Síberíuþinur (Abies sibirica)
Ein fallegasta barrviðartegundin sem vaxið getur á Íslandi er upprunnin í barrskógabelti Síberíu austan árinnar Volgu.
Útbreiðslusvæðið nær allt norður fyrir 67. gráðu norðlægrar breiddar og liggur um Rússland austan Volgu, Xinjiang-hérað Kína, Kasakstan og fleiri lönd allt austur til Jakútíu. Á sunnanverðu útbreiðslusvæðinu þrífst hún í svölu loftslagi í rökum jarðvegi til fjalla með vatnasvæðum áa og fljóta í um 1.900 til 2.400 metra hæð yfir sjó en á láglendi þegar norðar dregur. Tegundin er kennd við Síberíu í latneska heitinu og líka því íslenska, síberíuþinur.
Þinur þessi er mjög skuggþolinn og stendur af sér mikið frost, allt niður í mínus fimmtíu stig. Hann er því með harðgerustu tegundum sem þekktar eru samkvæmt bandaríska vefnum Conifer Trees Database sem bandaríska barrtrjáasambandið American Conifer Society rekur. Þetta er mjög svo fróðlegur vefur sem geymir miklar upplýsingar um ýmsar tegundir barrviða.
En skyldi tegund sem aðlöguð er meginlandslofti fjarri sjó í Asíu eiga einhverja möguleika á Íslandi þar sem alls staðar er fremur stutt til sjávar og loftslag með því hafrænasta sem þekkist? Ætla mætti ekki, ef skoðaður er árangur af ræktun síberíuþins á Íslandi í árdaga skógræktar á fyrri hluta tuttugustu aldar. Flestir drápust síberíuþinirnir úr sveppsjúkdómnum þinátu – ef þá kól ekki til dauðs – enda nutu þeir ekki skjóls og skugga af eldri trjám og voru útsettir fyrir þeim óteljandi veðrabrigðum sem náttúruöflin efna til á Íslandi.
Síberíuþinur var meðal fyrstu trjátegunda sem reyndar voru í skógrækt á Íslandi. En jafnvel þótt flest trén hafi drepist sem fyrst voru gróðursett eigum við til rúmlega 120 ára gömul eintök bæði í Grundarreit í Eyjafirði og Furulundinum á Þingvöllum. Þessi elstu tré hafa svolítið fjölgað sér með sveiggræðslu. Yfirleitt eru afföll af gróðursettum síberíuþin mikil vegna þinátu eða kals í æsku hérlendis en dæmi eru um mjög vel heppnaða ræktun hans, til dæmis í Kjarnaskógi og Hallormsstaðaskógi þar sem hann hefur verið gróðursettur í skjóli annarra trjáa, ekki síst þar sem þau standa í gróðursettum birkireit eða undir lerki. Síberíuþinur þarf skjól í æsku, helst skerm hávaxnari trjáa, og frjósaman jarðveg. Hann er með öðrum orðum engin frumherjategund og ekki reynandi að gróðursetja hann á skóglausu landi. Helst er árangurs að vænta í eldri skógum í innsveitum þar sem veður er stöðugra en við sjávarsíðuna.
Til helstu kosta síberíuþins telst líklega fegurðin. Þetta er fremur smávaxið tré sem vex hægt en nær með tímanum 30–40 metra hæð í upprunalegum heimkynnum. Hérlendis má búast við að hann geti náð tuttugu metrum eða meira á löngum tíma. Þetta er beinvaxið, einstofna tré með keilulaga krónu eins og títt er með barrtré. Oft er síberíuþin ruglað saman við rauðgreni enda tegundirnar áþekkar að sjá, einkum tilsýndar. Þegar nær er komið sést að barrið er mýkra og meira gljáandi. Síberíuþinur hreyfist tígulega í vindi. Hann hefur fremur ljósgrænan, frísklegan lit sem gerir að verkum að hann er upplagður til að auka fjölbreytni og fegra ásýnd skóga.
Misjafnar skoðanir eru á síberíuþin sem jólatré. Hann hefur óumdeilanlega fegurðina sem til þarf og er barrheldinn eins og aðrir þinir, en mörgum þykir hann svigna um of undan þunga skrauts og jólaljósa. Með léttri seríu og nettu skrauti nýtur hann sín engu að síður mjög vel. Hann ilmar vel og löng hefð er fyrir því að vinna úr honum ilmolíur sem meðal annars eru taldar góðar við hósta og kvefi.
Náskyld tegund kallast mansjúríuþinur á íslensku (Abies nephrolepis). Um hann má lesa á áðurnefndum barrtrjáavef en líka er vert að benda á gagnabrunninn Gymnosperm Database, sem geymir mikinn fróðleik um þini og aðra berfrævinga.