Fjórar viðurkenningar veittar fyrir góð störf
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin nýverið en ekki reyndist unnt að halda hátíð árið 2020 vegna heimsfaraldurs.Að þessu sinni var farið um vestanverðan Eyjafjörð, fyrirtæki voru heimsótt á Dalvík og Ólafsfirði áður en haldið var í Fljótin og þaðan á Siglufjörð.
Á Kaffi Rauðku var slegið upp veislu um kvöldið en þar voru, venju samkvæmt, veittar viðurkenningar fyrir störf sem tengjast ferðaþjónustu.
Fyrirtæki ársins 2021 er SBA Norðurleið. Þessa viðurkenningu fá fyrirtæki sem hafa skapað sér sterka stöðu á markaði og hafa unnið að uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu á Norðurlandi. SBA Norðurleið sérhæfir sig í útleigu hópferðabifreiða og er eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Akureyri og starfsstöð í Hafnarfirði og er með flota af 80 vel útbúnum bifreiðum til sumar- og vetraraksturs. Góð þjónusta hefur ávallt verið í fyrirrúmi hjá fyrirtækinu og hefur það verið mjög öflugt í að nýta þau tækifæri sem gefast til að byggja upp aukna starfsemi á Norðurlandi. SBA er enda þekkt fyrir að geta tekist á við hvaða aðstæður sem er.
Sproti ársins er 1238: Battle of Iceland. Þessi viðurkenning er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. 1238: Battle of Iceland var stofnað árið 2019 og býður upp á frábæra aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa. Sögusetrið 1238 er gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar.
Þátttakendur komu við á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík og fræddust um starfsemi þess.
Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar. Fyrirtækið hefur sýnt mikinn metnað í stafrænni markaðssetningu og verið mjög sýnilegt á öllum helstu boðleiðum. Í fyrra þurfti fyrirtækið að aðlaga þá markaðssetningu í meiri mæli að Íslendingum og tókst það vel. Sýningin hefur fyrir vikið vakið mikla athygli innanlands en einnig á erlendum mörkuðum. Þetta starf ýtir undir uppbyggingu á öflugri ferðaþjónustu í Skagafirði allt árið og vekur athygli bæði á nærsvæði fyrirtækisins en einnig Norðurlandi öllu.
Geiturnar á Brúnastöðum í Fljótum vöktu athygli þátttakenda.
Viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu hlaut Linda María Ásgeirsdóttir. Sú viðurkenning er veitt einstaklingi sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Linda María hefur unnið af heilindum fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi í fjölda ára. Hún hefur verið í forsvari fyrir Ferðamálafélag Hríseyjar og rekur núna veitingastaðinn Verbúð 66 í Hrísey. Einnig hefur hún setið í svæðisráði Hríseyjar fyrir Akureyrarbæ og starfað með okkur á Markaðsstofunni í hópi ferðamálafulltrúa. Linda María hefur unnið þétt með fyrirtækjum og einstaklingum sem byggja upp ferðir til Hríseyjar og haldið utan um skipulag ferða og heimsókna með ýmsum aðilum í gegnum árin. Hún á því stóran þátt í að halda úti ferðaþjónustunni í eynni en mjög mikilvægt er fyrir okkur á Norðurlandi að gestir okkar geti farið þangað í heimsókn og notið góðrar þjónustu og veitinga.
Í ár var ákveðið að bæta fjórðu viðurkenningunni við. Hvatningarverðlaun ársins 2021 voru veitt Fairytale at Sea. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 og býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun. Markaðsstofa Norðurlands fær reglulega fyrirspurnir um möguleika á alls konar ævintýraferðum þar sem náttúran er í fyrirrúmi og fyrirtækið nær að sinna þeim verkefnum einstaklega vel með sæþotuferðum frá Ólafsfirði sem siglt er meðal annars að fossinum Míganda og til móts við miðnætursólina.
Litið var inn á Síldarminjasafnið á Siglufirði.