Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Mikil tækifæri í matvælaframleiðslu
Fréttir 18. febrúar 2015

Mikil tækifæri í matvælaframleiðslu

Höfundur: Vilmundur Hansen

„Ég sé mikil tækifæri fyrir Íslendinga í matvælaframleiðslu og ég held að við ættum að horfa til þess sem Svíar hafa verið að gera með verkefninu Matlandet Sverige,“ segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra í ársskýrslu Mátís.

Sýn þarlendra stjórnvalda er að Svíþjóð verði hið nýja matarland Evrópu og byggi á sænskum matarhefðum, verðmætri náttúru og menningu, einstöku hráefni og matreiðslumönnum sem náð hafa miklum árangri alþjóðlega. Allt þetta eigum við að geta gert líka. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á aðgerðir til að auka matvælaframleiðslu hér á Íslandi. Þar leggjum við áherslu á útflutning og sérstöðu Íslands þegar kemur að hreinleika og gæðum hráefna.

Með aukinni sjálfbærri og vistvænni matvælaframleiðslu höfðum við til ört stækkandi markhóps bæði hér heima og erlendis. Aukning í innlendri matvælaframleiðslu gefur möguleika á að auka hagvöxt og fjölga störfum. Tækifærin er að finna í matvælavinnslu, útflutningi, ferðaþjónustu og upplifun sem og í landbúnaðinum sjálfum.

Sérstaða okkar þegar kemur að ferskleika matvæla er einstök. Landið er stórt og við höfum aðgang að miklu magni af hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða alls annars í matvælaframleiðslu, og þar er gott að geta treyst á landbúnaðinn og óspillta íslenska náttúru.

Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum þegar kemur að matvælaframleiðslu og við nýsköpun í matvælaiðnaði er ekki síst mikilvægt að hugsa um gæði matvælanna og matvælaöryggi á sama tíma og reynt er að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Stjórnvöld eiga að huga að því að fjölga matvælaframleiðendum, bæði stórum og smáum og auka veltu þeirra.

Stærsti matvælakaupandinn er hið opinbera og því fylgir mikil ábyrgð. Stefnumörkun stjórnvalda skiptir því miklu máli þegar kemur að hráefniskaupum fyrir þær þúsundir máltíða sem framreiddar eru daglega í skólum, á sjúkrastofnunum og elliheimilum.

Í raun þarf að verða ákveðin vitundarvakning þegar kemur að vali á hráefni auk þess sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að gæta vel að vali og þjálfun starfsmanna við vinnslu og innkaup á matvælum. Einnig þarf að leggja áherslu á fullnýtingu hráefnis og hagræðingu í innkaupum, án þess þó að það komi niður á gæðum máltíðanna.

Matur er og verður stór hluti af upplifun okkar af því að heimsækja önnur lönd. Þetta þurfum við að leggja enn meira áherslu á á Íslandi. Jafnvel má orða þetta svo að sala á innlendum mat til erlendra ferðamanna sé útflutningur, þar sem kaupandinn borgar sjálfur fyrir flutninginn. Frábært dæmi um hvernig menn hafa nýtt innlent hráefni og menningu eru kryddpylsurnar hans Klaus Kretzer, sem hann framleiðir úr kindakjöti í Öræfunum. Pylsurnar hafa slegið í gegn og eru orðnar hluti af upplifun ferðamannsins þegar hann heimsækir Skaftafell og Öræfin. Við þróun á hugmyndinni naut hann aðstoðar frá Matarsmiðju Matís á Höfn. Við þurfum að gera meira af þessu. Því var verkefnið Arctic Bioeconomy sérstakt ánægjuefni en það var hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið skilaði tæplega 30 nýjum vörum sem voru unnar í samstarfi við Matís sem hefur leitt þennan hluta verkefnis.

Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um sérstöðu Íslands og orðspor íslenskra matvæla er hluti af því. Við þurfum að styðja við framþróun í þessum geira og það getum við gert með því að styðja við þátttöku Íslendinga í matreiðslukeppnum, gerð íslenskra matreiðslubóka og sjónvarpsþátta og að sjálfsögðu rekstri fjölbreyttrar flóru íslenskra veitingastaða, þannig komum við matnum okkar á framfæri, hvetjum fólk til að sækja landið heim og styðjum við íslenska matvælaframleiðslu.

Ofangreindur texti birtist upphaflega í ársskýrslu Matís fyrir árið 2014.
 

Skylt efni: Matís | Matvæli

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...