Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Jakob Birgisson og Snorri Másson eru um þessar mundir að leggja upp í ferð um allt landið til að fræða grunnskólanema um íslensk miðaldahandrit. Eru þeir félagar væntanlegir á Vestfirði nú undir lok september.
Jakob Birgisson og Snorri Másson eru um þessar mundir að leggja upp í ferð um allt landið til að fræða grunnskólanema um íslensk miðaldahandrit. Eru þeir félagar væntanlegir á Vestfirði nú undir lok september.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 22. september 2020

Afnema einokun Reykvíkinga á handritunum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Jakob Birgisson og Snorri Másson eru um þessar mundir að leggja upp í ferð um allt landið og eru væntanlegir á Vestfirði nú undir lok september, þar sem þeir munu fræða grunnskólanema um íslensk miðaldahandrit og ævintýri Árna Magnússonar.

Sumarlangt hafa þeir garfað í fornum skinnhandritum í dýpstu hvelfingum Árnastofnunar í Vesturbæ Reykjavíkur og eftir þær rannsóknir sínar liggur þeim mikið á hjarta, að eigin sögn. „Það er náttúrlega viðvarandi skandall að önnur eins krúnudjásn liggi þarna í felum frá öllum almenningi, þó að mér skiljist reyndar að það séu mjög góðar og vísindalegar ástæður fyrir að svo sé. Eftir að hafa legið yfir þessu í sumar er ég sannfærður um nauðsyn þess að færa börnunum handritin, enda er þetta náttúrlega það merkilegasta sem Íslendingar eiga,“ segir Snorri.

Fræða æsku landsins um fornan bókmenntaarf

Markmið ungu fræðaranna er að fræða æsku landsins um þennan forna bókmenntaarf. Jakob segir ærið tilefni til.
„Það verður auðvitað að forða þessu frá gleymsku. Þetta má ekki bara liggja inni á söfnum í klóm fræðimanna heldur þarf að bera út fagnaðarerindið til fólksins. Til þess að sýna hvað þetta stendur okkur nærri erum við líka með allar græjur með okkur og kennum börnunum hvernig á að skrifa miðaldahandrit eftir fornri aðferð. Þar fá þau innsýn í horfinn heim og máta sig við það svið lista þar sem Íslendingar hafa afrekað hvað mest,“ segir Jakob.

„Og þau læra líka hvað það er yndislega flókið að skrifa á kálfskinn,“ bætir Snorri við.

Drifnir áfram af samviskubiti

Vestfirðir eru fyrstir á dagskrá en farið verður í alla landsfjórðunga í 50–60 skóla, allt í nafni verkefnis Árnastofnunar, sem heitir Handritin til barnanna, og er ýtt úr vör í tilefni þess að hálf öld er liðin frá því að fyrstu handritin komu heim 21. apríl 1971.

„Það er auðvitað í hæsta máta viðeigandi að við byrjum á Vestfjörðum. Árni Magnússon handritasafnari, sem er að okkar mati merkasti maður í sögu landsins, ferðaðist hér um sumarið 1710 til að safna gögnum um jarðeignir en nýtti tækifærið til að safna handritum. Hann sagðist reyndar ekki geta haft vetrarsetu á svæðinu án þess að heilsa hans biði skaða og ég skal ekki segja um hvað ég þyldi í þeim efnum. Það reynir sem betur fer ekki á það í vetur enda er dagskráin stíf fram að jólum í skólaheimsóknum víða um land,“ segir Snorri.

„Eins og Snorri segir felst mikið réttlæti í að byrja á Vestfjörðum. Við erum sjálfir með annan fótinn hérna á sumrin. Forfeður mínir byggðu Engidal og Arnardal, en samt er ég ekki maður til að setjast þar að, frekar en Árni. Því er svo sem eins farið um fjölda Reykvíkinga sem liggja hér í makindum á sumrin, jafnvel fjötraðir í garði Gunnlaðar eins og segir í Konungsbók, en eru síðan horfnir við fyrsta snjó á heiðum,“ segir Jakob.

Snorri tekur undir og kveðst þjakaður af sama samviskubiti

„Það minnsta sem við getum gert er að koma hérna færandi hendi með handritin, þó að við séum því miður ekki með upprunalegu eintökin með okkur af því að við megum það ekki. Reykvíkingar hafa í raun og veru einokað þetta gersamlega í hálfa öld og aðrir landshlutar setið eftir með sárt ennið. Með okkar ferðum og kynningum fyrir börnin erum við loksins að afnema einokunina og frelsa handritin. Eða sú er alla vega hugsjónin,“ segir Snorri. Hann segir að Árnastofnun taki miðlunarhlutverk sitt alvarlega og þegar það sé í þokkabót gert skemmtilega séu börnin þau sem njóti mest góðs af. 

Burt með gerviefnin
Líf og starf 21. janúar 2025

Burt með gerviefnin

Stöðugt rakastig jarðvegs tómataræktar á Ítalíu kom skemmtilega á óvart nú á lið...

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC
Líf og starf 20. janúar 2025

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC

Það ríkti engin lognmolla í skákheiminum á milli jóla og nýárs. Heimsmeistaramót...

Janúar er mánuður briddsins
Líf og starf 17. janúar 2025

Janúar er mánuður briddsins

Fjölmörg briddsmót fóru fram um jólin hér og þar um landið. Sums staðar þóttu br...

Kría – barnapeysa
Líf og starf 17. janúar 2025

Kría – barnapeysa

Peysan er prjónuð úr einföldum Þingborgarlopa og einum þræði af LoveStory saman....

Bústörf yfir hávetur
Líf og starf 15. janúar 2025

Bústörf yfir hávetur

Verkefni bænda halda áfram þrátt fyrir hátíðarhöld og lögbundna frídaga. Hér eru...

Heimabakað brauð
Líf og starf 15. janúar 2025

Heimabakað brauð

Brauðbakstur er merkilega einföld iðja en um leið afskaplega flókin. Hveiti, vat...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 13. janúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn stígur gætilega til jarðar þessi fyrstu skref ársins, uppfullur forv...

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...