Bændablaðið og Morgunblaðið verðlaunuð fyrir umfjöllun um loftslagsmál
Í úttekt sem Creditinfo gerði fyrir hópinn París 1,5, á umfjöllun fjölmiðla um loftslagsmál, kemur fram að hlutfall frétta Bændablaðsins um þau mál er hæst þegar fjölmiðlaefni þessa árs er skoðað. Morgunblaðið hefur hins vegar birt flestar fréttir um loftslagsmálin eða samtals 120.
Úttektin náði til aðalfréttatíma sjónvarps og útvarps, stærri dag- og vikublaða og stærstu netmiðla. Hlutfalla frétta um loftslagsmál í Bændablaðinu var 3,2 prósent. Á tímabilinu voru alls 197.743 fréttir vaktaðar í úttekt Creditinfo og fjölluðu 823 af þeim um þessi málefni eða 0,42 prósent.
París 1,5 er baráttuhópur um að Ísland geri sitt til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C, og heitir eftir ráðstefnu sem haldin var í París í desember 2015. Þá gerðu þjóðir heims sögulegan sáttmála um að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum með það að markmiði að meðalhitahækkun jarðar fari ekki yfir 1.5°C og haldist innan við 2°C miðað við hitann á jörðinni fyrir iðnvæðingu. Hitastigshækkunin er nú talin vera 0,87°C.