Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Tækifærin í áskorununum
Mynd / Áskell Þórisson
Lesendarýni 13. janúar 2022

Tækifærin í áskorununum

Höfundur: Vaka Sigurðardóttir, stjórnarmaður Kúabænda BÍ.

Undanfarið hafa orðið töluverðar hækkanir á aðföngum bænda og hefur áburður verið þar sérstaklega áberandi. Talað er um að köfnunarefnisáburður hækki jafnvel um hundruð prósenta en kalí og fosfór eitthvað minna. Þetta helgast meðal annars af hækkandi orkuverði í Evrópu en það þarf mikla orku í að framleiða köfnunarefni.

Afleiðingin hefur verið sú að áburðarfyrirtæki erlendis hafa lokað verksmiðjum því að það borgar sig ekki eins og stendur að framleiða. Hin áburðarefnin eru að mestu leyti unnin úr námum og hafa því ekki hækkað eins mikið.

En áburðurinn er ekki það eina sem hækkar. Plast hefur hækkað um 30-40%, ekki er vitað hvað kjarnfóður mun hækka mikið en það er þó alveg ljóst að það verður þónokkuð miðað við allt hitt. Hægt væri að halda töluvert lengur áfram á þessari braut því að allt virðist vera að hækka. Það er því alveg ljóst að á sama tíma og við erum að í miðri baráttu við loftslagsvána gætum við verið að stefna hraðbyri inn í alþjóðlega matvæla- og aðfangakreppu. Spurningin er, hvað getum við gert?

Nágrannaþjóðir hafa brugðist við þessum aðfangahækkunum og ákveðið að koma til móts við landbúnaðinn með auknum niðurgreiðslum. Svandís Svavarsdóttir, nýr landbúnaðar-ráðherra, lagði til að 700 milljónir úr ríkissjóði kæmu til móts við hækkandi áburðarverð hjá bændum og var það samþykkt af Alþingi rétt fyrir jól. Það verður að teljast mjög skynsamleg leið í þessu kreppuástandi því að bændur þurfa auðvitað að vera með starfhæfar einingar til að geta framleitt hágæða matvæli án þess að verðið til neytenda rjúki upp.

Aukið fæðuöryggi með aukinni sjálfbærni

Sagan ætti að vera búin að kenna okkur mikilvægi þess að vera eins sjálfbær og við framast getum en þegar vel gengur er eins og það gleymist, eins og fæðuöryggi sé sjálfsagt. Það skiptir höfuðmáli, hvort sem við erum í kreppu vegna afleiðinga heimsfaraldurs, gríðarlegar hækkanir á orkuverði í Evrópu setji allt á hvolf eða hvort allt sé í blóma í heimsmálunum, að við séum sem mest sjálfbær. Eitthvað hefur skort á framsýnina í þeim málum, svo ég nefni nú bara áburðarverksmiðju. Sú gamla var sannarlega úr sér gengin og á óheppilegum stað, en hvers vegna er ekki löngu komin ný og á betri stað?

Fluttar hafa verið þingsályktunartillögur um nýja áburðarverksmiðju undanfarin ár sem ekki hafa náð fram að ganga, sem er synd því að mikið væri gott að hafa eina slíka starfandi núna. Því gladdi það mig mjög þegar ég las nýlega áform um að reisa áburðarverksmiðju á Reyðarfirði og óska ég forsvarsmönnum verkefnisins alls hins besta. Til að framleiða köfnunarefni, sem er stærsti hluti tilbúins áburðar, þarf vatn, loft og rafmagn og það eigum við.

Það þarf líka að setja meiri fjármuni og kraft í ræktun, þá sér í lagi kornræktun, því að við getum ræktað töluvert meira af því hérlendis en við gerum í dag og stuðlað með því að aukinni sjálfbærni og fæðuöryggi. Ekki má gleyma fóðurjurtunum, þar getum við gert betur með auknum tilraunum og kynbótum. Með því náum við fram aukinni fjölbreytni af fóðurjurtum sem henta betur hér á landi. Það skiptir miklu máli fyrir okkur öll og framtíðina.

Betri nýting búfjáráburðar 

En hvað getum við bændur gert hér og nú, heima á búunum? Auðvitað eru aðstæður mismunandi á hverjum stað fyrir sig, en bara með niðurfellingarbúnaði fyrir búfjáráburð eykst nýtingin á köfnunarefni um 10-15%. Haughúsgeymslur skipta miklu, að það sé nóg rými til að hægt sé að dreifa á túnin á sem hagstæðustum tíma. Taka jarðvegssýni  og kalka ef þess þarf, rétt sýrustig í jarðvegi eykur endingu á sáðgresi. Fara í kornrækt sé þess kostur. Skella sér í stæðugerð. Auðvitað kosta svona framkvæmdir þó nokkuð en þær miða að því að draga úr plast- og áburðarnotkun, þar sparast fjármunir til lengri tíma litið og umhverfið nýtur góðs af. Ákjósanlegast væri að fá sértækan fjárfestingarstuðning til að koma þessu á koppinn. Þetta eru bara nokkur dæmi og ég er viss um að bændur og ráðunautar lumi á mörgum hugmyndum til viðbótar.

Það eru því miður engar töfralausnir við þessu ástandi sem er að skapast um heiminn, afleiðingar Covid-19 eru óútreiknanlegar. En auðvitað látum við ekki hugfallast, þetta er verkefni eins og annað, og mun leysast. Oft þegar kreppir að koma fram mestu framfarirnar, kannski nýjar lausnir til að búa til köfnunarefnisáburð heima á bæjum, hvað veit maður. Eitt er víst að tækifærin eru víða – og leynast jafnvel stundum í áskorununum sjálfum.

Ég óska ykkur gæfu, gleði og góðrar heilsu á nýju ári, megi ykkur búnast sem allra best.

 

Nýárskveðja,
Vaka Sigurðardóttir,
stjórnarmaður Kúabænda BÍ.

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...