Heimsmeistaramót í blómaskreytingum
Nemendur í blómaskreytingum hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands fóru ásamt kennurum og fagmönnum á heimsmeistarakeppnina í blómaskreytingum í Manchester í Englandi í byrjun september.
„Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst að njóta og læra af þeim snillingum sem þarna voru að keppa í blómaskreytingum. Alls voru keppendur frá 20 löndum og fór keppnin þannig að Þýskaland lenti í fyrsta sæti, Noregur í öðru sæti og Bretland í þriðja sæti. Íslendingar hafa aldrei keppt í þessari keppni en vonandi munum við senda frá okkur fulltrúa einn daginn,“ segir Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, blómaskreytingakennari. Þátttakendur í ferðinni voru tólf, tveir kennarar, sjö nemendur og þrír blómaskreytar, sem vinna í faginu hér heima.
Mikið lagt í umgjörð keppninnar
Heimsmeistaramótið Interflora er stærsti alþjóðlegi viðburður í heimi blómaskreytinga. Mótið hefur verið haldið á nokkurra ára fresti víðs vegar um heiminn allt frá árinu 1972. Fyrirtækið Interflora átti 100 ára afmæli á þessu ári og var því mikið lagt í skreytingar og umgjörð keppninnar, auk þess sem þetta var í fyrsta skipti sem keppnin var opin bæði fagfólki og almenningi.
„Um 600 manns sóttu heimsmeistaramótið. Keppnin sjálf stóð í þrjá daga og þurftu keppendur að gera þrjú undirbúin verkefni og þrjú óundirbúin. Þarna reyndi heldur betur á keppendur að vera fljótir að hugsa og að ná að vinna verkefnin á skömmum tíma,“ segir Bryndís Eir.
Njóta og læra
Bryndís segir ferðina hafa verið ákaflega lærdómsríka. „Það var til dæmis magnað að sjá hvað margir keppenda hugsuðu langt út fyrir boxið í efnisvali og komu fram með nýstárlegar og eiginlega ótrúlegar hugmyndir. Nemendur og við kennararnir vorum hæstánægð með ferðina, áttum þarna frábæra daga sem skilja svo sannarlega eftir sig svimandi háa innistæðu í minningabankanum,“ segir Bryndís Eir alsæl.
Blómabransinn hefur breyst mikið
Þegar Bryndís Eir er spurð út í gildi og mikilvægi blómaskreytingabraut arinnar er hún fljót til svars.
„Blómaskreytar sinna mjög fjölbreyttu starfi og útbúa skreytingar fyrir viðskiptavini sína við alla helstu viðburði lífsins, frá vöggu til grafar og alls þess á milli. Starfið er mjög gefandi og skemmtilegt og margir möguleikar í boði, hvort sem fólk vill vinna í blómabúð eða taka að sér sjálfstæð verkefni. Blómabransinn hefur breyst mikið á stuttum tíma, fólk vill hafa meira af blómum í kringum sig, hvort sem það er á vinnustað, heima við, við opinbera viðburði eða viðburði í einkalífinu, svo sem brúðkaup og fleira. Það hefur líka verið mjög vinsælt hjá erlendu fólki að gifta sig á Íslandi og það er stór og vaxandi markaður sem blómaskreytar sinna.“
Blómaskreytinganámið í Garðyrkjuskólanum, sem nú heyrir undir Fjölbrautaskóla Suðurlands, er tveggja ára nám, auk 60 vikna verknáms í faginu. Þennan veturinn eru sjö nemendur á brautinni og aðalkennarar brautarinnar eru þær Bryndís Eir, sem er námsbrautarstjóri og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir blómaskreytir.
Innan um blóm alla daga
Bryndís Eir er að lokum innt eftir hennar skoðun á framtíð brautarinnar, hvernig hún sjái hana. „Við Valgerður segjum alltaf að lífið sé skemmtilegra með blómum. Blómin gefa frá sér orku, fegurð og gleði og það er ekki hægt að hugsa sér betri vinnu en að vera innan um blóm alla daga. Svo viljum við koma því sérstaklega á framfæri að það er eingöngu jákvætt, hláturmilt og skemmtilegt fólk sem vinnur með blóm. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið, við erum sannfærðar um að ef gerðar væru vísindalegar rannsóknir á þessu þá yrði niðurstaðan þessi: Blómum fylgir hamingja og gleði. Það er allavega gleði og hlátur alla daga á blómaskreytingabrautinni, sem ómar um skólabygginguna og bergmálar í Reykjafjallinu.“