Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Nautgriparæktin, sauðfjárræktin og garðyrkjan eru með sérstaka samninga um sinn stuðning. Áherslur þessara búgreina hafa verið á aukið fjármagn inn í búvörusamninga í ljósi þeirra miklu aðfangahækkana sem orðið hafa síðustu misseri.
Nautgriparæktin, sauðfjárræktin og garðyrkjan eru með sérstaka samninga um sinn stuðning. Áherslur þessara búgreina hafa verið á aukið fjármagn inn í búvörusamninga í ljósi þeirra miklu aðfangahækkana sem orðið hafa síðustu misseri.
Mynd / smh
Af vettvangi Bændasamtakana 28. ágúst 2023

Á hverju byggir samtalið?

Höfundur: Unnsteinn Snorri Snorrason

Í núgildandi búvörusamningum er tiltekið að síðari endurskoðun eigi að fara fram á árinu 2023. Formlegar viðræður hófust seinni partinn í mars 2023 og við upphaf sumars var búið að funda um áherslumál allra búgreina sem aðkomu eiga að búvörusamningum. Bændasamtökin hafa lagt upp í viðræðurnar annars vegar á þeim lagalega ramma sem búvörusamningar byggja á og hins vegar út frá áherslum stjórnvalda sem koma m.a. fram í stjórnarsáttmála, landbúnaðarstefnu og fjármálaáætlun 2024-2028.

Bændasamtökin gengu til endurskoðunar á búvörusamningum á þeim forsendum að landbúnaður sé ein af grunnstoðum íslensk samfélags, og að meginhlutverk atvinnugreinarinnar sé framleiðsla á fjölbreyttum búvörum með áherslu á að byggja undir grunn fæðuöryggis, styrkja áfallaþol samfélagsins, viðhalda matvælaöryggi og stuðla að sjálfbærni.

Hér má sjá yfirlit yfir helstu aðgerðir.

Búvörulög

Búvörulög leggja grunn að starfsskilyrðum landbúnaðarins. Eitt af meginmarkmiðum búvörulaga er að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í framleiðslu, vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.

Í búvörulögum segir enn fremur að kjör þeirra sem stunda landbúnað skuli vera í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta.

Þetta hefur verið eitt af leiðarljósum í kröfum BÍ við endurskoðun samninganna.

Búvörusamningar

Búvörusamningar eru gerðir á grundvelli búvörulaga og er með samningunum heimilt að semja um framleiðsluskilyrði, stuðning og stjórn á magni búvara. Í samræmi við búvörulögin eru það Bændasamtökin sem fara með fyrirsvar framleiðenda.

Í markmiðum búvörusamninga kemur fram að bændur skuldbinda sig til að framleiða landbúnaðarafurðir og að sameiginlegt markmið bænda og ríkisvaldsins er að stuðla að þróun atvinnugreinarinnar. Þá ber ríkinu að tryggja afkomu bænda og starfsskilyrði í landbúnaði.

Þjóðaröryggisstefna

Markmið þjóðaröryggisstefnu er að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.

Hún felur m.a. í sér að stjórnvöldum ber að vernda mikilvæga innviði og styrkja áfallaþol samfélagsins út frá fæðu- og matvælaöryggi. Alþingi hefur einnig í sömu stefnu sett sér það markmið á alþjóðavettvangi að berjast gegn hungri.

Áherslur stjórnvalda

Við upphaf samningaviðræðna gerðu Bændasamtökin ráð fyrir því að áherslur stjórnvalda myndu byggja á því sem kemur fram í stjórnarsáttmála og nýlega sam- þykktri landbúnaðarstefnu til ársins 2040 og að þær áherslur myndu endurspeglast í fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028. Það er hins vegar ekki endilega raunin en í fjármálaáætluninni er ekki gert ráð fyrir frekari framlögum í búvörusamninga.

Hefur þessi afstaða stjórnvalda komið fulltrúum bænda verulega á óvart enda telur BÍ það ekki vera í samræmi við búvörulög eða stjórnarsáttmálann. Auk þess sem slík nálgun er ekki líkleg til árangurs eigi að ná markmiðum nýsamþykktrar landbúnaðarstefnu til ársins 2040.

