Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Íslensk sauðfjárrækt og kolefnisspor hennar
Mynd / Bbl
Á faglegum nótum 21. ágúst 2020

Íslensk sauðfjárrækt og kolefnisspor hennar

Höfundur: Sveinn Hallgrímsson og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson.
Í Bók sinni ,,Líf og land, Um vistfræði Íslands“ segir dr. Sturla Friðriksson 1973 (bls. 162): ,,Sauðfjárafurðir hafa löngum verið undirstaða í fæðu Íslendinga og verið orkugjafi þjóðarinnar.  Til þess að maður þrífist sómasamlega, þarf hann 2500  kcal.  Þurfi hann að fá allt sitt viðurværi af sauðkindinni, er því auðsætt, að hann þarf á jafnmikilli orku að halda og bundin er í nýtanlegum vefjum 9 sauðkinda.“  Sturla mun einnig hafa sagt að ,,... 10 kindur nægðu einum fjölskyldumeðlim til fæðis og skæðis.“  
 
Sem sagt 10 sauðkindur á hvern heimilismann nægðu honum til lífviðurværis, til að fæða hann og klæða.  Okkur þótti þessi niðurstaða dr. Sturlu merkileg, en hún sýndi hversu mikilvæg sauðkindin var, enda hélt hún lífi í þjóðinni um aldir.
 
Kolefnisspor
  
Skýrsla fyrirtækisins Environice ehf. (Birna Sigrún Hallsdóttir og Stefán Gíslason 2017), um kolefnisspor íslenskrar sauðfjárræktar kom út haustið 2017.  Skýrslan var samin að beiðni Landssambands sauðfjárbænda.  Allar tölur um fjárfjölda og afurðir í skýrslunni eru frá árinu 2015.  Allir sem vinna að og með tölur um búfé á Íslandi, vita að allnokkrar sveiflur eru milli ára. Þannig eru ásettningslömb árið 2015 88 þúsund, eða 23,8 %, en eðlilegur ásetningur er um 20 %. Annað er að ekki er gerður greinarmunur á dilkakjöti og kjöti af fullorðnu. 
 
Ekki verður gerð tilraun til að skoða hvort þetta ár gefi óeðlilega niðurstöðu.  Ætlunin er að skoða útreikninga Sigrúnar og Stefáns (Environice ehf.) á kolefnisspori ,,sauðfjárræktar” og verður notast við tölur frá árinu 2015, eins og gert er í skýrslu þeirra. Í skýrslu Environice er allri kolefnislosun, sem skýrsluhöfundar telja að sé til komin vegna sauðfjárræktar, deilt á framleitt kindakjöt 2015.  Það er, að okkar mati, mjög mikil einföldun.  Fleira er matur en feitt kjöt, segir máltækið.
 
Má þar nefna að Íslendingar hafa  alltaf borðað innmat sauðkindarinnar;  hjörtu, lifur, nýru og einnig nýtt mör og eistu, að ekki sé talað um svið. Sömuleiðis framleiðir kindin ull og gæru.  Það er því eðlilegt að allur matur, og aðrar afurðir, sem af sauðkindinni kemur, taki á sig sinn hluta af kolefnissporinu, ekki bara kjötið.  Þá eru ull og gæra hluti af afurðum sauðfjár og á því að taka sinn skerf af kolefnissporinu.  Það er því eðlilegt að umreikna þessar afurðir í ,,kjötígildi“ og deila í það kolefnisspor sem telst afleiðing af framleiðslu sauðfjárafurða á Íslandi, samkvæmt skýrslu höfunda.
 
Skýrsluhöfundar komast að því að bein losun vegna sauðfjárræktar á gróðurhúsalofttegundum, GHL, sé 241 Gg eða 23,6 kg á framleitt kg kjöts framleiðsluárið 2015.   Jafnframt kemur fram að losun GHL á kg kjöts hefur, samkvæmt skýrslunni, minnkað úr 29,9 kg í 23,6 frá 1990 til 2015. Minnkunin er afleiðing af þeirri stefnu í ræktun sauðfjár að auka afurðir með meiri frjósemi og þyngri föllum (Sveinn Hallgrímsson 1980).
 
