Í sameiningarhugleiðingum
Forsvarsmenn Árneshrepps vilja nú skoða mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög.
Hreppsnefnd samþykkti nýverið einróma að lýsa yfir vilja til viðræðna við önnur sveitarfélög um sameiningu. Í ályktun segir að „mikil umræða hafi átt sér stað um sameiningu sveitarfélaga síðustu ár. Ýmsir möguleikar hafa verið skoðaðir sem þó hafa ekki enn leitt til niðurstöðu í stærra samhengi. Vegna fámennis sveitarfélagsins hefur Árneshreppur ekki haft frumkvæði að viðræðum við önnur sveitarfélög.“
Óskar hreppsnefnd eftir að fá að fylgjast með sameiningarþreifingum hjá nágrannasveitarfélögum.
Íbúar í Árneshreppi hafa undanfarið verið rétt rúmlega fjörutíu talsins.
Eva Sigurbjörnsdóttir er oddviti Árneshrepps, sem er nyrsta sveitarfélagið í Strandasýslu og afar landmikið. Í suðri nær hreppurinn frá Spena undir Skreflufjalli á milli eyðibýlanna Kaldbaks og Kolbeinsvíkur og að norðanverðu að Geirólfsgnúpi fyrir norðan Skjaldabjarnarvík. Átta sveitarfélög eru á Vestfjörðum auk Árneshrepps; Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvík og Súðavík.