Stjórnarsáttmáli

Í stjórnarsáttmála má finna eftirfarandi áherslur varðandi landbúnað:

Sett verða metnaðarfull markmið um að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi. Með öflugri, innlendri matvælaframleiðslu er stuðlað að heilnæmi matvara og auknu matvælaöryggi til að viðhalda góðri stöðu Íslands varðandi sýklalyfjaónæmi. Tryggja þarf framhald aðgerðaáætlunar um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Við endurskoðun búvörusamninga verður lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda land- búnaðarframleiðslu. Stuðningur hins opinbera verður samhæfður með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Aukinni framleiðslu á grænmeti verður náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar og sérstökum stuðningi við útiræktun í gegnum búvörusamninga. Mótuð verður heildstæð, tímasett aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu og akuryrkju.

Ein af megináherslum garðyrkjunnar snýr að því að hætta að binda beingreiðslur C (niðurgreiðsla á rafmagni) við pott heldur festa fjármagn til endurgreiðslu við 95%.

Landbúnaðarstefnan

Þann 1. júní síðastliðinn urðu tímamót þegar Alþingi samþykkti í fyrsta skipti þingsályktun um landbúnaðarstefnu, en þeirri stefnu er ætlað að móta stefnu fyrir atvinnugreinina til ársins 2040. Landbúnaðarstefnan er sett með því meginmarkmiði að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Jafnframt kemur fram í stefnunni að framtíðarsýn í landbúnaði taki meðal annars til samfélags og samkeppnishæfni sem felst til að mynda í því að:

  • tryggja fæðuöryggi og að landnotkun utan þéttbýlis feli í sér vernd góðs landbúnaðarlands
  • að framleiðsla verði arðbær og samkeppnishæf og tryggi byggðafestu og uppbyggingu þekkingar í samfélagi
  • að eðlileg nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verði tryggð.

Í landbúnaðarstefnunni eru tíu meginviðfangsefni í 32 liðum sem samþykkt eru af Alþingi til að ná fram framtíðarsýninni. Sem dæmi um þessi viðfangsefni má nefna eftirfarandi atriði:

  • Skilgreindar lágmarksbirgðir matvæla verði í landinu á hverjum tíma, sem og aðföng til framleiðslunnar.
  • Við töku ákvarðana um landnotkun verði fæðuöryggi þjóðarinnar haft að leiðarljósi.
  • Styrktar verði stoðir fjárhagslegrar afkomu framleiðenda sem einnar af undirstöðum fæðuöryggis.
Áherslur Bændasamtakanna

Áherslur BÍ í viðræðum við stjórnvöld snúa fyrst og fremst að beinum stuðningi við bændur.

Einnig hefur verið lögð áhersla á atriði sem tengjast tollvernd og almennu starfsumhverfi landbúnaðar.

Yfirlit yfir helstu aðgerðir má sjá á töflu hér til hliðar.

Áherslur búgreinanna

Nautgriparæktin, sauðfjárræktin og garðyrkjan eru með sérstaka samninga um sinn stuðning.

Áherslur þessara búgreina hafa verið á aukið fjármagn inn í búvörusamninga í ljósi þeirra miklu aðfangahækkana sem orðið hafa síðustu misseri.

Það er mat BÍ að full þörf sé á sambærilegum aðgerðum á þessu ári eins og ráðist var í árið 2022 með sértækum stuðningi við landbúnaðinn (sprettsgreiðslur). Einnig liggur fyrir krafa um að endurskoða verðlagsgrundvöll hjá kúabændum og sauðfjárbændum.

Ein af megináherslum garðyrkjunnar snýr að því að hætta að binda beingreiðslur C (niðurgreiðsla á rafmagni) við pott heldur festa fjármagn til endurgreiðslu við 95%.

Aðrar búgreinar hafa aðkomu að endurskoðun búvörusamninga í gegnum rammasamning auk þess sem hver og ein búgrein hefur lagt fram áhersluatriði sem lögð hafa verið til grundvallar í samtali við stjórnvöld.

Í raun má segja að megináherslur allra búgreina snúist að því að horfa til afkomu þeirra.

Aðgerðaáætlun til 5 ára á grundvelli landbúnaðarstefnunnar

Bændasamtökin hafa kallað eftir því við matvælaráðuneytið að fimm ára aðgerðaáætlun á grundvelli landbúnaðarstefnunnar líti dagsins ljós. Slík aðgerðaáætlun þarf að vera með sama sniði og byggðaáætlun þar sem eru skýr markmið, aðgerðir sem eru að fullu fjármagnaðar í fjárlögum og ábyrgð verkefna skýrt skilgreind.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...