Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna dýra. „Hver sá sem hefur dýr í umsjá sinni skal búa yfir eða afla sér grunnþekkingar á þörfum og umönnun viðkomandi dýrategundar og skal enn fremur búa yfir nægjanlegri getu til að annast dýrið [...].“

Í reglugerðum um velferð hinna ýmsu dýra má gjarna finna ítarlegri útlistun á skilyrðum sem dýraeigendur eiga að uppfylla. Til að mynda er sú krafa gerð til umráðamanna nautgripa, minka og svína að þeir hafi lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarháskóla, lokið námskeiði viðurkenndu af Matvælastofnun (Mast) eða hafi starfað við umsjá tiltekinna dýra sem nemur tveimur árum í fullu starfi. Í reglugerð um velferð hrossa segir að sá sem heldur hross skuli hafa aflað sér grunnþekkingar á eðli þeirra og þörfum. Umráðamaður sauðfjár eða geitfjár þarf að sjá til þess að „hver sá sem ber ábyrgð á umönnun kinda eða geita í hans eigu, hafi hæfni til þess, þekkingu á umönnun og þörfum dýranna og á lögum og reglum um sauðfjár- og geitfjárhald og hafi líkamlega og andlega getu til þess að annast dýrin“.

Hluti af því að annast og halda dýr er að lúta opinberu eftirliti Mast sem hefur gæsluhlutverki að gegna og fylgist með því að ákvæðum laga um dýravelferð sé framfylgt. Til þess framkvæma eftirlitsmenn úttektir á þeim stöðum sem dýr eru haldin. Þar huga þeir að tilteknum þáttum samkvæmt gátlistum með skoðunaratriðum sem byggðir eru á lágmarkskröfum samkvæmt reglugerðum. Þar er tekið á leyfum, byggingum og búnaði, verklagi, hollustuháttum, neytendavernd, velferð og dýrasjúkdómum, svo eitthvað sé nefnt.

Lög um velferð dýra eru nú orðin áratugagömul og á þeim tíma hafa
ýmsar umbætur verið gerðar í utanumhaldi dýra sem talið er að hafi bætt töluvert stöðu dýra í landbúnaði. Sem dæmi hafa búrhænsn nú verið bönnuð svo öll íslensk egg eru nú frá lausagönguhænum.

Lögin hafa líka gert Mast kleift að beita sér skilvirkar í krefjandi málum í eftirliti með dýrum og um það er fjallað í þessu tölublaði Bændablaðsins. Þótt sjónarmið og skilningur talskonu hins opinbera og talsmanns bænda sé að mörgu leyti svipaður ber þeim í milli hvernig hið opinbera, í þessu tilfelli eftirlitsmönnum Mast, er ætlað að leiðbeina þeim dýraeigendum sem uppfylla ekki lágmarkskröfur í eftirlitsheimsóknum.

Á meðan talsmenn Bændasamtakanna tala um leiðbeiningarskyldu og „leiðbeinandi hvatningu til úrbóta“, segir talskona Mast eftirlitsmenn mega stunda fræðslu en ekki ráðgjöf, og „örlítill eðlismunur [sé] þar á“. En hvort sem um fræðslu, ráðgjöf eða leiðbeiningar er að ræða þá er það öllum skýrt að ábyrgð á að tryggja velferð og heilbrigði dýra liggur hjá eigendum dýranna.

Þegar fólk tekur að sér störf sem það hefur virkilegan metnað fyrir liggur það í hlutarins eðli að það vilji gera betur en lágmarkskröfur kveða á um. Allir, sem starfa af heilindum, ættu að vilja stefna hærra en að slefa yfir lágmarkið. Langflestir bændur eru einmitt sammála um það og þetta sýnir tölfræði yfir heildarniðurstöður Matvælastofnunar á eftirliti með dýravelferð í ársskýrslu hennar eins og fram kemur í blaðinu. Mesta hagsmuni af góðri dýravelferð hafa bændur, því ímynd þeirra og gæðaafurða landbúnaðarins er það verðmætasta sem þeir búa að.

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...