Útflutningur á haförnum
Norðmenn hafa aldrei flutt út jafn marga hafarnarunga og í sumar. Samtals voru 35 ungar fluttir út til Evrópulanda.
Í Noregi er stærsti stofn hafarna í Evrópu. Vegna heilbrigðs stofns hafa Norðmenn fangað unga og flutt til annarra í Evrópu sem hafa viljað stækka eða endurvekja kyn hafarna á sínum slóðum. Af þessum 35 ungum sem fóru frá Noregi í ár voru 16 einstaklingar sendir til Írlands og 19 til Spánar, Bondebladet greinir frá.
Ungarnir eru handsamaðir við strandlengjuna í Þrándarlögum og Mæri og Raumsdal. Við eyjuna Frøya, skammt frá Þrándheimi, hefur mestur framgangur verið við að koma höndum yfir ungana þar sem hreiðrin eru gjarnan á jörðu niðri, í stað þess að vera uppi í klettum og trjám. Leitin að heppilegum hreiðrum getur verið tímafrek þar sem krafa er gerð til þess að minnst tveir ungar séu í hverju varpi.