Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Eiginleikar forystufjár hafa takmarkaða hagnýta þýðingu sem stendur í fjárbúskap. Ræktun þess verður því hugsjónastarf sem virðist góðu heilli veita fjölda eiganda þess verulega ánægju.
Eiginleikar forystufjár hafa takmarkaða hagnýta þýðingu sem stendur í fjárbúskap. Ræktun þess verður því hugsjónastarf sem virðist góðu heilli veita fjölda eiganda þess verulega ánægju.
Mynd / Tjörvi Bjarnason
Lesendarýni 6. desember 2022

Hugleiðingar um verndun íslenska forystufjárins

Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson og Ólafur R. Dýrmundsson, sjálfstætt starfandi búvísinda- menn sem hafa komið lengi að verndun og ræktun forystufjár.

Íslenska forystuféð er einstök erfðaauðlind. Hliðstæðu þess er hvergi að finna í heiminum. Á okkur hvílir því veruleg ábyrgð gagnvart öllum um varðveislu þess. Ræktendur fjárins hafa staðið vel að varðveislu þess þannig að hún er lýsandi dæmi um það sem best hefur verið gert í heiminum í hliðstæðum málum.

Eiginleikar forystufjár hafa takmarkaða hagnýta þýðingu sem stendur í fjárbúskap. Ræktun þess verður því hugsjónastarf sem virðist góðu heilli veita fjölda eigenda þess veru­ lega ánægju. Slík erfðaauðlind gæti öðlast hagnýtt gildi í framtíðinni.

Höfundar þessarar greinar ásamt samstarfs­mönnum unnu mjög ítarlegt yfirlit um stöðu stofnsins fyrir rúmum tíu árum og birtu í Náttúrufræðingnum árið 2015. Í framhaldi þess var forystuféð loksins skilgreint sem sérstakt búfjárkyn árið 2017. Þar voru einnig birtar margar hugmyndir um þróun stofnsins á næstu árum og ábendingar til að tryggja betur farsæla þróun kynsins áfram.

Umsjón ræktunarinnar á forræði RML

Því miður eru engar nýrri upplýsingar að styðjast við um forystufjárkynið en umsjón ræktunar þess er nú á forræði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, RML. Það eina sem þar virðist hafa verið gert er samþykkt ræktunaráætlunar stofnsins, sem samt þarfnast endurskoðunar um nokkur grundvallaratriði að okkar mati. Í skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar var það skilið frá íslenska fénu sem var löngu tímabært skref. Það átti að skapa góða möguleika til að birta yfirlit, fjöldatölur og fleira á hverju ári um forystuféð sem ómetanlegt væri að hafa handbært núna. Frá stofnuninni hefur hins vegar ekkert birst. Við minnum á tillögur annars höfundar greinarinnar að umsjón skýrsluhaldsins yrði færð nær ræktendum sjálfum að Forystufjársetrinu í Þistilfirði. Sú tillaga hefur ekki fengið neinn hljómgrunn. Hjá setrinu er reyndar vilji og geta til að sinna þessum málum. Í staðinn hafa þau lent í algerum undandrætti hjá RML enda litið á það þar sem hreint aukaverkefni, sem við þekkjum frá fyrri störfum okkar að gerist oft hjá opinberum og hálfopinberum stofnunum.

Blikur á lofti

Í rannsóknum okkar kom skýrt fram að ræktun stofnsins virtist vera í ótrúlega góðum farvegi gagnvart sjálfbæru viðhaldi hans. Við teljum okkur hins vegar sjá fjölmörg óveðurský, ógnanir sem geti á örskömmum tíma valdið hruni stofnsins verði ekki brugðist hratt við og eitthvað gert. Bent skal á örfá atriði.

Farin er á stað hraðari fækkun fjárbúa í landinu en líklega nokkru sinni áður. Því fylgir um leið tilsvarandi fækkun forystufjárins. Tölurnar eiga að vera til hjá RML að samdrátturinn er umtalsverður. Notkun sæðinganna er lykilatriði um sjálfbært viðhald stofnsins ekki síst ef í honum fækkar hratt. Meginatriðið er að sæðingar með forystuhrútunum eru orðnar alltof fáar síðustu árin.

Við teljum það brýnasta úrlausnarverkefnið núna að taka afstöðu til hvaða afstöðu eigi að taka til ræktunar á mótstöðu hjá sauðfé í landinu gegn riðuveiki. Afstaða í þessu máli getur á skömmum tíma skilið á milli um farsæla framtíð eða útrýmingu forystufjárins. Að því viljum við víkja nokkrum orðum hér á eftir.