Önnur losun
 
Samkvæmt skýrsluhöfundum er önnur losun vegna  ,,... notkunar þvagefnis, kalks og eldneytis.“  Höfundar segja jafnframt:  
 
,,Ekki eru til tölur um notkun þessara aðfanga í sauðfjárræktinni einni og sér, en ef gert er ráð fyrir að helmingur þess þvagefnis og kalks sem notað er á landsvísu sé nýtt í sauðfjárrækt má gera ráð fyrir að losun vegna notkunar þessara efna hafi verið 2,2 Gg CO2-ígilda 2015. Ef einnig er gert ráð fyrir  að sauðfjárræktin hafi notað um helming þess jarðeldneytis  sem áætlað er að hafi verið notað í landbúnaði á Íslandi árið 2015, má ætla að losun sauðfjárræktarinnar vegna eldsneytisnotkunar hafi samsvarað um 39,3 Gg CO2-ígilda árið 2015.“ 
 
Það verður að teljast vel ílagt að ætla sauðfjárræktinni helming af allri eldsneytisnotkun í landbúnaði!  Annar landbúnaður: Nautgriparækt, hrossarækt, garðyrkja, ylrækt, fiskeldi á landi (og í sjó?), silungsveiði, laxveiði, heysala til útlanda og innanlands, kornrækt og ræktun olíujurta, ferðaþjónusta þar sem hún er hluti búrekstrar og önnur starfsemi sem fram fer á bújörðum! Þessi ályktun skýrsluhöfunda stenst ekki. Sé reiknað með að sauðfjárræktin noti 30% þess eldsneytis, sem notað er í landbúnaði, en ekki 50%, verður losun vegna eldsneytis 23,6 Gg 2015 í stað í stað 39,3 Gg.
 
 
Aðrar afurðir sauðfjár
 
Aðrar afurðir sauðfjár verða til sem aukaafurðir við framleiðsluna. Þær helstu eru;  ull, gærur, svið og innmatur: Hjörtu, lifur, nýru, mör og eistu (hjá hrútlömbum). Hér verður sleppt að reikna þind, ristlil og garnir sem voru notuð til matargerðar hér áður, t. d. í rúllupylsur. Garnir voru til skamms tíma líka notaðar utan um pylsur, og reyndar þóttu pylsur ekki mannamatur nema þær væru í alvöru görnum. Þá má ekki gleyma blóðinu sem notað er í blóðmör, en aðeins lítill hluti þess er nýttur til manneldis. Hálsæðar hafa einnig verið nýttar til manneldis.  Hér á eftir verða þessar afurðir umreiknaðar yfir í kjöt, eins og heimildir segja til um.  Við umreikning á ull og gæru yfir í kjöt, er reiknað út frá þurrefnismagni ullar og gæru annars vegar og kjöts hins vegar (Hallgrímsson 1981).
 
Eyjólfur Kristinn Örnólfsson.
Í skýrslu Ásbjörns Jónssonar og fl. 2015 (Matra-Matvæla­rannsóknir Keldnaholti) eru taldar upp aðrar afurðir, sem eru hirtar til manneldis.  Þar má t d nefna gollurshús og æðar, garnir, laka og vinstur, vömb og kepp og þind.  Auðvitað ætti að nýta allar þessar afurðir. Annað er matarsóun. Þessar afurðir eru þó ekki taldar með hér.  Af ofannefndum afurðum eru 3,84+ 5,50 = 9,34 kg á hvert lamb  og 3,59 kg á vetrarfóðraða kind.
 
Samkvæmt skýrslu Environice eru fullorðið fé 2015 samtals 472.461 og lömb 2015 708.080.
 
Til að reikna viðbótar kjötígildi út frá vetrarfóðruðum kindum:
 
  • Fjöldi vetrarfóðraða kinda 2015;  472.461x 3.59= 1.686,1 tonn/ kjötígilda.  
  • Og sama fyrir lömbin: Lambafjöldinn 708.080X9,34 = 6.613,5 tonn kjötígilda
  • Viðbótarkjöt af aukaafurðum er því; 1.686,1 + 6.613,5 = 8.299,6 tonn
  • Heildarframleiðsla kindkjöts (kjötígilda) er þá;  10.185+ 8.299,6 = 18.484,6  tonn
Á bls. 21 í skýrslu Sigrúnar og Stefáns segir, sjá töflu 9:  
 
,,Eins og tafla 9 gefur til kynna nam heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárrækt á Íslandi  294,1 Gg CO2- ígilda árið 2015 miðað við þær forsendur sem hér er gengið út frá.“
 
Enn fremur segir:  
 
,,Árið 2015 nam framleiðsla lambakjöts (=kindakjöts) samtals 10.185 tonnum sem þýðir að kolefnisspor greinarinnar frá vöggu að hliði var 28,6 kg kolefnisígilda á hvert framleitt kg lambakjöts.“
 
Þegar búið er að draga frá 15,7 Gg vegna ,,...leiðréttingar“ eldsneytis­notkunar verður heildarlosun frá sauðfjárrækt: 291,4- 15,7= 275,7 Gg. Þegar búið er að reikna leiðréttingu er losunin GHL, kg/kg = 275,700/18.484,6 =  14,92, lækkar úr 28,6 kg í 14,92 kg.
 
