Ísteka stefnir ríkinu
Ísteka hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna ákvörðunar matvælaráðherra um að fella alla starfsemi félagsins tengda blóðnytjum úr fylfullum hryssum undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni.
Í ákvörðun matvælaráðherra felst að sú reglugerð sem átti við um starfsemina, nr. 900/2022 um blóðtöku úr fylfullum hryssum, var felld úr gildi og ákvörðun tekin um að framvegis myndi áðurnefnd reglugerð nr. 460/2017 um dýratilraunir gilda um starfsemina. Umrædd reglugerð felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni (2010/63/ESB).
Ísteka var tilkynnt um ákvörðun matvælaráðherra í september á síðasta ári. Ísteka krefst þess nú fyrir dómi að viðurkennt verði að ákvörðun matvælaráðherra hafi verið óheimil.
„Félagið byggir einkum á því að starfsemi tengd blóðnytjum úr fylfullum hryssum feli ekki í sér dýratilraun heldur sé landbúnaðarframleiðsla til afurðanýtingar sem hafi verið framkvæmd með óbreyttum hætti til áratuga,“ segir Peter Dalmay, lögmaður Ísteka í málinu.
Peter segir að reglugerð um dýratilraunir eigi samkvæmt efni sínu ekki við um starfsemina og því hafi matvælaráðherra skort lagaheimild til þess að fella hana þar undir. Ákvörðun ráðherra feli jafnframt í sér íþyngjandi höft á stjórnarskrárvörðu atvinnufrelsi félagsins sem hefði þurft að byggja á málefnalegum forsendum, auk þess sem meðalhófs hafi ekki verið gætt við töku ákvörðunarinnar og gengið mun lengra en nauðsyn hafi borið til.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á að mál Ísteka fái flýtimeðferð. Málið var þingfest í gær, 7. febrúar, og var ríkinu veittur frestur til þess að taka til varna.