Því miður eru mörg fleiri teikn á lofti en þetta eru þau veigamestu að okkar viti.

Trúi menn á framtíð forystufjárins þá hafa margir gælt við þá hugmynd að það eigi erindi til annarra landa með útflutningi.
Ræktun mótstöðu gegn riðuveiki

Hér viljum við ræða aðeins nánar síðasta atriðið sem virðist það brýnasta að bregðast við. Góðu heilli fundust arfgerðir hjá íslensku sauðfé sem talið er að geti veitt fullkomna vernd gegn riðuveiki. Starfshópur um málið hefur unnið mikið og gott starf um að kanna útgreiðslu genanna, reyna að mæla áhrif þeirra og gera áætlun um dreifingu þeirri meðal sauðfjár hér á landi á næstu árum þar sem sæðingar fá lykilhlutverk. Þarna hefur vel verið unnið. Óteljandi spurningum virðist samt ósvarað um það hvernig brugðist verður við ef og þegar ógnvaldurinn birtist í nýjum hjörðum á komandi árum.

Hér þarf að taka ákvarðanir um hvernig bregðast á við í þessu máli fyrir forystuféð. Á að halda forustufénu hreinu eða á að færa verndandi genin inn í kynið? Á Bretlandi þar sem fram komu litlir stofnar með verndargildi þegar þessi mál komu þar upp var lagt til að tekin væri sú stefna að halda ræktun þeirra áfram án innblöndunar. Á hliðstæðri ákvörðun teljum við ýmsa annmarka. Eins og segir veit enginn enn hvernig þessi mál þróast hér á landi. Hugsanlega verður lögboðið á næstu árum að genunum verði komið í allt fé í landinu. Yrði svo er valið ekkert vegna þess að forystuféð er nánast undantekningalaust að finna blandað í stærri hjarðir af íslensku sauðfé. Trúi menn á framtíð forystufjárins þá hafa margir gælt við þá hugmynd að það eigi erindi til annarra landa með útflutningi. Því viljum við trúa en áreiðanlega verður örðugra að vinna að því í framtíðinni vegna þróunar í þessum málum erlendis verði genunum ekki komið inn í stofninn.

Ræktendur fjárins hafa staðið vel að varðveislu þess þannig að hún er lýsandi dæmi um það sem best hefur verið gert í heiminum í hliðstæðum málum.

Hvað gert verður eiga forystufjárræktendur sjálfir að ákveða. Þeir þurfa að efla samtök sín en grunn þeirra er þegar að finna í Forystufjárræktarfélagi Íslands sem þeir verða nú að stórefla til að takast á við þessa spurningu. Um leið eiga þeir að efla samstöðu sína um Forystufjársetrið og vinna að því að stjórnsýsla mála sem varða þetta einstaka fjárkyn færist í framtíðinni þangað eða til félagsins eftir eðli mála. Með því að færa þau þannig nær ræktendum sjálfum er stuðlað að farsælli lausn þeirra til frambúðar.

Móflekkótti forystuhrúturinn Fjalli frá Hárlaugsstöðum. Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir

Sérstök aðgerðaáætlun

Verði ákveðið að koma genunum inn í kynið í framtíðinni þarf að vinna sérstaka aðgerðaáætlun. Í slíkri áætlun verður að taka tillit til sérstöðu kynsins, örlítill stofn og mikið dreifður. Öll þekking til þess á að vera fyrir hendi. Þar koma hinar nýju greiningaratferðir að ómetanlegu gagni. Auðvelt á að vera að rækta hratt önnur gen en þau verndandi út úr forystufjárstofninum. Við þekkjum að víða þarf ekki að leita mjög langt aftur í ættir eftir blöndun við íslenskt sauðfé án þess að nokkur einkenni frá innblönduninni verði greind.

Séu ábendingar okkar réttar bíður erfðanefndar landbúnaðarins að meta hvort ekki sé þörf á sérstakri verndaráætlun fyrir íslenska forystuféð. Það er lögbundið hlutverk hennar. Fram til þessa hefur aldrei verið metin þörf á slíkum aðgerðum hér á landi. Hér er of mikið í húfi til að aðgerðaleysi verði réttlætt.

Skylt efni: sauðfjárrækt | forystufé

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...