Örplast í matvælum
Nýverið voru birtar niðurstöður frumrannsóknar þar sem kannað var hvort plast fyndist í búpeningi í Hollandi.
Við rannsóknarvinnuna fannst örplast í sýnum sem voru tekin úr kjöti, blóði og mjólk. Einnig voru tekin sýni úr gróffóðri og kjarnfóðri sem innihéldu örplast. Rannsóknin var framkvæmd af vísindamönnum við Frjálsa háskólann í Amsterdam.
Fram að þessu hafði ekki verið kannað hvort örplast sé að finna í áðurgreindum landbúnaðarvörum, því er þetta fyrsta rannsóknin sem sýnir þessar niðurstöður.
Vísindamennirnir beindu ekki sjónum sínum að því með hvaða leið örplastið ratar í þau sýni sem voru tekin eða hvort það hefði einhver skaðleg áhrif, heldur var markmiðið það eitt að athuga hvort það væri til staðar.
Rannsóknaraðilarnir taka fram að þörf sé á frekari rannsóknum á þessu sviði, en þessar fyrstu niðurstöður veki ákveðinn ugg.