Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ríkisstjórnarflokkarnir verða að svara!
Mynd / HKr.
Lesendarýni 28. mars 2019

Ríkisstjórnarflokkarnir verða að svara!

Höfundur: Ögmundur Jónasson

Komin er upp sérkennileg staða á Íslandi varðandi framtíðarskipulag orkubúskaparins. Af hálfu ríkisstjórnar landsins stendur til að keyra í gegnum Alþingi nokkuð sem kallast orkupakki þrjú en hann er þriðja varðan á leið Evrópusambandsins til markaðsvæðingar orkuauðlindarinnar. 

Orkupakki eitt var lögleiddur á Íslandi 2003 og orkupakki tvö árið 2007, í bæði skiptin gegn mótmælum og það sem meira er, síðar kom fram eftirsjá hjá ýmsum þeirra sem knúðu þetta í gegn, enda alltaf að koma betur og betur í ljós hvert þetta raunverulega leiðir: Orkan á leið í hendur fjárfesta á markaði.   

Varða fjögur hefur þegar verið hlaðin og á sá pakki eftir að koma inn á borð löggjafans fyrr en síðar ef þetta ferðalag verður ekki stöðvað. Í fjórða pakka er gert ráð fyrir að ekki verði lengur horft til þjóðríkisins heldur landafræðinnar, óháð ríkjaskipan, þegar hin nýja miðstýrða orkustofnun deilir niður áhrifasvæðum sínum.

Ekkert annað en markaðsvæðing orkunnar

Ögmundur Jónasson.

Þegar hér verður komið sögu mun endanlega vera búið að klippa á naflastrenginn á milli markaðar og lýðræðis. Þegar eru menn komnir vel áleiðis í að sarga í þann streng sem kunnugt er, eins og iðnaðarráðherra áréttaði á aðalfundi Landsvirkjunar nýlega þegar hún sagði að orkupakkarnir væru að sjálfsögðu „ekkert annað en makaðspakkar og sá þriðji er það líka“. Það sem hér er átt við er það stefnumarkmið Evrópusambandsins frá því um miðjan tíunda áratuginn að gera orku að markaðsvöru sem heyrði undir samkeppnislög og þar sem lýðræðislegt inngrip væri ekki heimilað. Dæmi um þetta gæti verið niðurgreidd orka til innlendrar garðyrkju, sem þá yrði túlkað sem markaðsmismunun og brot á samkeppnislögum.  
 

Og hættið að tala um samfélag!

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir iðnaðarráðherra gekk reyndar lengra í framangreindri ræðu sinni hjá Landsvirkjun. Hún notaði tækifærið til að tala niður til áhugamannahóps sem kennir sig við „Orkuna okkar“. Kvaðst hún túlka þá nafngift svo að hópurinn liti á orkuna sem sameign þjóðarinnar „af sama meiði og fiskinn í sjónum“. Það væri mikill misskilningur því að „vatnsafl og jarðvarmi og nýtingarréttur af þeirri auðlind“ heyrði undir einkaeignarrétt og væri því ekki í sameign þjóðarinnar. 

Þetta er vissulega rétt eins langt og það nær en jafnframt er þetta framtíðarsýn sem ríkisstjórnin verður að gera sér grein fyrir að er ekki í samræmi við almennan vilja í landinu. 

Sú krafa hefur ítrekað komið fram, meðal annars frá öðrum baráttuhópi, Seljum ekki Ísland, að íslensk lagaumgjörð verði bætt og löguð til að tryggja þjóðareign á orkunni til frambúðar. Annars verður framtíðarsýn ráðherrans vissulega að veruleika. 

Er þá komið að tilefni þessarar greinar

En til hvers er ríkisstjórnin að innleiða þessa orkupakka? Hún hlýtur að verða að gera okkur grein fyrir því hver ávinningur okkar er af því að undirgangast þessa „markaðspakka“ sem ráðherra kallar réttilega svo. 

Athygli vekur að fram til þessa hafa meintir sigrar ríkisstjórnarinnar í þessu markaðspakkamáli verið fólgnir í því að forða okkur – að hennar sögn – frá ýmsu því versta sem fylgt gætu þriðja pakkanum. Í því skyni hafi verið settir fyrirvarar og slegnir varnaglar. Það gerðu Norðmenn líka af sama tilefni en uppgötvuðu síðar að fyrirvararnir og varnaglarnir voru til lítils nýtir, fyrst og fremst til að sýnast, til að þykjast, rétt á meðan verið var að kaupa frið um málið. 

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG svari

Sú sönnunarbyrði hlýtur að hvíla á ríkisstjórninni að sannfæra okkur um að þessi vegferð sé okkur yfirleitt til góðs. – Hvað segja ráðherrar Sjálfstæðisflokksins um það? – Hvað segja ráðherrar Framsóknarflokksins um það? – Hvað segja ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um það? 

Það dugar ekki að segja að tekist hafi að forða okkur frá allra verstu fylgikvillum pakkans, þið verðið að hugsa stærra fyrir okkar hönd. 

Sönnunarbyrðin hvílir á ykkur

Hvers vegna eruð þið að þessu yfirhöfuð? Þessu verðið þið að svara! Spurningu minni beini ég til ráðherra ríkisstjórnarinnar og alþingismanna. Það er ekkert í EES-samningnum sem knýr ykkur til að gera þetta, ekkert! 

Þetta er því algjörlega á ykkar ábyrgð. Þess vegna verðið þið að sýna fram á að ákvarðanir ykkar séu til framfara og til góðs. Það er lágmarkskrafa að þið sýnið okkur fram á þetta með rökum!

Það er of ódýrt að segja okkur að þetta hefði getað orðið enn verra!

 

Ögmundur Jónasson

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...