Miltisbruni og merking á gröfum
Höfundur: /Sigurður Sigurðarson dýralæknir
Miltisbruni er bráður smitsjúkdómur, sem er hættulegur fólki og skepnum. Smitefnið er baktería „Bacillus anthracis“. Smitkrafturinn á jörðinni dofnar á fáum mánuðum, líklega fyrir áhrif sólarljóssins. Enginn veit nákvæmlega hve lengi smithættan varir í yfirborði en niðri í jörðinni,virðist smitefnið lifa með fullum krafti í dvalargróum nær endalaust. Dæmi eru um erlendis að smitefni hafi lifað í 550 ár. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vita, hvar grafnar hafa verið skepnur, sem drápust úr sjúkdóminum til að afstýra jarðraski og tryggja sem best friðun hættulegra svæða og bletta til framtíðar.
Hrossabeit á sýktum svæðum getur verið varasöm
Síðast kom miltisbrandur upp og drap fjögur hross á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd árið 2004. Menn ætla að smitið hafi geymst þar 130 ár í líkamsleyfum stórgripa, sem grafnir voru í sjávarkambi á bænum, sem sjórinn braut niður og dreifði yfir beitiland hrossanna. Um leið og komið er niður úr gróðurhulunni getur smithætta magnast. Það sést í öðrum löndum þar sem smitmagn er mikið, að stórrigningar, sem hreyfa jarðveg geta hleypt af stað miltisbruna. Þiðnun á sífrera hefur komið af stað miltisbrunafaraldri í Síberíu. Hrossabeit á sýktum stöðum, sem gengur nærri jörðinni, þar sem flög myndast, getur þess vegna verið varasöm og hleypt af stað sýkingu. Allt jarðrask, svo sem byggingar, vegalagning og línulagnir eða jarðvinnsla og nauðbeit skepna á slíkum stöðum er hættulegt og nauðsynlegt að fylgjast vel með því sem upp kemur við slíkar framkvæmdir, ef þær eru óumflýjanlegar, því að trúlega er smithætta á fleiri stöðum en nú er vitað og hætta er af líkamsleifum sem upp koma við gröft eða jarðrask er mikil fyrir skepnur og fólk, ekki síst börn.
Sagnir af miltisbrandi
Næst á undan Sjónarhóli kom upp miltisbrandur árið 1965 á Þórustöðum í Ölfusi. Þar höfðu verið grafnir skurðir og ræktað upp land á gömlu mógrafasvæði, en í slíkar grafir var til siðs að fleygja skepnum sem drápust. Óljósar sagnir eru um að um 60–70 árum fyrr hafi verið fargað sýktri hjörð á bænum, henni líklega fleygt í mógrafirnar og reynt að sótthreinsa með leskjuðu kalki, sem dreift var yfir hræin.
Sótthreinsun með slíku efni hefur engin áhrif á miltisbrand. Í þetta nýræktaða land var sáð fóðurkáli fyrir kýr. Skömmu eftir að kýrnar komu á kálið, sem líka var slegið og borið fyrir kýrnar fóru þær að veikjast. Sex kýr drápust, fleiri veiktust og þrír menn á bænum fengu drepkýli á útlimi af snertingu við sýkingarefnið. Þeir læknuðust. Davíð Gíslason læknir var þá starfandi á svæðinu nýkominn úr framhaldsnámi og þekkti einkennin strax. Það skiptir höfuðmáli að grípa strax til varna gegn slíkum sjúkdómi, sem er bráður og lífshættulegur, einkum ef hann festir rót á hálsi eða höfði manna. Jón Guðbrandsson dýralæknir stjórnaði aðgerðum gegn veikinni á bænum af fagmennsku og skörungsskap. Hann gekk um svæðið, þegar veikindin stóðu yfir og fann dýrabein með áklesstu kalki á víð og dreif í yfirborðinu og moldinni.
Nokkrar kýr drápust úti og voru grafnar á svæðinu áður en men áttuðu sig á því, hver orsök sjúkdómsins var. Þetta svæði sunnan bæjar á Þórustöðum er stórt eða um hálfur hektari og gjörsýkt vegna þess að þar hafa verið grafnar þrjár kýr sem talið er víst að hafi drepist úr miltisbrandi. Þar liggja þær enn. Ekki er vitað nákvæmlega, hvar þær liggja og beinadreif er nálægt yfirborði, sem ætla má að geymi smitefni miltisbrands.
Því miður hefur fyrir vanþekkingu verið beitt hrossum á þetta gjörsýkta svæði og á blettum er land þar nauðbitið. Nú hafa hrossin sem betur fer verið flutt burt fyrir fáum dögum og vonandi munu þau ekki sýkjast, en nokkurn tíma getur tekið að kalla fram sjúkdóminn, þótt hann sé oftast bráður. Bein sem kynnu að vera í yfirborðinu gætu verið hættuleg fyrir hunda, sem rápa um svæðið og fyrir börn, ef ekki er hafður vari á og umferð um svæðið takmörkuð eins og unnt er öll og notkun landsins bönnuð til allra hluta.
Um 150 miltisbrandsgrafir á landinu
Sigurður dýralæknir og Ólöf Erla kona hans verða á ferð um landið í sumar og haust til að merkja grafir, sem vitneskja hefur fengist um nýlega. Allir staðir verða merktir á varanlegri hátt en áður. Alls eru á landinu um 150 miltisbrunagrafir á um 100 bæjum. Í sumum tilfellum er óvíst, hvort raunveruleg miltisbrunasýking var til staðar, en vissara hefur þótt að merkja alla þá staði, sem líkur eru á slíkri sýkingu í jörð, þótt ekki hafi sönnun um miltisbrand verið við komið. Áletrun á alla stólpana er varanlegri en fyrr. Notaðar eru plötur úr ryðfríu stáli og þær festar með draghnoðum. Sjálflýsandi límborðar eru einnig settir á alla stólpa.
Fjöldi styrktaraðila
Ýmsir styrkja þetta verkefni. Hjartans þökk. Það hjálpar okkur Ólöfu af stað. Bifreiðar og landbúnaðarvélar leggja til tvídrifa bíl og N1 leggur til eldsneyti allt fyrir tilverknað Guðna Ágústssonar fyrrum landbúnaðarráðherra, sem hefur fullan skilning á nauðsyn þessa verkefnis. Önnur stjórnvöld hafa haft heldur hægt um sig í þessu máli enn sem komið er, þótt eftir hafi verið leitað. Vonandi breytist það. Baldur Baldursson BB-Skilti ehf. hefur gengi fram af krafti við að styðja þetta verkefni af stað með því að útbúa merki og límborða. Hann hefur og fengið ýmsa aðra góða menn og fyrirtæki til að styðja það: Micro ryðfrí sérsmíði, Wurth, Verkfæralagerinn, Arkir ehf, Lækur í Ölfusi. Björn Jensen rennismiður Selfossi hefur lánað rafmagnsborvél og draghnoðatöng o.fl.
Fjölmargir fleiri hafa lýst ánægju sinni og hafa góðan hug til þessa verkefnis sem ég þakka og bið vel að virða, hafi ég gleymt einhverjum.