Losun glaðlofts N2O
 
Sveinn Hallgrímsson.
Spyrja má hvort rétt sé að reikna losun glaðlofts frá sauðfé til gjalda í þessu bókhaldi, þar sem það eyðist á 15 til 20 árum, sjá grein Þórarins Magnússonar í Bændablaðinu í apríl 2020. Segja má að glaðloftið sé hluti af hringrás. Sólarljósið bindur koldíoxíð og fleiri efni í beitarplöntum. Sauðkindin bítur grasið, framleiðir kjöt en glaðloft fer út í andrúmsloftið, en minna en áður vegna þess að framleiðni í sauðfjárrækt er meiri en áður. Þetta er umhverfisvæn hringrás, sem skilar fæðu en eykur ekki við mengun. Er ekki hér um samskonar hringrás að ræða eins og orkuframleiðslu með vatnsafli? Sólarljósið leiðir til uppgufunar vatns, sem fellur sem rigning á hálendinu. Það er virkjað í vatnsaflsvirkjun. Hringrás, sem annars vegar framleiðir kjöt og hins vegar raforku. Raforka framleidd með vatnsafli er vistvæn, samkvæmt okkar skilgreiningu. Er þá ekki kindakjöt það líka?
 
Við þessar hugleiðingar má bæta að nær öll orka sem sauðkindin notar við framleiðsluna er sólarorka! Einnig er rétt að benda á að sauðkindin ,,moltar“ grasið og skilur eftir sig áburð, sem hjálpar til við að skapa grunn fyrir afurðir næsta árs.  Þess er ekki gætt við útreikninga á kolefnisspori sauðfjárafurða að áburðurinn eykur uppskeru.  
 
Meðal ullarþungi á kind er 2,3 kg /0,64 = 3,59 kg kjötígilda/á
Gæra; (16x0,22 á lamb)/0,64.                = 5,50 kg kjötígilda á lamb
Aðrar afurðir        
Svið        = 1,30 kg kjötígilda á lamb
Hjörtu og nýru      = 0,27 kg kjötígilda á lamb
Lifur        = 0,42 kg kjötígilda á lamb
Mör (nýrmör og netja)    = 1,25 kg kjötígilda á lamb
Eistu (1)        = 0,15 kg kjötígilda á lamb
Blóð (10 %)      = 0,13 kg kjötígilda á lamb
Hálsæðar      = 0,32kg kjötígilda á lamb 
Samtals       = 3,84 kg kjötígilda á lamb
 
Tilvitnanir.
Ásbjörn Jónsson, Irek Klonowski, Elsa Dögg Gunnarsdóttir og Hafsteinn Hafsteinsson 2015.  Aukin nýting hliðarafurða sauðfjárslátrunar, lokaskýrsla.  Sjá Frey 7. 99. árg. 2003
Birna Sigrún Hallsdóttir og  Stefán Gíslason 2017.  Sauðfjárrækt og loftlagsmál.  Fjölrit 24 bls.
Sveinn Hallgrímsson1980.  Ársrit RN 1979-80.  Frjósemi og hagkvæmni sauðfjárræktar
Sveinn Hallgrímsson 1981:  Framleiðslukostnaður ullar.  Freyr 77;  823 - 825
Sturla Friðriksson 1973.  Líf og land.  Um vistfræði Íslands;  Varði.  263 bls.;  Bls 158 og 173
Þórarinn Magnússon 2020.  Huppa, Surtla og himinhvolfið.  Bændablaðið 23. apríl 2020
 
Greinarhöfundar.
 
Sveinn Hallgrímsson
er dr. scient í kynbótafræði og fyrrverandi ráðunautur í 
sauðfjárrækt.  
 
Eyjólfur Kristinn Örnólfsson
hefur Bs í líffræði frá HÍ
og er kennari við LbhÍ
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...