bannað að stunda beinar veiðar á lúðu með þar til gerðri lúðulínu með stórum krókum (haukalóðum) enda er það helst stórlúða úr hrygningarstofni sem veiðist með því veiðarfæri.
Smálúðan elst upp á grunnunum til 3–5 ára aldurs en heldur þá út á djúpið. Á vorin og sumrin gengur stórlúða upp á grunnið en dregur sig út á djúpið þegar haustar og kólnar. Lúður verða kynþroska seint, eða 9–10 ára gamlar, og því verða áhrif veiðibannsins lengi að koma fram. Í svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn á Alþingi nýlega kom fram að vísitölur lúðu í stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar hefðu aukist milli áranna 2014 og 2015 og haldist svo svipaðar síðan. Leiða mætti líkur að því að þetta væri árangur af löndunarbanni á lúðu.
Skráður afli hrapar
Lúðuveiðibannið hafði þau áhrif að skráður landaður lúðuafli hrapaði úr 532 tonnum síðasta árið fyrir bann (2011) í 35 tonn á fyrsta bannárinu. Næstu árin breyttist hann lítið en síðustu árin hefur hann verið í kringum 100 tonnin.
Sá lúðuafli sem á land kemur skal seldur á fiskmarkaði og renna aðeins 20% andvirðisins samanlagt til útgerðar og áhafnar, en hitt er gert upptækt að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði. Það á því ekki að vera nein sérstök hvatning fyrir sjómenn og útgerð að hirða lífvænlega lúðu í stað þess að sleppa henni.
Að sögn Hafrannsóknastofnunar hafa rannsóknir sýnt að hlutfall þeirrar lúðu sé hátt sem lifir af við að veiðast en er sleppt aftur. Sérstaklega eigi það við um línu- og krókaveiðar. Hins vegar er ljóst að lúða sem dregin er upp af miklu dýpi, eins og til dæmis á botnvörpuveiðum, á sér ekki mikla lífsvon sé henni sleppt. Til þess að undirstrika það birtu togarasjómenn eitt sinn að gamni sínu lúðu sem reynt var að lífga við með hjartastuðtæki. Skilaboðin voru ótvíræð.
Alls voru seld 94 tonn af lúðu á fiskmörkuðunum á síðasta ári að verðmæti rösklega 40 milljónir króna.
Doríuveiðar Ameríkumanna við Vestfirði
Veiðar á lúðu við Ísland eiga sér ekki mjög langa sögu miðað við veiðar á til dæmis þorski. Lúðuveiðar í atvinnuskyni hér við land hófust árið 1884 þegar bandarískir sjómenn komu á Vestfjarðamið í þessu skyni. Fram að því voru litlar lúðuveiðar stundaðar við Ísland og litu sjómenn sem stunduðu veiðar á þorski, eins og Frakkar, á lúðuna sem pest og köstuðu henni. Íslendingar veiddu þó smávegis af lúðu á þessum tíma til innanlandsneyslu.
Lúðuveiðar Ameríkumannanna við Vestfirði voru stórtækar. Þeir komu hingað á skonnortum sem notaðar voru sem móðurskip. Þar um borð var aflinn saltaður í tunnur, en veiðarnar sjálfar, sem voru línuveiðar, voru stundaðar á smábátum, svonefndum doríum. Ekki eru til tölur um heildarafla Bandaríkjamanna á Íslandsmiðum á tímabilinu 1884–1898, þegar þeir stunduðu þessar veiðar hér við land, en í samantekt Kristjáns Kristinssonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, um lúðuveiðar er áætlað að afli þeirra upp úr sjó hafi numið 20–25 þúsund tonnum á þessu tímabili. Meðan á veiðunum stóð höfðu Bandaríkjamennirnir bækistöð á Þingeyri. Eins og nærri má geta olli vera hundruða aðkomumannanna nokkrum titringi. Bæði voru þeir sakaðir um rányrkju á fiskimiðunum og drykkjulæti í landlegum en ekki síst fór það fyrir brjóstið á heimamönnum þegar útlendingarnir fóru að líta kvenpeninginn á staðnum hýru auga. Nokkur börn fæddust í kjölfarið og út frá þeim er ættbogi hérlendis.
Viðkvæm fyrir mikilli veiði
Árið 1898 lauk lúðuútgerð Bandaríkjamanna hér við land vegna minnkandi afla. Á 20. öldinni var mikil sókn í lúðu en að sögn Kristjáns benda gögn til þess að hún sé viðkvæm fyrir mikilli veiði. Þetta lýsti sér í því að eftir að hámarki í lúðuafla var náð minnkaði aflinn jafnharðan, oft á mjög skömmum tíma. Mestur varð lúðuafli á Íslandsmiðum árið 1907, eða tæplega 8.000 tonn. Allt fram að seinni heimsstyrjöld veiddu Englendingar mest þjóða af lúðu á Íslandsmiðum en auk þeirra veiddu Skotar, Þjóðverjar og Norðmenn talsvert af lúðu hér við land.
Árlegur afli Íslendinga sjálfra af lúðu var aðeins nokkur hundruð tonn frá aldamótunum 1900 og fram að fyrri heimsstyrjöld en á bilinu 1.000–2.000 tonn á árabilinu 1940–1994. Eftir það hefur hann verið undir 1.000 tonnum og var í kringum 500 tonn á árunum fyrir lúðuveiðibannið sem tók gildi árið 2012. Nú er hann um 100 tonn eins og áður sagði. Komandi ár munu leiða í ljós hversu langan tíma það tekur fyrir lúðustofninn að hjarna við með hjálp lúðuveiðibannsins.